Frétt

04. 05 2017

Björn Rúnar Lúðvíksson heiðursvísindamaður Landspítala 2017

Björn Rúnar Lúðvíksson
Björn Rúnar Lúðvíksson, yfirlæknir ónæmisfræðideildar og prófessor í ónæmisfræði, er heiðursvísindamaður Landspítala 2017

Björn Rúnar lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ 1981 og læknaprófi frá Háskóla Íslands árið 1989. Eftir að hafa unnið sem kandídat og aðstoðarlæknir fór hann í sérfræðinám í almennum lyflækningum við University of Wisconsin í Madison Bandaríkjunum 1991. Þaðan fór hann í framhaldsnám í klínískri ónæmisfræði við National Institute of Allergy, Immunology and Infectious diseases, National Institutes of Health, Bethesda, Maryland í Bandaríkjunum frá 1993 til 1996. Hann lauk bandaríska sérfræðiprófinu í almennum Lyflækningum 1994 og í klínískri ónæmisfræði 1997. Eftir að sérnámi lauk starfaði hann sem sérfræðilæknir og vísindamaður á NIAID, NIH frá 1996 til 1999. Hann varði doktorsritgerð sína „The Regulatory Function of IL-2 and IL-12 in Autoimmunity and Thymocyte Development” við læknadeild Háskóla Íslands 1999. Björn Rúnar kom til Íslands síðar það ár og hóf störf sem sérfræðilæknir á ónæmisfræðideild og dósent í ónæmisfræði við Háskóla Íslands. Hann var skipaður yfirlæknir ónæmisfræðideildar Landspítala og prófessor í ónæmisfræði við læknadeild Háskóla Íslands 2007. 
Helstu áherslur í rannsóknum
Megináherslur Björns Rúnars hafa legið á þremur megin sviðum. Í fyrsta lagi tilurð og afleiðingar meðfæddra ónæmisgalla, þá sérstaklega IgA skorts og galla í Lektín ferlum komplementkerfisins. Í öðru lagi stjórnun bólgusvars sjálfsónæmissjúkdóma, þá sérstaklega í tengslum við ósértækt ónæmissvar. Auk þess hefur Björn Rúnar unnið síðastliðinn áratug að þróun stoðtækja (í gegnum öpp og veflausnir (clinical decission support systems)) til að styðja við og auðvelda greiningu, eftirlit og meðferð gigtar- og ónæmissjúkdóma. Þessar rannsóknir hafa lagt grunn að einkaleyfum tengdum lyfjameðferð sjálfsónæmissjúkdóma og notkun ofangreindra veflausna. Einnig hafa þær lagt grunninn að sprotafyrirtækjum í Bandaríkjunum og á Íslandi en Björn Rúnar er einn af aðalstofnendum sprotafyrirtækisins eXpeda, ehf sem er starfandi hér á landi. 

Björn Rúnar hefur hlotið fjölda innlendra og erlendra styrkja vegna rannsókna sinna. Hefur hann bæði sem leiðandi rannsakandi og samstarfsaðili hlotið nokkra rannsókna- og tækniþróunarsjóðsstyrki Rannís undanfarin ár. 

Frá upphafi ferils síns hefur Björn Rúnar Lúðvíksson sýnt góða virkni við ritun fræðslu-, kennslu- og vísindagreina auk bókakafla í fræðigrein sinni. Liggja þannig eftir hann yfir hundrað slík rit auk nokkur hundruð fyrirlestra og ágripa í tengslum við innlendar og erlendar vísindaráðstefnur.  Hann hefur leiðbeint fjölda lækna-, líffræði-, lífeindafræði-, hjúkrunarfræði- og líftölvunarfræðinema í rannsóknarnámi (BS, MS og PhD). Björn Rúnar hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum sem snúa að sérgrein hans innan- og utanlands auk þess sem hann var formaður Vísindasiðanefndar 2007–2012. Hann siturn einnig í ritnefndum vísindatímaritanna Scandinavian Journal of Immunology og Cellular & Molecular Immunology.

Til baka