Frétt

19. 05 2017

Forstjórapistill: Ný greiningardeild og góður árangur í biðlistaátaki

Kæra samstarfsfólk!

Veturinn hefur verið okkur að mörgu leyti þungur en að sama skapi hefur náðst mikill árangur á ýmsum sviðum. Frá áramótum höfum við glímt við gríðarlegan innlagnaþunga og hefur úrræðaleysi utan Landspítala fyrir einstaklinga sem þurfa aðra þjónustu en veitt er á bráðasjúkrahúsi verið helsti ljár í þúfu. Ýmislegt hefur þó gerst síðustu vikur og hefur nú tekið til starfa deild fyrir biðsjúklinga á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi sem mun þjóna líku hlutverki og Vífilsstaðir gera nú. Það er ánægjulegt að brydda upp á nýjungum í samstarfi við systurstofnanir og við bindum vonir við þetta samstarf, sem fyrst og síðast er sameiginlegum skjólstæðingum okkar til góða. Samhliða þessu er nú á lokametrunum undirbúningur við opnun sérstakrar greiningardeildar á Landspítala, en gert er ráð fyrir að hún verði opni nú 1. júní  Allt er þetta til bóta fyrir sjúklinga en áfram leggjum við gríðarlega áherslu á að stjórnvöld beiti sér af fullum þunga að uppbyggingu hjúkrunarrýma og annarrar þjónustu við eldri borgara. Allt sem hraðar slíkri uppbyggingu er til bóta. 

Í vikunni kom enn upp nokkur umræða um liðskiptaaðgerðir. Landspítali er þátttakandi í átaki stjórnvalda um að minnka biðlista. Átakið er til þriggja ára og eru nú liðnir um 15 mánuðir af því og er markmiðið að ná biðtíma eftir t.d. mjaðmaskiptaðagerðum undir 3 mánuði. Árangurinn hefur verið góður og er nú meðal biðtími eftir slíkri aðgerð rétt um 6 mánuðir en var um 15 mánuðir þegar átakið hófst. Í ljósi umræðu um kostnað við aðgerðir sem þessar er rétt að upplýsa að á síðasta ári greiddi ríkissjóður um tæpar 900 þúsund krónur fyrir hverja aðgerð sem framkvæmd var á Landspítala. Þá er rétt að hafa í huga þegar gerður er verðsamanburður á aðgerðum sem þessum að örugglega sé um sömu þjónustu að ræða. Á Landspítala er sá sjúklingahópur sem ríkið greiðir fyrir fjölbreyttur og gera má ráð fyrir að flestir þurfi að dvelja á sjúkrahúsinu í 3 daga eftir aðgerð. Sé gert ráð fyrir styttri legutíma að jafnaði má ætla að kostnaður sé umtalsvert minni. 

Nú fer að líða að því að fjöldi sumarstarfsmanna taki til starfa. Stór hluti þessara starfsmanna eru nemar í heilbrigðisvísindum sem þekkja vinnustaðinn vel eftir starfsnám hjá okkur en um 1.800 nemar eru hjá okkur yfir vetrartímann. Okkur er sérstök ánægja að taka á móti þessum hópi til starfa á sumrin. Sama gildir auðvitað um aðra sem starfa með okkur hér á Landspítala, fjölbreytileiki starfa er með þeim hætti að vel flestir ættu að geta fundið sér verk við hæfi. Ég vil nota tækifærið og bjóða alla hjartanlega velkomna til okkar. Landspítali er stór og fjölbreyttur vinnustaður og ég vona að þið finnið ykkur í starfinu með okkur. Það er krefjandi að vinna á Landspítala en líka gefandi því fá störf eru samfélaginu okkar mikilvægari en þau sem hér eru unnin. Samhliða þessu fer nú okkar fasta starfsfólk að hefja töku sumarleyfa og ég vona að þið njótið sumarsins og komið endurnærð aftur til vinnu á þessum magnaða vinnustað. 

Hafið það gott í blíðviðrinu um helgina, hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin! 

Páll MatthíassonTil baka