Skýringar með ársreikningi 2008

Ársfundur Landspítala 2009

6. maí í Salnum
Anna Lilja Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri fjárreiðna og upplýsinga: Kynning á ársreikningi 2008

Ársreikningur Landspítala 2008
Kynningarglærur um ársreikning LSH 2008 (pdf)

Glæra 1

Heilbrigðisráðherra og aðrir ársfundargestir!

Íslenskt efnahagsumhverfi hefur fengið á sig marga brotsjói á síðustu mánuðum og Landspítali hefur ekki farið varhluta af því. Stór hluti aðfanga spítalans er háð erlendri mynt og hefur gengisþróun íslensku krónunnar því haft skaðleg áhrif á afkomu spítalans. Þegar tekið er tillit til gengisþróunar umfram forsendur fjárlaga þá var rekstur spítalans þó ekki langt frá því að vera í jafnvægi á síðasta ári. Og eins og árin þar á undan þá hefur starfsemi spítalans vaxið bæði að umfangi og innihaldi eins og ég mun gera grein fyrir hér á eftir.

Á ársfundi Landspítala á síðasta ári gerði ég að umtalsefni skýrslur OECD sem fjalla um gæði og kostnað heilbrigðisþjónustu, m.a. á Íslandi, ásamt umfjöllun Hagtíðinda um heilbrigðisútgjöld hér á landi. Jafnframt fór ég yfir samanburð milli LSH og sænskra sjúkrahúsa um kostnað þjónustu en sá samanburður var unninn á vegum heilbrigðisráðuneytisins. Ég mun nú rýna aðeins betur í niðurstöður OECD skýrslunnar frá því í fyrra. Slíkur samanburður er mikilvægt innlegg í það verkefni okkar sem störfum við heilbrigðismál hér á landi að greina og vinna að umbótum þar sem þörf er á. Þá mun ég kynna niðurstöður ársreiknings LSH og helstu lykiltölur í rekstri spítalans á árinu 2008. Ársreikningurinn er endurskoðaður og staðfestur af Ríkisendurskoðun.

Glæra 2

Fjárheimildir og sértekjur ársins námu rúmlega 38,9 milljörðum og heildargjöld rúmum 40,5 milljörðum og höfðu gjöldin hækkað um 13,1% á milli ára en tekjurnar um 9,9%. Þar af eru launagjöld stærsti kostnaðarliðurinn, eða rúm 64% útgjaldanna. Rekstrargjöld, að meðtöldum S-merktum lyfjum, voru rúm 32% af heildargjöldum og eignakaup, viðhald og stofnkostnaður rúm 2%. Fjármagnsliðir námu 237 milljónum sem sýnir ljóslega hina erfiðu greiðslustöðu sem spítalinn hefur glímt við á árinu og hefur þ.a.l. lent í talsverðum dráttarvaxtagreiðslum vegna vanskila við birgja spítalans. Gjöld umfram tekjur voru 1.622 milljónir eða 4,2% af veltu. Skv. reikningsskilavenju ríkisins eru öll framlög ársins talin til tekna ársins í rekstrarreikningi. Í fjáraukalögum voru veittar 436 milljónir til að greiða uppsafnaðan rekstrarhalla frá fyrra ári í efnahagsreikningi og lækkar því halli skv. ársreikningi í 1.186 m.kr. Þegar metin hafa verið áhrif lækkunar gengis íslensku krónunnar umfram forsendur fjárlaga þá nema gjöld umfram tekjur um 1,3%.

Glæra 3

Launagjöld hækkuðu um 8,5% á milli ára. Dagvinnulaun jukust um 9,4%, álagsgreiðslur og önnur laun um 7%, yfirvinna um 6% og launatengd gjöld jukust um 8,7%. Ársverkum fækkaði um u.þ.b. 0,5% á milli ára og starfsmönnum um 1%.

Glæra 4

Rekstrargjöld jukust um 22,3%. Þar af jókst kostnaður við innkaup lækninga-, hjúkrunar- og rannsóknarvara um 24,7%, kostnaður við S - merkt lyf hækkaði um 46,4% og 13,8% vegna annarra lyfja. Aðalástæða þessa kostnaðarauka er óhagstæð gengisþróun. Nær öll S - merkt lyf eru keypt erlendis frá og stór hluti sérhæfðra sjúkrahúsvara. Þegar skoðuð eru áhrif gengisþróunar á rekstur spítalans kemur í ljós að gengisáhrifin umfram forsendur í fjárlögum eru metin til rúmlega 2.100 milljóna króna á árinu.

Glæra 5

999 milljónum var varið til eignakaupa, stofnkostnaðar og viðhalds á árinu. Þar af var 459 milljónum varið til meiriháttar tækjakaupa, 189 milljónir fóru til endurnýjunar legudeilda, s.s. fæðingardeildar 23 A, bæklunarskurðdeildar í Fossvogi, húðdeildar í Fossvogi og göngudeildar á lyflækningasviði I. Lokið var við nýbyggingu barna- og unglingageðdeildar við Dalbraut og fóru 166 milljónir til þess verkefnis, varið var 45 milljónum til framhalds verkefnis við slysa- og bráðamóttöku í Fossvogi og 60 milljónum til hjartaþræðingarstofu á Hringbraut.

Glæra 6

Neikvæður höfuðstóll skv. efnahagsreikningi er 1.622 milljónir og hefur hækkað frá því að vera 436 milljónir í lok 2007. Skammtímakröfur voru 1.182 milljónir og hafa þær heldur aukist á milli ára m.a. vegna mikillar skuldasöfnunar annarra heilbrigðisstofnana. Viðskiptaskuldir voru 3.222 milljónir og hafa þær aukist umtalsvert á milli ára í takt við aukinn neikvæðan höfuðstól. Birgðir hafa ekki breyst mikið á milli ára.

Glæra 7

Starfsemi LSH er margþætt og umfangsmikil og mun ég sýna nokkrar lykiltölur í starfsemi spítalans.

Athyglisvert er að sjá þróun framlaga frá sameiningu spítalanna. Í Hagtíðindum Hagstofu Íslands kemur fram þróun opinberra heilbrigðisútgjalda á mann og sést sú þróun á þessari mynd og hafa framlög til LSH skv. ríkisreikningi verið tekin út úr heildartölunni sem birt er í Hagtíðindum og sett sem sérstök lína á þessari mynd. Tölur vegna 2008 eru bráðabirgðatölur. Þessar tölur sýna að opinber heilbrigðisútgjöld og framlög til LSH héldust nokkurn veginn í hendur til og með 2003 en hafa þarf í huga að á árunum 2001 og 2002 var greiðsla fyrir S – merkt lyf flutt frá TR til spítalans sem skýrir að hluta hina miklu aukningu framlaga til LSH þau ár. Í ársbyrjun 2009 fluttist greiðslan frá LSH til Sjúkratrygginga Íslands sem mun hafa áhrif á heildarkostnað LSH á þessu ári. Framlög til Landspítala lækka síðan frá 2003 en á sama tíma aukast ríkisframlög til annarra hluta heilbrigðisþjónustunnar.

Glæra 8

Í ljósi fyrrgreindra fjárhagsupplýsinga er athyglisvert að líta næst á fjölgun íbúa. Eins og fram kemur á þessari mynd þá hefur orðið umtalsverð fjölgun íbúa á höfuðborgarsvæðinu og þá sérstaklega í röðum eldri borgara. Frá árinu 2000 hefur íbúum höfuðborgarsvæðisins fjölgað um 12% en þeim sem eru 80 ára og eldri hefur fjölgað um 40%. Hlutfallsleg fjölgun eldri borgara umfram yngri aldurshópa mun halda áfram eins og bent er á í skýrslu OECD því Íslendingar eru frekar ung þjóð. Fjölgun Íslendinga og hækkandi meðalaldur hefur mikil áhrif á starfsemi spítalans því aldraðir þurfa jú mest á þjónustu LSH að halda. Oft er talað um að fólk sem komið er yfir 65 ára aldur noti fjórum sinnum meiri heilbrigðisþjónustu en þeir sem eru undir 65 ára aldri. Það er skylda okkar að mæta þessari auknu þjónustuþörf eldri borgara með fullnægjandi hætti.

Glæra 9

Eins og önnur vestræn háskólasjúkrahús hefur LSH markað sér þá stefnu að byggja upp öfluga þjónustu utan legudeilda og jafnvel í heimahúsum og er æ flóknari meðferð veitt með slíkum hætti. Komur á göngudeildir hafa aukist um rúm 70% frá árinu 2000 en innlögnum fækkað um 20%. Meðallegutími hefur styst og því hefur legudögum á sólarhringsdeildum fækkað. Komur á slysa- og bráðamóttökur spítalans hafa aukist um rúm 30% frá sama tíma.

Glæra 10

Fjöldi fæðinga eykst jafnt og þétt í takt við fjölgun íbúa og hefur skurðaðgerðum einnig fjölgað nokkuð svo og myndgreiningar-rannsóknum. Tíðni margra sjúkdóma eykst jafnt og þétt ekki síst vegna vaxandi fjölda aldraðra. Hins vegar hefur aukin starfsemi á LSH og styttri meðallegutími orðið til þess að biðlistar heyra nánast sögunni til.

Glæra 11

Í fyrra sagði ég frá ánægjulegum niðurstöðum í skýrslu OECD en hún ber heitið Health at a Glance. Þá sýndi ég samanburð hinna 30 OECD þjóða hvað varðar andlát í legu á spítala innan 30 daga frá innlögn eftir annars vegar heilablóðfall og hins vegar eftir hjartadrep en hjartasjúkdómar og heilablóðfall valda um fjórðungi dauðsfalla hjá OECD þjóðum. Þessir tveir mælikvarðar sýna mjög góðan árangur hjá Landspítala. Þá sýndi ég líka frábæran árangur í krabbameinsmeðferð á Íslandi í samanburði við árangur hinna OECD þjóðanna en krabbamein valda rúmlega fjórðungi dauðsfalla hjá OECD þjóðum.

Nú sýni ég tvo mælikvarða til viðbótar úr þessari sömu skýrslu. Sá fyrri sýnir meðallífaldur íbúa OECD ríkjanna og á myndinni er meðallífaldur nokkurra nágrannaþjóða sýndur í samanburði við Ísland. Íslenskir karlar eru með hæsta meðallífaldur allra 30 OECD þjóðanna og konur eru ofarlega á listanum.

Glæra 12

Seinni mælikvarðinn sýnir ungbarnadauða og er hann sýndur hjá sömu þjóðum og áðan. Ungbarnadauði er lægstur á Íslandi af öllum OECD þjóðunum. Þessir tveir mælikvarðar ásamt þeim árangursmælikvörðum sem ég minntist á áðan sýna góðan árangur íslensku heilbrigðis-þjónustunnar þó fleiri þættir í íslensku umhverfi komi þarna einnig við sögu. Í þeim efnahagserfiðleikum sem Ísland á nú við að etja verðum við að gæta þess vel að ganga ekki það hart að heilbrigðiskerfinu að við stefnum þeim góða árangri sem náðst hefur í voða. Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á aukna þörf fyrir heilbrigðisþjónustu þegar hart er í ári og því þarf að sýna sérstaka varkárni þegar teknar eru ákvarðanir um fjárveitingar til heilbrigðisþjónustu. Einnig þarf að tryggja góðan aðgang að heilbrigðisþjónustunni.

Í fyrra sýndi ég kostnaðarsamanburð LSH og sænskra spítala og kom LSH nokkuð vel út í þeim samanburði. Um þessar mundir er verið að vinna samanburð við norsk sjúkrahús sem Hulda Gunnlaugsdóttir mun segja nánar frá hér á eftir.

Glæra 13

Heilbrigðisútgjöld jafnvirðismæld á hvern íbúa koma líka fram í skýrslu OECD. Þar kemur í ljós að Ísland er í sjötta sæti af hinum 30 OECD þjóðum hvað snertir heilbrigðisútgjöld á íbúa. Þar sem hér býr frekar ung þjóð þá eru þessar tölur áhyggjuefni fyrir okkur Íslendinga. Jafnframt geta þær einnig sýnt að á Íslandi er möguleiki til að lækka kostnað í heilbrigðiskerfinu. Í erfiðu efnahagsumhverfi á Íslandi í dag þá er alveg nauðsynlegt að finna leiðir til að viðhalda og styrkja enn frekar okkar góðu heilbrigðisþjónustu en fyrir minna fé.

Glæra 14

Eins og kemur fram hér að framan þá hefur LSH skilað góðu verki á síðustu árum. Náðst hefur frábær árangur í klínísku starfi eins og hér hefur verið tæpt á og vísindastörf á LSH hafa staðið með miklum blóma eins og fjöldi vísindagreina, tilvitnana og vísindastyrkja ber vott um. Einnig hefur rekstrarlegur árangur verið góður að öðru jöfnu. Hinir mismunandi fagaðilar á spítalanum hafa unnið vel saman að því að ná fram hagræðingu í rekstri og auka starfsemi á sama tíma. Gott dæmi um þessa samvinnu er kostnaðargreining þjónustunnar og innleiðing DRG flokkunarkerfisins en bæði verkefnin hafa m.a. aukið gæði upplýsinga um starfsemi spítalans og eflt kostnaðarvitund. Þessari vinnu hefur víða verið hælt, m.a. í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar og af erlendum ráðgjöfum sem kynnt hafa sér þessi mál. Annað dæmi er þátttaka í alþjóðlegum gagnagrunnum í tengslum við uppbyggingu rafrænnar sjúkraskrár. LSH er nú aðili að sænskum gagnagrunni um notkun og árangur kransæðaþræðinga. Með þátttöku sinni fær LSH tækifæri til að bera sína starfsemi á þessu sviði saman við sænsk sjúkrahús og nú þegar liggja fyrir niðurstöður sem leitt hafa til frekari þróunar þessarar starfsemi á sjúkrahúsinu. LSH er einnig aðili að norrænum gagnagrunni um notkun nýrra gigtarlyfja og árangur af þeirri meðferð. Um er að ræða mjög dýr og vandmeðfarin lyf sem eingöngu eru notuð í tengslum við sjúkrahús. Sérfræðilæknar LSH í gigtlækningum nýta grunninn til að fylgjast með árangri meðferðar og einnig sem grundvöll vísindarannsókna.

Þátttaka í slíkum fjölþjóðaverkefnum um samanburð á gæðum og árangri í þjónustu er sérlega mikilvæg LSH vegna sérstöðu spítalans sem eina háskólasjúkrahússins á Íslandi. Þannig getum við jafnt og þétt bætt vinnuferla okkar og árangur en einnig miðlað til annarra sjúkrahúsa af okkar reynslu.

Næstu árin verða krefjandi fyrir heilbrigðiskerfið hér á landi, bæði vegna erfiðleika í efnahagsumhverfinu en einnig vegna hraðhækkandi aldurs þjóðarinnar. Hagræðingarverkefni næstu ára mega ekki vera skammtímalausnir heldur þurfa að vera grundvöllur heildstæðrar framtíðarþróunar þar sem aðgengi, gæði og öryggi þjónustunnar er tryggt. Góðar upplýsingar um starfsemi og rekstur eru forsenda þess að hægt sé að meta þær breytingar sem hagræðingarverkefni hafa í för með sér. Einnig er nauðsynlegt að taka tillit til fyrirliggjandi þekkingar um þróun á algengi sjúkdóma og aukinnar byrði langvinnra sjúkdóma á vesturlöndum. Brýnt er að skoða til hlítar langtíma- og heildaráhrif hagræðingaraðgerða og annarra breytinga á heilbrigðisþjónustunni þannig að hagræðing á einum stað eða tíma leiði ekki til óhagræðis eða skertrar þjónustu annars staðar. Síðast en ekki síst þurfa Íslendingar að huga að þeim breytingum sem eru að verða á heilbrigðisþjónustu í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Nú liggur fyrir tillaga framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að tilskipun um rétt borgara til heilbrigðisþjónustu í öllum löndum sambandsins ef eigið land getur ekki veitt þjónustu innan tiltekins tíma. Þetta þýðir í raun að íslenskt heilbrigðiskerfi verður að undirbúa sig fyrir þátttöku í mun opnara umhverfi en verið hefur. Við þurfum að vera reiðubúin að veita erlendum sjúklingum þjónustu og megum búast við að Íslendingar sæki í auknum mæli eftir þjónustu erlendis. Allt kallar þetta á skýrar skilgreiningar á þeirri þjónustu sem veitt er í hverju landi og á hverjum stað, samræmda vinnuferla og greitt upplýsingaflæði til sjúklinga, heilbrigðisstarfsmanna og heilbrigðisyfirvalda. LSH hefur á undanförnum árum átt gott samstarf við Sjúkratryggingar Íslands og forverann, Tryggingastofnun Ríkisins, um þjónustu við íslenska sjúklinga á erlendum sjúkrahúsum. Í sumum tilvikum hefur þetta samstarf orðið til þess að ákveðið hefur verið að flytja viðkomandi þjónustu til Íslands og hefur það gefið góða raun. Til dæmis var árið 2003 hafin nýrnaígræðsla úr lifandi gjöfum á LSH en áður þurftu sjúklingar að gangast undir slíkar aðgerðir erlendis. Meðferðin hefur gengið ákaflega vel og fyrir liggja gögn um þjóðhagslega hagkvæmni þessarar breytingar. Fleiri slík dæmi mætti nefna þar sem LSH hefur tekið að sér að veita þjónustu sem áður hefur þurft að sækja til annarra landa. Slík verkefni skila betri þjónustu við sjúklinga og aðstandendur, nýrri þekkingu, þjálfun og rannsóknartækifærum inn á spítalann og síðast en ekki síst, hagkvæmri heilbrigðisþjónustu fyrir samfélagið. Það er von mín að LSH og heilbrigðisyfirvöld muni áfram vinna saman að slíkri þróun til hagsbóta fyrir sjúklinga og samfélagið allt.