Fyrstu einkenni eru gjarnan almenns eðlis, t.d. mæði, þreyta og óþægindi fyrir brjósti og sjúklingar eru stundum ranglega greindir með algengari sjúkdóma eins og astma eða kvíða.
Þegar einkenni eða skoðun vekja grun um lungnaháþrýsting er nauðsynlegt að skoða nánar hvort viðkomandi er í raun með lungnaháþrýsting og af hverju. Í flestum tilfellum er lungnaháþrýstingur orsakaður af hjarta- og lungnasjúkdómum eða blóðtöppum í lungum. Fyrsta uppvinnsla miðar að því að kanna hvort viðkomandi er með þessa sjúkdóma. Hjartaómun er lykilatriði í uppvinnslunni. Með hjartaómun er hægt að skoða hvort um er að ræða hjartabilun eða lokusjúkdóma og áætla þrýsting í lungnaslagæðum. Þegar lungnaháþrýstingur orsakast af hjarta- og lungnasjúkdómum eða blóðtöppum felst meðferðin í því að meðhöndla undirliggjandi sjúkdóma.
Ef fyrstu rannsóknir leiða ekki í ljós undirliggjandi orsök er mikilvægt að vísa sjúklingum strax í nánari uppvinnslu til lungnalækna á Landspítala. Sú uppvinnsla miðar að því að kanna hvort viðkomandi sé með lungnaslagæðaháþrýsting af WHO flokki-1 (e. pulmonary arterial hypertension). Lungnaslagæðaháþrýstingur getur verið arfgengur, vegna lyfja, bandvefssjúkdóma, lifrarsjúkdóma, HIV eða meðfæddra hjartagalla. Stundum finnst engin orsök og þá er talað um „idiopathic“ lungnaslagæðaháþrýsting. Meðferð við lungnaslagæðaháþrýstingi er mjög sérhæfð og er í höndum sérfræðinga á Landspítala.
Það að greina lungnaháþrýsting snemma, finna orsökina og meðhöndla á viðeigandi máta bætir líðan og lifun.