Á hverju ári verða um 1000 byltur á Landspítalanum og eru byltur algengustu atvikin hjá inniliggjandi sjúklingum. Hætta á byltum er mest hjá einstaklingum 65 ára og eldri, auk sjúklinga 50-64 ára sem metnir eru í byltuhættu vegna undirliggjandi sjúkdóma eða ástands.
Bylta er skilgreind sem atvik þar sem einstaklingur fellur óviljandi niður á gólf, jörð eða annan lágan flöt. Byltur geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir sjúklinga og þeim fylgir gríðarlegur kostnaður. Alþjóðlegar rannsóknir sem hafa skoðað áhættuþætti byltna innan sjúkrahúsa hafa leitt í ljós að næringarástand sjúklinga er áhættuþáttur fyrir byltur.
Vorið 2025 var í fyrsta sinn á Íslandi rannsakað hvort tengsl væru milli byltna og áhættu á vannæringu samkvæmt skimun á næringarástandi hjá inniliggjandi sjúklingum á Landspítala sem voru 65 ára og eldri. Niðurstöðurnar sýndu að 34% þeirra sem urðu fyrir byltu voru í mikilli áhættu á vannæringu. Einnig kom fram að sjúklingar í mikilli hættu á vannæringu dvöldu lengur á spítalanum og voru síður sjálfbjarga eftir byltuna.
Ítarlegri niðurstöður rannsóknarinnar verða kynntar ásamt fleiri áhugaverðum erindum á málþingi í tilefni af alþjóðlegum degi byltuvarna 22 september.
Dagurinn verður tileinkaður mikilvægi næringar í forvörnum gegn byltum.
Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.
Málþinginu verður einnig streymt á rafrænum miðlum Landspítala.
ATH: Dagskrá málþingsins mun liggja fyrir 28. ágúst 2025 og verður birt hér