Fræðastofa (bókasafn)

Fræðastofa (bókasafn) geðsviðs er staðsett á fjórðu hæð geðdeildarbyggingarinnar við Hringbraut. Þar er bókasafn og vinnuaðstaða fyrir nema og starfsmenn sviðsins (sjö tölvur og þráðlaust net).

Elín Björg Héðinsdóttir upplýsingafræðingur starfar á Fræðastofunni. Hægt er að fá aðstoð og kennslu í heimildaleit eða láta leita fyrir sig ef leitarefnið er snúið eða tíminn naumur.

Viðverutími: Allir virkir dagar nema föstudagar kl. 11:00-16:00.

Netfang: elinbhe@landspitali.is.  Sími: 543-1433.

 

Góðir tenglar fyrir nýja (og gamla) starfsmenn

- aðgengilegar upplýsingar um helstu geðsjúkdóma og geðrækt

 

Á íslensku

Sálfræðivefurinn persona.is

Aðgangur: Ókeypis á Netinu

Efni:  Geðsjúkdómar – Geðrækt - Sjálfspróf

Aðgengilegur og skýr vefur fyrir almenning sem inniheldur greinar um alla helstu geðsjúkdómana og þá ólíku þætti sem geta haft áhrif á geðheilsu fólks s.s. áföll, samskipti og lifnaðarhætti. Efni vefjarins er skrifað af nafngreindum sérfræðingum eða þá að heimilda er getið sem eykur traust á innihald hans. Á vefnum er einnig að finna fjölda sjálfsprófa og frétta tengdar efninu.

 

Embætti Landlæknis– Geðrækt

Aðgangur: Ókeypis á Netinu.

Efni:  Geðrækt - Þunglyndi

Markmiðið með starfsemi Embættis landlæknis á sviði geðræktar er að stuðla að bættu geðheilbrigði íslensku þjóðarinnar. Það er m.a. gert með fræðslu á ofangreindum vef.

Á vefnum er fjallað um það sem hefur áhrif á geðheilsu almennt s.s. uppeldi, samskipti, svefn og streitu fremur en einstaka geðsjúkdóma.

Hér undir er þó einnig vefurinn Þjóð gegn þunglyndi en hann inniheldur einstaklega greinargóðar upplýsingar um þunglyndi fyrir fagfólk, sjúklinga og aðstandendur. Þar er m.a. fjallað um einkenni sjúkdómsins, orsakir, meðferð, sjálfsvígsvarnir og úrræði hér á landi. Tvö sjálfspróf (greiningarpróf) fylgja vefnum, þar af eitt sem sérstaklega er ætlað karlmönnum.

 

Á ensku

UpToDate

Aðgangur: LSH

Efni:  Allir helstu geðsjúkdómarnir:  Greining, meðferð, framtíðarhorfur, lyf og sjúklingafræðsla.

UpToDate er það rafræna uppsláttarrit (gagnasafn) sem starfsmenn Landspítalans nota mest. Því er ætlað að vera daglegur stuðningur fyrir starfsfólk í klínísku starfi. Upplýsingar eru hnitmiðaðar og aðgengilegar.

Safnið nær yfir alla helstu sjúkdóma sem hrjá manneskjuna, þar með þá geðrænu. Leitarorði, t.d. „bipolar“ er slegið inn í leitargluggann og þá birtist listi niðurstaðna tengdur efninu. Hægt er að velja á milli upplýsinga um greiningu, meðferð o.fl. allt eftir því hver þörfin er hverju sinni. Lengst til vinstri á síðunni er hægt að smella á „patient“ og birtist þá listi yfirlita með einfölduðum upplýsingum fyrir sjúklinga.