Neyðarmóttaka fyrir þolendur kynferðisofbeldis

Neyðarmóttaka fyrir þolendur kynferðisofbeldis
Landspítala Fossvogi
Opnuð 1993.

Markmið neyðarmóttökunnar að tryggja velferð og stöðu þeirra sem til þjónustunnar leita vegna nauðgunar, tilraunar til nauðgunar eða annars kynferðisofbeldis.
Tilgangur með þjónustu neyðarmóttökunnar er að draga úr eða koma í veg fyrir andlegt og líkamlegt heilsutjón sem oft er afleiðing kynferðislegs ofbeldis.
Þeim sem leita til neyðarmóttökunnar skal sýnd fyllsta tillitssemi og hlýja og þess gætt að þeim sé ekki mætt með vantrú eða tortryggni.
Mikilvægt er að virða í öllu og styrkja sjálfsákvörðunarrétt og óskir brotaþola.

Þjónusta neyðarmóttökunnar

 • Stendur öllum til boða sem þangað leita, bæði konum og körlum.
 • Metið er hverju sinni í hverju þjónustan á að felast í samvinnu og samráði milli starfsfólks neyðarmóttökunnar og þolandans. 
 • Þeir sem hafa verið beittir kynferðisofbeldi geta leitað sér aðstoðar hvort heldur er til ráðgjafar og stuðnings eða komið til þess að fá læknisskoðun og meðferð.
 • Starfsfólk veitir brotaþola og fylgdaraðila andlegan stuðning og ráðgjöf við komu.
 • Þjónustan er brotaþola alveg að kostnaðarlausu.
 • Þjónustan er veitt allan sólarhringinn og móttakan nýtur forgangs.
 • Nafnleynd gildir um konuna/manninn og alla meðferðina og fyllsti trúnaður gildir um allt málið.
 • Læknisskoðun og meðferð, þar með talin kvenskoðun.
 • Réttarlæknisfræðileg skoðun og taka og varðveisla sakargagna.
 • Þjónustan er ekki háð ákvörðun um kæru.
 • Boðin er lögfræðileg ráðgjöf og aðstoð við að leggja fram kæru vegna málsins. 
 • Það er á valdi brotaþola/eða foreldra ungra þolenda að ákveða að leggja fram kæru í málinu eða ekki. 
 • Vísað er í sálfræðiaðstoð þar sem veitt er aðstoð við úrvinnslu áfalls, fræðsla og ráðgjöf um algengar afleiðingar áfalla. Metin er þörf fyrir frekari sérhæfða meðferð vegna andlegra/líkamlegra viðbragða og unnið er að styrkingu bjargráða og stuðningskerfa. 
 • Sakargögn eru geymd í minnst 9 vikur. 
 • Læknisskýrsla og sakargögn eru aldrei afhent lögreglu nema gegn skriflegri yfirlýsingu með leyfi brotaþola eða forráðamanns barna yngri en 18 ára.
 • Samkvæmt lagalegri skyldu er neyðarmóttöku skylt að tilkynna mál til barnaverndaryfirvalda ef ungmenni er innan 18 ára aldurs. 
 • Fyrirspurnir um þjónustu og starfsemi má senda á neydarmottaka@landspitali.is . Þangað er einnig hægt að senda fyrirspurn um afgreiðslu einstakra mála, niðurstöður rannsókna eða tengd mál.

Þeir sem starfa við neyðarmóttökuna

 • Hópur sérhæfðra hjúkrunarfræðinga á bráðamóttöku LSH. 
 • Sex læknar sem vinna við meðferð kvensjúkdóma. Einn sálfræðingur/ráðgjafi sem sinnir sálrænum stuðningi og meðferð virka daga.
 • Hópur sálfræðinga sem starfa innan geðsviðs LSH sinna eftirfylgd mála eftir þörfum. 
 • Fimm lögfræðingar/réttargæslumenn