Jóhannes Gunnarsson settur forstjóri á ársfundi LSH 2005

Heilbrigðisráðherra, góðir ársfundargestir!

Fimm ár eru nú liðin frá því að Landspítali - háskólasjúkrahús varð til við sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík. Sú sátt sem um sameininguna varð byggðist fyrst og fremst á því fyrirheiti að komið væri á fót háskólaspítala sem stæði undir nafni og að starfsemin væri undir einu þaki. Með sameiningunni, ekki síst sameiningu sérgreina, hefur sannanlega náðst bæði faglegur og rekstrarlegur árangur. 

Hraði breytinga sjúkrahúsþjónustu hefur að öllum líkindum aldrei verið meiri en nú og því mikil þörf fyrir sveigjanleika í húsnæði svo hægt sé að mæta þörfum starfseminnar. Nærfellt allur húsakostur spítalans er hins vegar gamall orðinn og mjög viðhaldsfrekur. Húsin henta ekki nútíma sjúkrahúsrekstri og nauðsynlegar breytingar eru kostnaðarsamar.

Skilvirkni í starfi Landspítala - háskólasjúkrahúss getur hins vegar aukist enn frekar þegar starfsemin verður öll komin á afmarkað landsvæði. Samvinna ólíkra sérgreina mun þá eflast og faglegt starf verða árangursríkara. Þjónusta við sjúklinga mun batna, meiri virkni verður í vísindastarfi og kennsla heilbrigðisstétta markvissari. Fullur árangur sameiningar spítalanna næst ekki án þess að starfsemi háskólasjúkrahússins sameinist á einum stað, í nýjum húsakynnum. Þessi var sú sýn sem starfsmenn hinna ólíku stofnana náðu sátt um.

Einn þáttur sem oft vill gleymast í umræðum um ný viðhorf í heilbrigisþjónustu, en sá er skiptir ekki minnstu máli, eru aukin réttindi og kröfur sjúklinga. Þessar kröfur eru í takt við væntingar okkar allra um að okkur sé sýnd virðing og mannhelgi okkar virt og því til marks eru meðal annars lög er varða réttindi sjúklinga og persónuvernd. Þessum lögum er nánast ógjörningur að framfylgja í því húsnæði sem LSH hefur til umráða. Starfsfólk sem vinnur við þær aðstæður að þurfa að ganga gegn bæði eigin siðferðistilfinningu og landslögum fyllist vanlíðan og þessar aðstæður stuðla að óánægju sjúklinga. Þessi breyttu viðhorf gætu jafnvel ein sér orðið ærið tilefni til endurgerðar sjúkrahúsbygginga.

Ég tel að framundan séu merk tímamót í sögu íslenskrar heilbrigðisþjónustu. Það er ekki einasta vegna þess stórhugs sem ráðamenn sýna, heldur vill svo til að á sama tíma og við erum að huga að uppbyggingu nýs sjúkrahúss eru að koma fram upplýsingar um mikilvægi hönnunar og fyrirkomulags sjúkrahúsa að því er varðar tíðni óhappa og mistaka við meðferð sjúklinga á sjúkrahúsum. Bandarískar rannsóknir benda til þess að slík meðferðaróhöpp eða mistök kosti að minnsta kosti 100 þúsund þarlenda lífið á ári hverju. Ef sama á við hér á landi segir höfðatölureglan okkur að árlega verði hér 100 dauðsföll af þessum sökum, dauðsföll sem mörg væri hægt að fyrirbyggja. Rannsóknir hafa einnig leitt í ljós að í hlutfallslega fáum þessara tilvika er um vankunnáttu eða vanrækslu starfsmanna að ræða heldur eru fyrir hendi aðstæður sem oft tengjast húsnæði sjúkrahúsanna á einn eða annan hátt. Af þessum rannsóknum á tengslum húsnæðis og árangurs meðferðar hefur meðal hönnuða sjúkrahúsa sprottið hugtakið "evidence based design" sem þýða má sannreynd hönnun.

Augljósir vankantar í sjúkrahúsbyggingum hafa leitt til þess að nú er verið að vinna að eða undirbúa endurbyggingu 800 þeirra 4500 sjúkrahúsa sem eru í Bandaríkjunum Flest eru þetta sjúkrahús sem byggð voru um og upp úr 1970 og byggir hönnunin nú á þeirri nýju þekkingu sem fram hefur komið síðustu 6 árin um áhrif sjúkrahússumhverfis á árangur heilbrigðisstarfsmanna. 

Markvisst hefur verið unnið að undirbúningi fyrir byggingu spítalans. Ákvörðun um staðsetningu hins nýja spítala við Hringbraut var tekin á grundvelli nefndarálits í janúar 2002, samningur ríkisstjórnar og Reykjavíkurborgar um lóð fyrir nýjan spítala var undirritaður fyrir réttu ári, færsla Hringbrautar er langt á veg komin og arkitektasamkeppni um skipulag lóðarinnar, sem heimiluð var í janúar sl., er nú nýhafin. Fram hafa komið hugmyndir um mögulegar leiðir til fjármögnunar verksins og flest mælir með að byggingu nýs spítala verði hraðað eins og kostur er.

Fulltrúar Háskóla Íslands hafa tekið fullan þátt í undirbúningi fyrir skipulagssamkeppni nýs háskólaspítala. Þar er fylgt eftir þeirri ákvörðun skólans að nýta þetta einstæða tækifæri til að koma heilbrigðisvísindadeildum skólans fyrir á einum stað og í nánum tengslum við þá stofnun sem sér um starfsþjálfun flestra nemenda heilbrigðisvísindadeilda skólans. Á sama hátt er unnið með samþykkt stjórnar Tilraunastöðvar Háskóla Íslands að Keldum sem gerir ráð fyrir að Tilraunastöðin flytjist í Vatnsmýrina og taki þar þátt í uppbyggingu lífvísindaseturs. Þannig verður stöðin í nánum faglegum tengslum við heilbrigðisvísindadeildir H.Í. og rannsóknarsvið LSH. Samkomulag ríkisstjórnarinnar og Reykjavíkurborgar um samtengingu lóða H.Í. og LSH vestan við Umferðarmiðstöðina skapaði þannig grundvöll fyrir markvisst kennslu- og vísindasamstarf þessara höfuðstofnana í heilbrigðisvísindum. Miklar vonir eru bundnar við að samstarf allra þessara aðila verði kennslu og vísindum mikil lyftistöng og muni auk þess stuðla að framförum í þjónustu við sjúklinga. 

Það er því á tíma byltingarkenndrar nýhugsunar, er byggist á umfangsmiklum vísindalegum rannsóknum, að við leggjum upp í þessa för. Í förinni munum við njóta leiðsagnar alþjóðlegra spítalahönnuða með mikla reynslu í hönnun sjúkrahúsa í mörgum þjóðlöndum. Sir Winston Churchill sagði eitt sinn, we shape our buildings, thereafter the buildings shape us eða menn móta hús, síðan móta húsin mennina. Hvað sjúkrahús varðar hefur reynt á sannleiksgildi þessara orða. Í ljós hefur komið að spítalabyggingar eins og við þekkjum þær stuðla að alvarlegum meðferðarmistökum og skapa vanlíðan meðal metnaðarfulls starfsfólks. Nýtt sjúkrahús verður að rísa. Við megum ekki láta þetta tækifæri ganga okkur úr greipum heldur vinna samhent og fumlaust að uppbyggingunni. Samstaða innan spítalans um verkefnið skiptir öllu. Trúverðugleiki spítalans gagnvart þjóð og þingi veltur þar á.