Túlkaþjónusta

Úr "Lögum um réttindi sjúklinga 1997 nr. 74 28. maí:

Landspítali sinnir í vaxandi mæli sjúklingum sem eru af erlendu bergi brotnir og ber að tryggja að þjónusta við þá sé í samræmi við lög um réttindi sjúklinga nr. 74/1997.
Þann 21. mars 2012 var undirritaður samningur milli LSH og Alþjóðaseturs um túlkaþjónustu.

Úr dreifibréfi Landlæknisembættisins nr. 6/2003 varðandi túlkaþjónustu við heyrnarlausa

Rétturinn til upplýsinga er hluti af grundvallar réttindum sjúklinga. Samkvæmt 5. gr. laga um Réttindi sjúklinga nr. 74/1997 skal sjúklingi sem notar táknmál tryggð túlkun á upplýsingum. Heilbrigðisstarfsmönnum ber að sjá til þess að sjúklingar sem nota táknmál skilji þær upplýsingar sem veittar eru.

II. kafli. Upplýsingar og samþykki. - Upplýsingar um heilsufar og meðferð.

5. gr. Sjúklingur á rétt á upplýsingum um:

a. heilsufar, þar á meðal læknisfræðilegar upplýsingar um ástand og batahorfur,
b. fyrirhugaða meðferð ásamt upplýsingum um framgang hennar, áhættu og gagnsemi,
c. önnur hugsanleg úrræði en fyrirhugaða meðferð og afleiðingar þess ef ekkert verður aðhafst,
d. möguleika á að leita álits annars læknis eða annarra heilbrigðisstarfsmanna eftir því sem við á um meðferð, ástand og batahorfur.
Þess skal getið í sjúkraskrá sjúklings að upplýsingar samkvæmt þessari grein hafi verið gefnar.
Upplýsingar samkvæmt þessari grein skulu gefnar jafnóðum og tilefni skapast og á þann hátt og við þau skilyrði að sjúklingur geti skilið þær.
Eigi í hlut sjúklingur sem ekki talar íslensku eða notar táknmál skal honum tryggð túlkun á upplýsingum samkvæmt þessari grein.

Eins og fram kemur í síðustu málsgreininni á sjúklingur sem talar ekki íslensku eða notar táknmál rétt á því að fá túlkaðar þær upplýsingar sem fjallað er um í 5. grein. Starfsfólk deilda sjúkrahússins gerir viðeigandi ráðstafanir til að útvega túlk ef þörf er á hverju sinni eða nauðsynlegt reynist.