Ný fjármála-, mannauðs- og vaktaáætlanakerfi sett upp á LSH
Margir starfsmenn Landspítala - háskólasjúkrahúss taka á næstu mánuðum þátt í umfangsmikilli vinnu við mótun og uppsetningu á nýjum fjármála-, mannauðs- og vaktáætlanakerfum.
Fjármálaráðuneytið gerði fyrir nokkru samning við Skýrr um að setja upp Oracle e Business Suite hjá ríkisstofnunum, í kjölfar útboðs. Áður en gengið var til samninga við Skýrr hafði undirbúningur staðið meira en ár og meðal annars verið unnin nákvæm þarfalýsing fyrir útboð Ríkiskaupa.
Landspítali - háskólasjúkrahús verður fyrsta stofnunin sem tekur nýju kerfin í notkun. Eftirtaldir kerfishlutar verða settir upp:
Fjárhagskerfi, þ.m.t. fjárhagsbókhald, birgðabókhald og innkaupakerfi.
Mannauðskerfi, þ.m.t. launakerfi.
Vakta- og viðveruskráningarkerfi.
Nýtt kerfi mun auka rafræn viðskipti, upplýsingar verða ítarlegri og öll skýrslugerð og úrvinnsla mun reynast fljótlegri en verið hefur.
Kerfið verður sett upp til prufukeyslu fyrir áramót. Fjárhagskerfi verður prófað á lyflækningasviði II og hjá Blóðbankanum. Mannauðskerfi og vaktaáætlana- og viðverukerfi verða prófuð á deild L5 á öldrunarsviði og á slysadeild.
Stefnt er að því að allir kerfishlutar verði komnir í notkun á vormánuðum, að undanskildu launakerfinu.
Skipuð hefur verið verkefnisstjórn til þess að vinna að uppsetningu og innleiðingu nýja kerfisins og hópar fyrir hvern kerfishluta.
Upplýsingar um framvindu verkefnisins birtast á upplýsingaveitu spítalans Þeir sem vilja koma spurningum eða ábendingum á framfæri sendi þær á tölvupóstfangið oracle@landspitali.is eða á hópstjóra.