Leit
Loka

Ávarp Páls Matthíassonar forstjóra 

 

Ávarp Páls Matthíassonar forstjóra

Ráðherra, kæra samstarfsfólk og velunnarar Landspítala!

Í annað sinn blásum við til ársfundar Landspítala með óhefðbundnum hætti. Eins og fyrir réttu ári streymum við fundinum og vonumst til að sem flestir nái að nýta sér þá leið til að fylgjast með þeirri áhugaverðu dagskrá sem hér er framundan. Reynslan reyndar sýnir að það eru hundruð sem notfæra sér að fylgjast með svona fundum beint og þúsundir sjá fundi í uppsöfnuðu áhorfi, þannig að streymisfundir ná til margra.

Á síðasta ársfundi vorum nokkuð drjúg með okkur. Við áttum raunar ágæta innstæðu fyrir því. Við vorum rétt að stíga út úr því sem við vissum reyndar ekki þá, að væri fyrsta bylgja COVID-19 faraldursins og okkur hafði tekist í frábærri samvinnu við fjölda aðila að vinna bug á bylgjunni, flatt út kúrfuna og náð að byggja upp öfluga COVID-19 göngudeild sem á engan sinn líka á heimsvísu. Við horfðum því björtum augum fram á sumarið og náðum mörg að njóta þess sem aldrei fyrr.

En veiran er lævís og lipur og lætur sér fátt um finnast. Strax síðla sumars lét hún til sín taka og í haust sem leið skall á alvöru bylgja alvarlegra sýkinga.

Og það gerðist sem við óttuðumst og lögðum okkur sérstaklega fram um að myndi ekki gerast.

Þegar farsóttin geysaði af mestum krafti í samfélaginu í október síðastliðnum þá kom hún inn á spítalann með margvíslegum hætti; með starfsfólki, aðstandendum og sjúklingum. Í einu tilfelli brugðust varnir okkar og upp kom alvarlegt hópsmit á Landakoti sem varð mjög þungt og erfitt þótt strax væri brugðist við af fullu afli. Atburðirnir og afleiðingar þeirra voru sjúklingum og aðstandendum þeirra sérlega þungbærir en áhrifin á starfsfólk spítalans voru líka gríðarleg og við erum enn að vinna okkur út úr þessu áfalli, draga lærdóma af og bæta okkar sýkingavarnir – sem, það verður að segjast, hafa reyndar tekið stórstígum framförum síðasta áratuginn en ekki síst síðasta árið með svo lágri spítalasýkingatíðni að er á heimsmælikvarða.

Í þessari baráttu allri við hópsýkinguna á Landakoti stóð starfsfólk Landspítala sameinað áfram í framlínunni í baráttunni við faraldurinn og þar stöndum við enn.

En við erum ekki ein.

Það sem þessi faraldur hefur kennt okkur umfram flest annað er gildi samvinnunnar. Yfirskrift ársfundarins – Samvinna á farsóttartímum – er auðvitað engin tilviljun. Engir atburðir hafa með jafn afdrifaríkum og skjótvirkum hætti tekið niður veggi sem skilið að hafa að starfsemi inni á spítalanum. Þekking og kraftar hafa flætt um starfsemina með frábærum árangri. Þetta gildir síðan enn frekar um samvinnu við aðra utan spítalans sem komið hafa með beinum eða óbeinum hætti að viðbrögðum við faraldrinum, hvort sem það er heilbrigðisstarfsfólk sem tímabundið yfirgaf sinn vinnustað til að létta undir með okkur, samstarf við sóttvarnaryfirvöld, við samstarfsstofnanir, ráðuneyti, sóttvarnalækni og Embætti landlæknis eða aðra aðila.

Okkar frábæri árangur í baráttu við Covid-19 faraldurinn byggir á fjórum hornsteinum; í fyrsta lagi á snemmskimun og smitrakningu. Í öðru lagi á COVID-19 göngudeild spítalans, sem heldur utan um þá sem veikst hafa af COVID-19, með reglubundnu mati og markvissum innlögnum og meðferð sjúkra. Þriðji hornsteinninn er utanumhald um smitvarnarbúnað og annan búnað á landsvísu af Landspítala, með markvissum og snörum innkaupum á varningi sem allur heimurinn var á höttunum eftir. Í fjórða lagi þá snýst þetta um opna, heiðarlega og tímanlega upplýsingagjöf til almennings – sem þríeykið góða með hjálp fjölmargra annarra hafði forgöngu um. Opinni upplýsingagjöf sem við á spítalanum notuðum síðan meðal annars eftir hópsmitið á Landakoti með skýrslugjöf til almennings. Allir þessir fjórir þættir, þessir hornsteinar í viðbrögðum okkar við farsóttinni byggja á algerlega órofa samstöðu – á samvinnu.

En nú, þegar tæpir 15 mánuðir eru liðnir frá upphafi faraldursins er ekki laust við að þreytu sé víða tekið að gæta. Það gildir auðvitað um starfsfólk Landspítala eins og marga aðra, en þó verð ég að segja að þrautseigja og þolgæði starfsfólks spítalans hefur verið einstök. Það er ekki hægt horfa fram hjá því að á bráðasjúkrahúsi starfar jú fólk sem lifir og hrærist í bráðaumhverfi. Allar viðbragðsáætlanir spítalans gera ráð fyrir að ástand vari í tiltölulega stuttan tíma. Og jafnvel þótt viðbragðsáætlun vegna farsótta hafi gert ráð fyrir lengri tíma þá var þar ekki tjaldað til meira en nokkurra mánaða. Þetta hefur því verið lærdómsríkt og skólabókardæmi um þrautseigju, að þurfa að taka á honum stóra sínum, standa vaktina, leysa alvarlegar krísur, ekki bara eitt laugardagskvöld eða eina viku, ekki einn mánuð eða vor heldur mánuð eftir mánuð eftir mánuð. Og það gerir það frábæra starfsfólk sem hér vinnur og sem á heiður skilinn.

Það má segja að ég hafi enn ekki nefnt fimmta hornsteininn undir árangri okkar í baráttu við kórónaveiruna – hornstein sem jafnframt er veigamikill þáttur í þríþættu hlutverki spítalans. Þessi hornsteinn er vísindi.

Vísindin efla alla dáð sagði Jónas Hallgrímsson. Það hefur sannast undanfarið ár, þar sem við höfum þurft að beita vísindum til að skilja nýja veiru og læra að bregðast við henni. Fyrir réttri viku fór fram hin hefðbundna dagskrá „Vísindi á vordögum“ hér á spítalanum. Það er alveg sérstaklega ánægjulegur en ekki síður mikilvægur viðburður á spítalanum, en hér fer jú fram eitt öflugasta vísindastarf á landinu. Það eru þó blikur á lofti sem hafa verið reifuð af yfirlækni vísindadeildar og fleirum og ég tek heils hugar undir. Spítalinn veitir yfir 100 mkr árlega í samkeppnisstyrki úr vísindasjóði, en betur má ef duga skal, umsóknum fer fækkandi sem og tilvísunum í vísindagreinar síðustu 15 árin.

Menn hafa velt fyrir sér orsökum – breytt viðhorf, breytt menning, aukið álag í þjónustu spítalans og minna svigrúm en grunnurinn er sá að menn uppskera einfaldlega eins og þeir sá. Og við erum ekki að sá nægilega – og þá á ég við í peningum. Það fjármagn sem fer til vísinda á Landspítala er langtum minna en á þeim háskólasjúkrahúsum sem við viljum bera okkur saman við – og miðað við fjármögnunina er árangurinn í raun ótrúlega góður – því árangurinn er góður. Til ráða er að auka fé og þá er að mínu mati ákveðið lágmark að miða við 3% af rekstrarfé spítalans – það eru rúmlega 1,5 milljarðar á ári og a.m.k. helmingur þess fari í samkeppnissjóði. Það er líka mikilvægt, eins og fram kom í ávarpi heilbrigðisráðherra á Vísindum á vordögum um daginn, að eyrnamerkja féð heilbrigðisvísindastarfi. Það gengur ekki að láta mikilvægt vísindastarf keppa um fjármagn við mikilvæga og áríðandi sjúklingaþjónustu, hvoru tveggja þarf að tryggja með geirnegldri fjármögnun, hið minnsta 3% til vísindastarfs en við erum fjarri því enn, með tæplega 1% af rekstrarfé spítalans samanlagt til vísindastarfs en t.d. á Karolínska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi eru þegar allt er talið um 10% af rekstrarfé eyrnamerkt vísindastarfi.



Ég sagði að árangur sé góður, sú er reyndin – þrátt fyrir allt. Ótrúlegur kraftur er víða, mjög víða, bæði í grunnvísindum, sem og í klínískum rannsóknum – og við höfum fundið það undanfarið ár í viðbrögðum okkar við farsóttinni en líka í svo mörgu öðru.

Það er nefnilega von á meðan við eigum öfluga vísindamenn. Og okkur veitir ekki af von. Lengdar lífslíkur okkar síðustu 200 árin eru tengdar vísindum – ekki bara heilbrigðisvísindum heldur vísindum almennt. Farið var að fylgjast með ævilengd seint á 17. öld en lítið hreyfðist – jafnt ríkir sem fátækir bjuggu við meðalævilengd upp á rúmlega 30 ár. Með bólusetningum, skilningi á mikilvægi hreins vatns og aðferðum til að tryggja það, með sýklalyfjum og hitaveitu – með öllu því sem vísindin hafa fært okkur þá höfum við meira en tvöfaldað ævilengd Vesturlandabúa. Þetta er dæmi um þann árangur sem vísindaleg nálgun og að hafa það sem sannara reynist hefur skilað okkur. En þessum árangri fylgir það að mannkyni fjölgar, úr 2 milljörðum í 8 á rúmri öld og nú þurfum við að reiða okkur á vísindin til að takast á við afleiðingar þessa árangurs, vaxandi hlýnun jarðar og hækkandi sjávarstöðu.

Annar fylgifiskur árangurs okkar er að jafnframt því að við lifum lengur þá lifum við líka lengur með fjölmarga sjúkdóma og margs konar hrörnun. Við sjáum það hér á landi þar sem mjög öldruðum fjölgar ár frá ári. Það er fagnaðarefni en krefst annars vegar meiri heilbrigðisþjónustu og hins vegar meiri stuðnings til handa þeim sem ekki ráða við að búa einir lengur, stuðnings með heimaþjónustu og líka á hjúkrunarheimilum. – Þetta eru mál sem við sem samfélag glímum við í vaxandi mæli og sem við á Landspítala finnum mjög skýrt fyrir, þegar fólk þarf á hjúkrunarrými eða miklum heimastuðningi að halda en slíkt er ekki fyrir hendi í nægum mæli. – Undanfarið rúmt ár, í kjölfar átaksverkefnis okkar heilbrigðisráðherra til að takast á við ófremdarástand á bráðamóttöku spítalans, fyrst og fremst vegna þess að spítalinn var fullur af fólki sem beið allt of lengi viðeigandi útskriftarúrræðis – hefur margt okkar besta fólk á spítalanum unnið að lausnum, leiðum til að bæta flæði og gera spítalann enn skilvirkari. Það er samt ekki einfalt. Skilvirkni þeirrar þjónustu sem við eigum að veita er þegar allgóð. Frá áramótum er meðallegutími innlagðra sjúklinga á spítalanum rúmlega 4 dagar. Það er ekki hægt að hlaupa mikið hraðar þar. En meðallegutími þeirra sem ekki komast heim aftur að lokinni meðferð heldur bíða úrræðis er talinn í mánuðum. Ég nefni þetta hér vegna þess að þetta brennur á okkur og er mesta ógn við öryggi spítalans, ég nefni þetta líka vegna þess að það er þarna sem vísindin, að safna saman og horfa á staðreyndir og finna lausnir, munu leiða okkur áfram – og ég nefni þetta vegna þess að við náum ekki tökum á þessu verkefni öðru vísi en með samvinnu allra sem að heilbrigðis- og velferðarmálum koma.

Þannig að þó að farsóttin hafi verið afar fyrirferðarmikil hjá okkur síðustu mánuði þá hefur starfsemi spítalans sannarlega snúist um fleira. Eftirspurn eftir þjónustu spítalans vex ár frá ári eins og allar starfsemistölur sýna og að láta aukna þjónustu rúmast innan fjárhagsramma og innan þess fjölda starfsfólks sem við höfum er eilíf áskorun. Áskorun sem við tökumst á við á hverjum degi án þess að hika.

Hér hefur nefnilega þrátt fyrir allt farið fram öflug uppbygging göngudeildarstarfsemi sem við fáum að kynnast hér á eftir og vil ég sérstaklega þakka heilbrigðisráðherra stuðning í þeim efnum. Þar vék hefðbundið skrifstofurými á Eiríksstöðum fyrir mikilvægari klínískri starfsemi og spennandi verkefnum. Við höfum sömuleiðis umbylt þjónustu eldhússins okkar og matsala, umhverfismálin eiga alltaf sinn mikilvæga sess í öllu okkar starfi og samhliða þessu höldum við áfram þróun upplýsingatækni og hugbúnaðar á þessum flóknasta vinnustað landsins. Yfir þessu svífa svo væntingar um nýtt húsnæði sem allra fyrst enda mikill kraftur í uppbyggingunni við Hringbraut. Áfram veginn.

Landspítali er sannarlega öflug stofnun og það er hann vegna starfsfólksins, fyrst og síðast. Mannauðurinn hér er á heimsvísu, um það er engum blöðum að fletta. Þess vegna er það eitt allra ánægjulegasta verkefni mitt á hverju ári sem forstjóri, að heiðra starfsmenn sem samstarfsfólk hefur tilnefnt. Það eru að sjálfsögðu margir til kallaðir, hreinlega ríflega 6000 manns, en aðeins fáir útvaldir. Það er samt þannig að hér vinnur fólk sín mikilvægu störf nótt sem nýtan dag í hljóði, fjarri augum fjölmiðla. – Mitt fyrsta starf á spítalanum var sumarið 1989 þegar ég vann sem aðstoðarmaður á Rannsóknarstofu í meinafræði. Þar er ótrúlega mikilvæg og merkileg vinna unnin, algerlega undir húddinu, án þess að fólk í raun viti af henni, nema þegar eitthvað kemur upp á, þá fer vélin fljótt að hökta. Svo mikið af starfsemi spítalans er unnin þannig, fjarri augum annarra og án lúðrablásturs en ofboðslega mikilvæg og sinnt af ábyrgu, vel menntuðu starfsfólki sem helgar líf sitt heilsu annarra og heilbrigðisvísindum, hvort sem það er starfsfólk sýkla- og veirufræði, flutningaþjónustu eða inni á gangi á einhverri af okkar fjölmörgu legudeildum. Hugsum til þess fólks alls þegar við heiðrum þá sem sérstaklega eru til kallaðir í ár.

Ég stóð hér fyrir ári, bjartsýnn sem nýstúdent að vori og það ætla ég að vera aftur núna. Varfærin bjartsýni er vel við hæfi. Það er innistæða fyrir því.

Að lokum vil ég segja þetta; kæra starfsfólk Landspítala. Þakka ykkur þrautseigjuna og eljuna. Þakka ykkur frumkvöðlahugsun og hæfileika. Þakka ykkur útsjónarsemi og hugmyndaauðgi. Og þakka ykkur hlýju og elsku við sjúklingana okkar.

Þið látið þetta ganga.

Forstjórapistlar 2019

Allar eldri fréttir
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?