2001

Ársfundur
Landspítala – háskólasjúkrahúss
10. maí 2001
Guðný Sverrisdóttir formaður stjórnarnefndar
-Talað orð gildir-



Heilbrigðisráðherra. Góður ársfundargestir!


Á vordagasamkomu þegar gróandinn fer um landið  er hollt að líta yfir farinn veg og reyna jafnframt að skyggnast inn í framtíðina.

Sú sameining sem varð hjá sjúkrahúsunum í Reykjavík á síðasta ári  er verulegt  framfaraskref í heilbrigðisþjónustu á Íslandi.

Þann 6. janúar 2000 skipaði heilbrigðisráðherra eina stjórnarnefnd yfir sjúkrahúsin í Reykjavík og í rökréttu framhaldi af því og ráðningu eins forstjóra yfir sjúkrahúsin, voru stofnanirnar sameinaðar með reglugerð sem gefin var út 3. mars 2000.  Eftir góða yfirlegu og að fengnum tillögum frá starfsfólki var stofnunin nefnd Landspítali - háskólasjúkrahús og einkennismerki hennar unnið úr merki Sjúkrahúss Reykjavíkur.

Samkvæmt skipuriti sitja í framkvæmdastjórn spítalans ásamt forstjóra, framkvæmdastjóri fjárreiðna og upplýsinga, framkvæmdastjóri tækni og eigna, lækningaforstjóri, hjúkrunarforstjóri og framkvæmdastjóri kennslu og fræða.

Framkvæmdastjórn fer með rekstur og skipulagningu á starfsemi spítalans og ber sameiginlega ábyrgð á ákvörðunum sínum.  Eitt af stærstu verkefnum hennar í kjölfar sameiningarinnar sjálfrar var að ákveða skiptingu sjúkra- og stoðþjónustu í 14 meginsvið.  Tilgangur sviðaskiptingarinnar er að gera stjórnun spítalans mögulega og flytja ábyrgð og verkstjórn nær vettvangi. Til að stjórna sviðunum valdi  framkvæmdastjórn og stjórnarnefnd sviðsstjóra úr hópi starfsmanna til fjögurra ára í senn og nýtt skipulag tók gildi 1. október.
 
Sviðstjórar hafa unnið með framkvæmdastjórn spítalans að endurskipulagningu sviða síðan þeir tóku þar við forystu.  Stærsta verkefnið er sameining sérgreina sem hafa verið á fleiri en einum stað.  Þar kemur bæði til að færa starfsemina innan og milli húsa,  svo og að ráða nýja stjórnendur, yfirlækna og deildarstjóra. Hefur hér mætt mikið á hjúkrunarforstjóra og lækningaforstjóra, sem hafa verið verkstjórar í þeirri vinnu.

Þegar svo stór ákvörðun er tekin eins og að sameina þessar tvær stofnanir varðar það fjölda starfsmanna og er eðlilegt að sitt sýnist hverjum um framvindu einstakra mála.  Öll stefnum við þó að sama markinu, þ.e. að skila stofnuninni fram á veginn, þannig að eftir standi sjúkrahús sem er betur í stakk búið en forverarnir til að takast á við heilbrigðisþjónustu á 21. öldinni.  Við vissum að verkið væri alls ekki auðvelt og ekki eru allir á sama máli um hvort of hratt sé farið eða of hægt.  Megin málið er hinsvegar ekki hvort við erum misserinu lengur eða skemur að ljúka við einstök verkefni heldur það að við missum aldrei tök á viðfangsefninu og vitum hvað við viljum.
 Mikið starf hefur verið unnið í þróunarmálum spítalans frá sameiningunni.  Húsakostur er víða þröngur og meðan ekki er tekið í notkun nýtt húsnæði getur reynst snúið að stokka spilin og raða að nýju. Það á til dæmis við varðandi sameiningu sérgreina sem eindregið er unnið að.  Til að átta sig betur á möguleikum varðandi framtíðarskipulag spítalans hefur mikilvæg heimavinna verið innt af hendi, bæði af hálfu starfsmanna á skrifstofu tækni og eigna og annarra.  Jafnframt hafa verið fengnir erlendir ráðgjafar og arkitektar til aðstoðar.  Þetta starf er nauðsynleg forsenda stórra ákvarðana sem margir bíða eftir. Þegar að því kemur skiptir minnstu hvað framtíðarstaðurinn heitir.  Það skiptir hins vegar megin máli hvernig við ætlum að byggja upp, til dæmis hvort við ætlum að byggja upp á einum stað eða fleirum og hvaða staðsetning er ákjósamlegust með tilliti til þjónustu við sjúklinga gagnvart skipulagi, umferðarmálum og fyrirkomulagi á lóðum.  Síðast en ekki síst þarf að ákveða hvaða þjónustu spítalinn eigi að veita í framtíðinni og hvernig. Við vonumst til þess að í lok þessa árs höfum við þokast verulega nær því að taka slíkar ákvarðanir.  Þær eru hins vegar ekki á okkar valdi einna, að henni þurfa stjórnvöld í landinu að koma.  Fyrst um sinn þarf því að búa við þröngan húsakost en hagur vænkast mjög þegar nýr barnaspítali verður tekinn í notkun, vonandi árið 2002.

Í tengslum við sameiningu sjúkrahúsanna gáfu rektor Háskóla Íslands og forstjóri Landspítala - háskólasjúkrahúss út viljayfirlýsingu um að stofnanirnar tvær skýrðu samstarf sitt og stefnu.  Í yfirlýsingunni segir meðal annars:  Fyrsta skref til að styrkja kennslu og vísindastörf verður ráðning framkvæmdastjóra kennslu og fræða að sjúkrahúsinu.  Hann mun annast samskipti við Háskólann og vinna að uppbyggingu skrifstofu kennslu og fræða sem tengir saman Háskólann og spítalann. -  Í raun hafa sjúkrahúsin í Reykjavík verið um langt skeið háskólasjúkrahús, því auk þess að veita sjúkum þjónustu hefur þar verið stunduð kennsla, auk rannsókna- og vísindastarfa, svo lengi sem elstu menn muna.  Síðan skrifað var undir yfirlýsinguna hefur verið unnið að gerð samnings milli stofnananna.  Tilgangurinn er annarsvegar að styrkja kennslu og vísindastarf eins og áður segir og hins vegar að gera samskipti skýrari og skapa vettvang til að fjalla um sameiginleg mál, svo sem hlutverk og ráðningu starfsmanna sem hafa skyldur við báðar stofnanirnar. Skrifstofa kennslu og fræða er enn að slíta barnsskónum en í framtíðinni væntum við mikils af henni og það er fagnaðarefni að samningar hafa nú tekist milli spítalans og Háskóla Íslands um að formfesta samstarfið sín í milli.

Háskólasjúkrahúsi er skylt að stunda öflugt rannsóknar- og vísindastarf.  Stjórnendur spítalans hafa á því fullan skilning og leggja áherslu á að bæta það innan stofnunar en jafnframt að auka vísindasamstarf við aðra.  Spítalinn á mikið og vaxandi samstarf við aðrar stofnanir og fyrirtæki um vísindastarf, í því sambandi má nefna einkafyrirtæki í erfðavísindum.  Sú samvinna hefur meðal annars leitt til stofnunar krabbameinsmiðstöðvar við spítalann. Einnig er unnið að samningi milli Íslenskrar  erfðargreiningar og Landspítala vegna miðlægs gagnagrunns á heilbrigðissviði.  Því tengist gerð rafrænnar sjúkraskrár sem á eftir að gjörbreyta verklagi starfsfólks og bæta þjónustu við sjúklinga. Með þeim ákvæðum sem eru í samningsdrögum um gagnagrunnin sem nú liggja fyrir treysti ég og trúi að þær upplýsingar sem fara í hann verði með þeim hætti að fyllsta öryggis sé gætt og persónuvernd höfð að leiðarljósi.  Það er von mín að samningur þessi og stofnun krabbameinsmiðstöðvar megi verða heilbrigðisvísindum til framdráttar, sem og annað rannsóknar- og vísindastarf sem starfsfólk spítalans stundar.  Þótt skiptar skoðanir séu stundum um leiðir að markmiði megum við ekki glutra niður því tækifæri sem vísindin skapa til framfara fyrir íslenskt samfélag.

Stjórnarnefnd hefur að undanförnu fjallað um hvernig yfirstjórn spítalans geti stutt vísindastarf á stofnuninni með styrkum hætti. Nú hefur verið ákveðið að stofna til Vísindaráðs Landspítala – háskólasjúkrahúss og jafnframt Vísindasjóðs spítalans.  Vísindaráðið á meðal annars að verða stjórnarnefnd, framkvæmdastjórn og skrifstofu kennslu og fræða til ráðgjafar um vísindastarf á spítalanum.  Jafnframt á það að annast kynningu á vísindaverkefnum starfsmanna.  Vísindasjóði Landspítala - háskólasjúkrahús er hins vegar ætlað að styrkja starfsmenn í vísindastarfi. Stofnað er til hans með sameiningu vísindasjóða sem fyrir voru við Hringbraut og í Fossvogi og fjárhagsstaðan styrkt.  Í nýja sjóðinn geta allir háskólamenntaðir starfsmenn sótt en þannig var það ekki með eldri sjóði.  Það er vilji stjórnarnefndar að á hverju ári hafi Vísindasjóður Landspítala – háskólasjúkrahúss burði til þess að veita um 30 milljónir króna árlega í styrki til vísindaverkefna.  Það er umtalsvert fé, sem án efa á eftir að leiða til margra góðra verka. 

Mikið var fjallað um fjárhagsstöðu spítalans á síðasta ári, sem vissulega hefði mátt vera betri.  Ástæður fyrir hallarekstri voru skýrðar skilmerkilega og tóku stjórnvöld undir röksemdir stjórnenda stofnunarinnar og veittu aukið fé í reksturinn.  Niðurstaðan varð sú að rekstrarhallinn varð um 220 milljónir króna, eins og spáð var.

Við hljótum að verða áfram að vinna að því að styrkja innviði stofnunarinnar fjárhagslega.  Þar er stór og mikilvæg verk að vinna. Fjármögnunarkerfið sem við búum við í dag,  þ.e. að reka spítalann á föstum fjárlögum,  er til dæmis barn síns tíma.  Slíkt þekkist ekki í nágrannalöndum okkar.  Brýnt er að koma á samhengi milli spítalastarfs og fjármögnunar og í þeim tilgangi er nú verið að vinna að greiningu kostnaðar við einstaka starfsemi spítalans.  Nauðsynlegt er að taka upp greiðslukerfi sem miðar að hluta til við fastan kostnað og síðan breytilegan kostnað vegna einstakra verkefna.  Í mínum huga fer illa saman að gera kröfu til stjórnenda spítalans um að þeir haldi sig innan ramma fjárlaga en á sama tíma að þeir haldi uppi ótakmarkaðri  bráðaþjónustu, óháð því hve margir þurfa á henni að halda.  Mikið starf hefur líka verið unnið við að sameina allt rekstrar- og launakerfi spítalans. Enn má nefna að skrifstofa fjárreiðna og upplýsinga hefur verið að bæta starfsemis- og fjármálaupplýsingar, sem er mjög ánægjulegt. Upplýsingar af því tagi skila sér nú mun hraðar en áður og eru auk þess stöðugt að verða vandaðri.  Slíkt skiptir sköpum fyrir stjórnendur spítalans til að átta sig á fjármálalegum staðreyndum bæði fljótt og vel.

Opinbera umræða um sjúkrahúsin í Reykjavík snerist á undanförnum árum vissulega mikið um eilífan fjárskort.   Við hvorki getum né viljum kasta því frá okkur að nefna stundum peninga þegar talað er um Landspítala - háskólasjúkrahúss.  Ég leyfi mér hins vegar að fullyrða að barlómur vegna peningavandræða hefur ekki verið einkennandi í umræðu um þessa nýju stofnun.  Spítalinn verður að standa traustum fótum fjárhagslega og við þurfum að haga okkur samkvæmt því í rekstri hennar.  En við horfum líka mjög ákveðið til þess að stofnunin sæki fram með bættri þjónustu við sjúklinga og vinnum staðfastlega í þeim anda.  Sá ásetningur okkar hefur að mínu viti komist vel til skila út í samfélagið.

Landspítali – háskólasjúkrahús er stofnun fólksins í landinu.  Það gerir þá eðlilegu kröfu að hún þjóni sjúklingum eins og best verður á kosið. Allt okkar starf hlýtur að hafa að leiðarljósi að uppfylla þær kröfur.  Almenningur verður um leið að fylgjast vel með því sem hér fer fram og taka þátt í því að gera góða stofnun enn betri. Mikilvægur liður í því er að fá fólk utan stofnunarinnar til að sitja í mikilvægum nefndum og ráðum spítalans sem fjalla um starfsemina og hefur það verið gert í vaxandi mæli.
 
Mikið mótunarstarf hefur verið unnið síðan Landspítali - háskólasjúkrahús leit dagsins ljós.  Þar hafa margir unnið mikið og vel og eru öllum færðar þakkir fyrir óeigingjarnt starf.  Það hefur verið bæði gagnlegt og gaman að fá að kynnast þessu fólki og starfa með því. Sú vinna sem lögð er því á herðar er stundum á mörkum þess mögulega.