Ávarp Björns Zoëga forstjóra

Ársfundur Landspítala
Salurinn í Kópavogi
29. apríl 2008

Ráðherra, gestir, ágætu samstarfsmenn!


Málefni Landspítala hafa verið áberandi í almennri umræðu undanfarnar vikur og mánuði. Ekki þarf að undra að áhugi manna beinist að spítalanum þar sem hann er einstakur í heilbrigðisþjónustu landsmanna, stærsti vinnustaður landsins og þjóðinni afar mikilvægur.

Í byrjun apríl létu tveir af æðstu stjórnendum spítalans af störfum, þeir Magnús Pétursson forstjóri og Jóhannes Gunnarsson framkvæmdastjóri lækninga. Sameiginlega lögðu þeir mikið af mörkum við sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík og við það að afla byggingaráformum fylgis. Þeim eru þökkuð farsæl störf í þágu Landspítala frá stofnun hans. 
Í starf forstjóra var settur tímabundið sá sem hér talar ásamt Önnu Stefánsdóttur  framkvæmdastjóra hjúkrunar.

Ný lög um heilbrigðisþjónustu tóku gildi fyrsta september síðastliðinn. Í þeim felast ýmsar breytingar á stjórnun og skipulagi heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Stjórnun heilbrigðisstofnana er falin framkvæmdastjórn undir forystu forstjóra. Framkvæmdastjóri hjúkrunar og framkvæmdastjóri lækninga skipa framkvæmdastjórnina og eftir atvikum aðrir fagstjórnendur. 
Mikilvægast, í þeim ákvæðum sem snúa beint að Landspítala, er að lögin staðfesta að Landspítali er háskólasjúkrahús og aðalsjúkrahús landsins.
 Á árinu 2007 var lokið við að greina kostnað Landspítala við að rækja háskólahlutverkið. Þar kemur m.a. fram að árlega stunda um 1000 nemendur nám á spítalanum og að vísindastarf er umfangsmikið í samvinnu við Háskóla Íslands og aðrar menntastofnanir.

Í október síðastliðnum skipaði heilbrigðisráðherra nefnd um málefni Landspítala undir forystu Vilhjálms Egilssonar. Nefndinni er m.a. ætlað að skilgreina hlutverk Landspítala og gera tillögur um hvernig greina megi að kjarnastarfsemi hans og önnur verkefni. Ennfremur er nefndinni ætlað að skoða núverandi stjórnskipulag Landspítala og gera tillögur að breytingum á því. Núverandi stjórnskipulag hefur verið óbreytt frá árinu 2004 og er í grundvallaratriðum hið sama og við sameiningu spítalanna árið 2000. Það er því mikilvægt að meta hverjir eru styrkleikar og veikleikar í skipulaginu og gera nauðsynlegar breytingar til að auka sveigjanleika, dreifstýringu, stytta boðleiðir og bæta verklag. Það er eitt af verkefnum okkar sem nú gegnum starfi forstjóra að taka virkan þátt í því mikla starfi sem endurskoðun stjórnskipulags spítalans er, í samvinnu við sem flesta starfsmenn. 
Þá er nefndinni ætlað að gera úttekt á rekstri spítalans. Rekstur spítalans hefur oft á tíðum verið umdeildur, m. a. vegna hallarekstrar sem háð hefur starfseminni undanfarin ár. Á þessu ári verður unnið nánar en áður að því að skipuleggja starfið með stjórnendum sviða svo þau megi ná rekstrarmarkmiðum við lok árs. Það er skoðun þess sem hér talar að nauðsynlegt sé að gera hið fyrsta breytingar á fjárveitingum til spítalans þannig að stór hluti þeirra verði breytilegur og tengist starfseminni í ríkara mæli. Fé þarf að fylgja verkum sem unnin eru. Slíkt fyrirkomulag væri einnig í takt við stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar.

Þann 27. febrúar síðastliðinn var gleðidagur á Landspítala en þá kynnti heilbrigðisráðherra ákvörðun ríkistjórnarinnar um að efna til hönnunarsamkeppni um nýja byggingu fyrir starfsemi Landspítala og er stefnt að því að niðurstaða fáist í henni síðla árs 2008. Undirbúningur hönnunarsamkeppninnar er hafinn. Stefnt er að því að kynna vinningstillögu í samkeppninni í nóvember og jafnframt að undirrita samning um hönnun nýja háskólasjúkrahússins.

Stefnumál Landspítala eru mörg eins og fram kemur í stefnuskjali hans frá árinu 2005. Úrvals þjónusta við sjúklinga er að sjálfsögðu meginverkefnið. Þess vegna höfum við ákveðið að beina sjónum okkar sérstaklega að verklagi innan spítalans, og  teljum að þar sé víða verk að vinna .  Tækifærin felast fyrst og fremst í því að samræma verklag og vinnuferla. Með því má koma í veg fyrir tvíverknað, efla gæði og bæta nýtingu fjármuna. Samhliða skapast tækifæri til vísindarannsókna. Nú er sérlega brýnt að nýta tækifærið til þess að skapa nýtt verklag sem verður grunnurinn að farsælli starfsemi í nýrri byggingu.
Heilbrigðisstarfsmenn í framlínu eru í lykilaðstöðu við endurskoðun á verklagi, og eiga að stuðla að breytingum og koma nýjungum á framfæri. 
Margir verkferlar hafa verið endurskoðaðir að undanförnu með það að markmiði að bæta þjónustu við sjúklinga og auka skilvirkni. Má þar nefna; nýtt verklag við móttöku sjúklinga á slysa- og bráðamóttöku í Fossvogi sem miðar að því að stytta biðtíma. Nýtt verklag við endurlífgun og fræðslu til starfsmanna því tengt, GÁT- teymi – sem er viðbragðsteymi gjörgæsludeilda vegna bráðatilfella á legudeildum. Annað athyglisvert dæmi er svokallað fljótgreiningarferli þegar sjúklingur greinist með æxli í brjóstholi. Þar er með góðu skipulagi sjúklingi boðið að koma á deild til rannsóknar og greiningar að morgni til, og kl. 15:00 þann sama dag liggja niðurstöður fyrir og eru kynntar sjúklingi og áframhaldandi meðferð ákveðin, ef þörf krefur. 
Öll eru þessi verkefni til fyrirmyndar og mikil framfaraskref í meðferð sjúklinga, skref sem eru stigin  af okkar öfluga starfsfólki.

Almenningur ber mikið traust til Landspítala, það var staðfest í könnun sem Capacent Gallup gerði á síðasta ári. Þar kom fram að landsmenn eru ákaflega jákvæðir gagnvart spítalanum, telja hann veita góða þjónustu, hafa góða reynslu af honum og segja að starfsfólkið leysi vel úr þeim málum sem lögð eru fyrir stofnunina. Starfsmenn fá hér mikið hrós frá almenningi og ekki síður mikla hvatningu. Starfsmenn Landspítala búa yfir mikilli þekkingu og færni, þess vegna erum við framarlega í meðferð sjúkdóma, og við erum og við eigum að vera stolt af því. Þetta skynjar almenningur og treystir Landspítala því til góðra verka.

Verkefni Landspítala eru einstök og þjóðinni mikilvæg og eiga að vera hafin yfir einstakar persónur eða pólitík. Það er okkar starfsmanna spítalans - að tryggja að starfsemin haldi áfram að þroskast og sátt við þjóðfélagið til hagsbóta fyrir sjúklinga.

Takk fyrir.