Frétt

16. 06 2017

Forstjórapistill: Umhverfisverðlaun og 60 ára afmæli

Kæra samstarfsfólk!

Það voru heldur betur ánægjuleg tíðindi sem bárust í morgun, þegar að tilkynnt var um tilnefningar Norðurlandaráðs til umhverfisverðlauna. Það er mér sérstök ánægja að greina frá því að Landspítali er tilnefndur .

Í ár er horft til verkefna sem færa okkur nær úrgangslausu samfélagi og þar höfum við á Landspítala sannarlega lagt okkar af mörkum og hljótum nú þessa viðurkenningu fyrir. Við vinnum einbeitt að minni sóun, höfum markvisst minnkað notkun einnota hluta og baráttan gegn matarsóun er eitt af okkar aðalverkefnum. Við höfum sett okkur metnaðarfull markmið í umhvefismálum, ætlum að minnka kolefnisspor okkar um 40% og öflugt teymi í umhverfismálum fylgir þessu fast á eftir. Að mörgu er að hyggja til að ná þessu markmiði; orkunotkun, samgöngum, innkaupum, flokkun sorps og mörgu fleiru. Sjá nánar viðtal við Huldu Steingrímsdóttur, umhverfisstjóra Landspítala

Okkur er mikil alvara í þessum málum og vitum að aðrar stofnanir horfa til þess sem Landspítali gerir í umhverfismálum, enda gerir stærð spítalans það að verkum að allt sem við gerum hefur mikil áhrif. Svo dæmi sé nefnt þá minnkar sú ákvörðun að hætta að nota bekkjapappír á skoðunarbekki notkun pappírs um 9,7 tonn á ári! Það var því ánægjulegt að fá tilnefningu til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs, en þau eru veitt veitt norrænni stofnun, fyrirtæki eða einstaklingi sem sett hefur fordæmi með því að samþætta virðingu fyrir umhverfinu í starfi sínu, eða með því að sýna frumkvæði á annan hátt með sértækum aðgerðum umhverfinu til góða.
Ég óska okkur öllum innilega til hamingju með tilnefninguna, hún hvetur okkur svo sannarlega til dáða til að gera enn betur.

60 ára afmæli Barnaspítala Hringsins

Á mánudaginn fögnum við því að Barnaspítali Hringsins er 60 ára, en 19. júní 1957 opnaði fyrsta sérstaka barnadeildin á Landspítala. Að sjálfsögðu voru það konur sem höfðu forgöngu um þetta framfaraskref, líkt og um byggingu spítalans 30 árum áður. Kvenfélagið Hringurinn hefur frá upphafi verið stoð og stytta Landspítala í þjónustu okkar við börn.

Fyrst beitti félagið sér fyrir sérstakri barnadeild á spítalanum, en áður höfðu börnin dvalist með fullorðnum í veikindum sínum, sem var afar óhentugt. Næst fékkst fram baráttumál þeirra um bættan aðbúnað fyrir veik börn og fjölskyldur þeirra og deildin opnaði í E-álmu Landspítala við Hringbraut 1965. Framsýni Hringskvenna ríður ekki við einteyming og þeirra baráttumál var að sérstök bygging myndi rísa fyrir þennan mikilvæga hóp og auðvitað varð það að raunveruleika, árið 2003.

Á hverju ári færir Kvenfélagið Hringurinn Landspítala stórgjafir og við höfum spurnir af því að enn ein slík gjöf berist þennan hátíðardag, 19. júní, þegar fulltrúar félagsins heiðra okkur með nærveru sinni ásamt forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, eiginkonu hans Elizu Reid, heilbrigðisráðherra Óttarri Proppé og fleiri góðum gestum. Innilega til hamingju með daginn og hjartans þakkir til hinna öflugu og ötulu Hringskvenna. Þið eruð engum líkar.

Hafið það gott um helgina, hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin. 

Páll Matthíasson

Til baka