Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, heldur blaðamannafund í veitingastaðnum Perlunni miðvikudaginn 30. janúar, og hefst fundurinn kl. 13:00.
Á fundinum kynnir heilbrigðismálaráðherra niðurstöðu þriggja manna nefndar um framtíðaruppbyggingu Landspítala - háskólasjúkrahúss, en ráðherra lét það verða eitt af fyrstu verkum sínum í embætti að skipa nefndina. Af því tilefni lét ráðherra þess getið að afar brýnt væri að taka ákvörðun um framtíðaruppbyggingu Landspítala - háskólasjúkrahúss vegna heilbrigðisþjónustunnar í landinu, svo skipuleggja mætti hana til langrar framtíðar.
Á blaðamannafundinum gerir nefndin grein fyrir tillögunni og forsendunum sem hún byggist á. Í nefnd heilbrigðisráðherra eru þau Ingibjörg Pálmadóttir, fyrrverandi heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, Magnús Pétursson, forstjóri Landspítala - háskólasjúkrahúss, og Páll Skúlason, rektor Háskóla Íslands. Ritarar starfsnefndarinnar voru Ingólfur Þórisson framkvæmdastjóri tækni og eigna og Ragnheiður Haraldsdóttir skrifstofustjóri í heilbrigðisráðuneytinu og tóku þau jafnframt fullan þátt í nefndarstarfinu.