Viltu vinna sem jafningi á geðgjörgæslu, Hringbraut?
Geðgjörgæslan Hringbraut auglýsir laust til umsóknar spennandi hlutastarf fyrir áhugasama. Um er að ræða starf sem jafningi (peer supporter) á deildinni. Vinnutími er sveigjanlegur eftir verkefnum hverju sinni. Upphafsdagur starfs er 15. september 2025 eða eftir nánara samkomulagi.
Við leitum eftir jákvæðum og ábyrgum einstaklingi með góða samskiptahæfni. Viðkomandi þarf að hafa persónulega reynslu sem notandi geðheilbrigðisþjónustu, vera tilbúin að deila reynslu sinni í sínu starfi og ígrunda aðstæður, upplifanir, þarfir og reynslu með þjónustuþegum, öðrum jafningjum og samstarfsfólki á deildum.
Geðgjörgæsla er 10 rúma legudeild þar sem veitt er sérhæfð þjónusta í meðferð og umönnun einstaklinga með bráð geðræn einkenni. Gagnreynd þekking, viðurkenndir verkferlar og hugmyndafræði um geðgjörgæslu eru í fyrirrúmi.
Á deildinni starfa um 50 einstaklingar í þverfaglegu meðferðarteymi. Vinnuandinn einkennist af samvinnu, lipurð, stuðningi, metnaði og góðum liðsanda.
Starfsþjálfun fer fram með öðrum jafningjum. Ætlast er til að jafningjar séu í reglulegum samskiptum sín á milli og taki þátt í notendaráði geðþjónustu að einhverju marki. Einnig verður jafningjum boðið að fara á námskeið í jafningjastuðningi hafi þeir ekki lokið því. Nýtt starfsfólk fær tækifæri til að hafa áhrif á hvernig, hvar og hvenær starfið er unnið. Hér eru mikil tækifæri til þess að taka þátt í að þróa starfið enn frekar innan geðþjónustunnar og í víðara samhengi.
- Vinna með fólki sem er í þjónustu Geðgjörgæslu
- Veita jafningjastuðning við þjónustuþega og stuðla að valdeflingu
- Auka og þróa aðkomu jafningja í starfseminni
- Virk þátttaka í þverfaglegu samstarfi
- Ýmis fjölbreytt verkefni sem koma að starfi jafningja á deildum
- Þátttaka í skipulagðri starfsemi deildarinnar
- Reynsla sem notandi geðheilbrigðisþjónustu er skilyrði
- Að hafa setið námskeið um jafningjastuðning er kostur
- Þekking á batastefnu/ valdeflingu er kostur
- Vilji til að vinna að réttindum notenda og geta til að deila eigin reynslu til stuðnings öðrum notendum
- Mjög góð samskiptahæfni, skapandi hugsun og frumkvæði
- Áreiðanleiki og reglusemi
- Geta til að vinna sjálfstætt
- Góð samstarfshæfni og geta til að vinna í þverfaglegu teymi
- Íslensku- eða enskukunnátta áskilin, önnur tungumálakunnátta er kostur
- Almenn tölvukunnátta
Frekari upplýsingar um starfið
Umsókn fylgi náms- og starfsferilskrá ásamt kynningarbréfi. Fylgiskjöl skulu vera á pdf formi.
Tekið er mið af jafnréttisstefnu Landspítala við ráðningar á spítalanum. Öllum umsóknum verður svarað.
Landspítali er lifandi og fjölbreyttur vinnustaður þar sem um 7000 einstaklingar starfa í þverfaglegum teymum og samstarfi ólíkra fagstétta. Framtíðarsýn Landspítala er að þar sé veitt framúrskarandi heilbrigðisþjónusta byggð á vísindum, fagmennsku og umhyggju, öflugu fagfólki og studd með umgjörð og aðbúnaði sem sómi er að.
Landspítali hefur hlotið jafnlaunavottun samkvæmt jafnlaunastaðlinum ÍST85:2012, úttekt framkvæmd af Versa vottun ehf.
Umsóknir geta gilt í 6 mánuði frá því að umsóknarfrestur rennur út, sbr. 2. gr. reglna nr. 464/1996, um auglýsingar á lausum störfum með síðari breytingum.
Starfsmerkingar: Heilbrigðisþjónusta, ráðgjafi, stuðningsfulltrúi, almenn störf
Tungumálahæfni: íslenska 3/5, enska 3/5