Frétt

10. 10 2017

Sérnám í bæklunarlækningum komið með viðurkenningu heilbrigðisyfirvalda og unnið að námi í fleiri sérgreinum

Framhaldsmenntunarráð lækninga á Landspítala í janúar 2017

Framhaldsmenntunarráð lækninga á Landspítala í janúar 2017

Formlega viðurkennt sérnám í læknisfræði er að komast á í vaxandi mæli á Landspítala, samkvæmt nýrri reglugerð um framhaldsnám lækna sem sett var í apríl 2015 eftir vandaða forvinnu.

Þetta skiptir máli fyrir uppbyggingu spítalans og heilbrigðiskerfisins á Íslandi. Um er að ræða bæði vandaðar marklýsingar í samvinnu við erlenda aðila í mörgum tilvikum og svo það að gera úttekt á námsstöðunum og viðurkenna getu þeirra til að veita menntunina. Formleg viðurkenning af hálfu heilbrigðisyfirvalda hefur þýðingu hér á landi og þegar íslenskir læknar fara erlendis til að bæta við sig frekara námi enda er námið þá vottað sem vel upp sett, með góðum námsstöðlum og í takt við það sem gerist best erlendis.

Sérgreinalæknar á spítalanum og í heilsugæslunni og ýmsir aðrir leggja mikla vinnu í að koma þessu á. Upphafsnám til 2ja eða 3ja ára í lyflæknisfræði í samvinnu við Royal College of Physicians í Bretlandi var viðurkennt í lok nóvember 2016. Fullt sérnám í geðlækningum byggt upp hér á landi var viðurkennt í júní 2017 og nú í september var viðurkennt upphafsnám til tveggja ára í  bæklunarlækningum byggt á sænsku módeli. Verið er að vinna að viðurkenningu á sérnámi í svæfinga- og gjörgæslulækningum, í bráðalækningum, barna- og unglingageðlækningum, fæðinga- og kvensjúkdómafræði, meinafræði og réttarmeinafræði, barnalækningum, skurðlækningum og viðbótarnámi vegna öldrunarlækninga. Stefnt er að viðurkenndu sérnámi í fleiri fögum. Svonefnd bráðakjarnaleið með sameiginlegri upphafsnámsbraut fyrir lyflækningar, svæfinga- og gjörgæslulækningar og bráðalækningar er líka í farvegi.

Reynir Tómas Geirsson, fyrrverandi prófessor og kvensjúkdómalæknir á Landspítala, er formaður í nefnd sem velferðarráðuneytið skipaði og hefur það hlutverk að annast viðurkenningarferlið. Nefndin hefur aðsetur á Landspítala og nýtur mikils stuðnings spítalans, þ.m.t. frá framkvæmdastjórn og menntasviði.  Þá hefur framkvæmdastjóri lækninga sett á fót framhaldsmenntunarráð lækninga (myndskeið) sem er eins konar innri starfshópur til að veita þessum málum brautargengi.

 

Til baka