Frétt

27. 09 2017

Workplace gjörbreytir samskiptum innan Landspíta

Samskiptamiðillinn Workplace verður tekinn formlega í notkun hjá Landspítala á mánudaginn kemur, 2. október. Allt starfsfólk spítalans fær þá þátttökuboð í tölvupósti og getur skráð sig inn í kjölfarið á eigin spýtur. Workplace er hópvinnulausn fyrir fréttir, fróðleiksmiðlun, viðburði og samtöl (og vídeó), sem mun færa starfsfólk nær hvort öðru með rafrænum hætti.

Svona er Workplace >> (myndskeið).

Einstakur samskiptamiðill

Með Workplace gangsetur Landspítali samskiptamiðil, þar sem allt starfsfólk hefur aðgang að tíðindum, tilkynningum og teymum, hvar og hvenær sem er; óháð staðsetningu, aðgangi að innra neti og tölvupósti. Ekki nema hluti starfsfólks hefur stöðugan aðgang að borðtölvu í dag. Flestir hafa þó snjallsíma í vasanum og eiga því væntanlega eftir að ná sér í öppin fyrir Workplace. Þessi lausn mun gjörbreyta upplýsingamiðlun og samskiptum innan Landspítala.

Tárvott myndskeið um tengda veröld >> (myndskeið).

Upplýsingar við fingurgómana: 24/7

Talsverðar breytingar verða á upplýsingamiðlun innan Landspítala í kjölfarið á innleiðingu Workplace. Fréttir, viðburðir, auglýsingar og matseðlar munu þannig færast fljótlega af innri vef spítalans og yfir á Workplace. Búist er við því að megnið af umferðinni á Workplace verði gegnum snjallsíma þegar fram í sækir. Markmiðið með innleiðingu Workplace á Landspítala er að auka flæði upplýsinga og þekkingar innan Landspítala, ásamt því að styrkja samvinnu og efla starfsandann. Vel heppnuð innleiðing Workplace mun minnka magn tölvupósts og fækka fundum. Workplace hefur sama viðmót og Facebook, þannig að mjög auðvelt er að læra á lausnina.

Ítarlegar spurningar og svör er að finna hér >>  

Engin klínísk samskipti í workplace

Mikilvægt er að árétta að engin klínísk samskipti munu fara fram á Workplace, hvorki í grúppum eða teymum lausnarinnar né skilaboðakerfi hennar (chat). Þar hvorki mega né eiga að vera nokkur samskipti sem tengjast sjúklingum eða sjúkraskrám.
Það skilaboðakerfi sem hefur verið að ryðja sér helst til rúms á Landspítala undanfarin ár varðandi trúnaðarsamskipti er hin lokaða Skilaboðaskjóða, sem er hluti af Heilsugátt Landspítala.

Heilsugátt er rafrænt sjúkraskrákerfi sem hefur þróast hratt hjá heilbrigðis- og upplýsingatæknideild (HUT) Landspítala undanfarin misseri. Með kerfinu næst góð yfirsýn á sjúklinga hverrar deildar, sem auðveldar mjög vinnu heilbrigðisstarfsfólks og eykur öryggi sjúklinga. Heilsugátt er þróuð til að keyra í vafra hjá notendum. 
Fjölmennt þróunarteymi hjá Landspítala vinnur stöðugt að nýjungum og umbótum í Heilsugátt í nánu samstarfi við klíníska ráðgjafa.

Heilsugátt í hnotskurn >>
(myndskeið) 

Workplace-stjörnur: bættu þér í hópinn

Allar deildir Landspítala þurfa að hafa að minnsta kosti eina Workplace-Stjörnu (champion), ásamt því sem eðlilegt er að stjórnendur og annað áhugasamt starfsfólk tilheyri þeim hópi. Stjörnur er fólk sem er forvitið um verkefni af þessu tagi og ástríðu fyrir samskiptum. Stjörnur eru ekki tæknifólk. Ef viðkomandi kann á Facebook, þá kann viðkomandi líka nú þegar á Workplace og getur leiðbeint öðrum, ef þörf krefur.

Skráðu Stjörnur og finndu svör við öllum þínum spurningum um Workplace hérna á vef Landspítala >>Til baka