Frétt

15. 12 2017

Forstjórapistill: #metoo byltingin, fjárlagafrumvarp og aðventan

Kæra samstarfsfólk!

Síðustu daga og vikur höfum við orðið vitni að byltingu þar sem aldalöng þöggun um framkomu, yfirgang og ofbeldi gagnvart konum hefur verið afhjúpuð fyrir það sem hún er: ólíðandi ósómi og smánarblettur. Það kemur auðvitað alls ekki á óvart að slíkt skuli hafa viðgengist í heilbrigðisþjónustunni enda er þar samfélag eins og á öðrum vinnustöðum. Flóra þessa ósóma er æði fjölbreytt - allt frá óþægilegum athugasemdum byggðum á kynferði upp í alvarlegar ógnanir og hreinræktað ofbeldi. Mér er farið eins og mörgum kynbræðrum mínum sem er misboðið fyrir hönd þeirra sem fyrir þessu verða. Ég veit að það eru fleiri sem eiga eðlileg samskipti við samstarfskonur okkar og mér rennur blóðið til skyldunnar að gera það sem í mínu valdi stendur til að uppræta þessa hegðun. Umfangið og eðli vandamálsins segir mér að hér sé um menningartengt fyrirbæri að ræða sem við þurfum öll að taka höndum saman um að ráðast að. 

Ég hef séð og fengið áskoranir frá konum í ýmsum stéttum, m.a. kollegum  mínum í læknastétt og síðast í morgun fékk ég senda áskorun kvenna í heilbrigðisþjónustu þar sem skorað er á stofnanir að viðurkenna vandann og að þær komi sér upp verkferlum og viðbragðsáætlunum, sem og að áætlun um aðgerðir og úrbætur verði gerð eftir því sem við á. Þetta er þörf brýning.

Landspítali lítur kynferðislega áreitni og ofbeldi af hálfu sjúklinga og starfsmanna alvarlegum augum og hefur þróað sérstaka skriflega verkferla í gæðahandbók sem vísa veginn við úrvinnslu mála sem upp koma, m.a. með aðkomu stuðnings- og ráðgjafarteymis spítalans. . 

Ég hef skynjað í umræðunni að eitt meginvandamálið í þessum óeðlilegu samskiptum er það valdaójafnvægi sem iðulega er gerandanum í vil. Slíkt læsir þolandann inni í vondri stöðu þar sem hann á erfitt um vik að bregðast við. Þeir sem fyrir áreitni og ofbeldi verða þurfa að skynja að umhverfið styðji þá til að segja frá og tilkynna og þar eru yfirmenn í lykilstöðu til að ganga fram með góðu fordæmi. Við höfum atvikaskráningakerfi þar sem unnt er að skrá atvik, hvort sem maður verður fyrir því sjálfur eða er vitni að því, og þar er hægt að skrá atvik undir nafni eða í skjóli nafnleyndar. Við skulum öll vera vakandi fyrir atvikum af þessu tagi og bregðast við, hvort sem það erum við sjálf sem fyrir þessu verðum eða samstarfsfólk okkar. Það er sameiginleg skylda allra. 

Við höfum kannað áreitni og ofbeldi á vinnustaðnum með reglulegum hætti, síðast 2015, en #metoo byltingin setur málið rækilega á dagskrá og í síðustu viku settum við af stað örkönnun um tíðni slíkrar hegðunar á spítalanum. Niðurstöður hennar liggja fyrir í næstu viku og munu hjálpa okkur að skerpa á verklagsreglum sem þegar eru til staðar en sömuleiðis vafalaust setja mark sitt á samskiptasáttmála Landspítala sem við höfum verið að vinna að undanfarið. Þar hljóta góð samskipti og virðing í samstarfi allra að vera í lykilhlutverki. Kynferðisleg áreitni og ofbeldi getur ekki og á ekki að þrífast á Landspítala og ég treysti því að við tökum öll þátt í að útrýma þessari hegðun.

-----

Frumvarp til fjárlaga var lagt fram á Alþingi í gær og hvað Landspítala varðar sýnist mér ljóst að þrátt fyrir stuttan tíma hefur nýjum ráðherra heilbrigðismála tekist að setja mark sitt á það með jákvæðum hætti. Frá því frumvarpi sem lagt var fyrir í haust, og voru vægast sagt veruleg vonbrigði, hefur verið bætt við umtalsverðum fjármunum sem benda til aukins skilnings og þekkingar á starfi og rekstri spítalans. Engu að síður er það svo að enn vantar nokkuð upp á til að spítalinn nái endum saman og þá er ég einungis að miða við óbreyttan rekstur, ekki neinar nýjungar eða sérstaka uppbyggingu starfseminnar eða endurreisn. Upplegg stjórnarflokkanna og ráðherra sjálfs gefa þó tilefni til bjartsýni um að frumvarpið taki viðunandi breytingum í meðförum þingsins. Við fylgjumst spennt með.

-----

Síðustu dagar fyrir hátíðar eru mikill annatími hér á spítalanum, eins og enginn hefur farið varhluta af. Mannamót og jólagleði kallar á ferðalög sem verið geta heilsunni skeinuhætt - annars vegar vegna þess að í hálku og myrkri verða jú flest slysin og hins vegar vegna þess að það eru aldeilis jólin hjá smitpestum þegar margir koma saman. Ég veit að við sameinumst í aðventukveðju til landsmanna allra og biðjum þá að nota allar mögulegar hálkuvarnir ... og spara ekki handþvottinn!

Góða helgi öll sömul!

Páll Matthíasson

 

Til baka