Deildin hefur gegnt afar mikilvægu hlutverki í þjónustu við hjartasjúklinga í gegnum árin og þróast töluvert frá stofnun.
Hjartagáttin var stofnuð árið 2010 sem bráðadeild fyrir sjúklinga með hjartatengd vandamál og var opin allan sólarhringinn virka daga.
Í desember árið 2018 var ákveðið að breyta starfseminni og er deildin nú rekin fyrst og fremst sem dag- og göngudeild, þó völdum bráðasjúklingum sé einnig sinnt, þar á meðal þeim sem fá bráða kransæðastíflu.
Á Hjartagáttina koma sjúklingar sem koma að heiman í ýmsar aðgerðir á hjartaþræðingastofu, til að mynda kransæðaþræðingar, gangráðsísetningar og brennsluaðgerðir. Einnig eru á Hjartagáttinni framkvæmdar rafvendingar vegna gáttatifs.
Undir Hjartagáttina heyra einnig fjórar sérhæfðar göngudeildir:
- Göngudeild hjartabilunar
- Göngudeild kransæða
- Göngudeild hjartsláttatruflana
- Göngudeild arfgengra hjartasjúkdóma
Að auki starfar innan deildarinnar svokölluð flýtimóttaka sem sinnir hálfbráðum hjartatilfellum, meðal annars sem í eftirfylgd frá bráðamóttöku svo og öðrum heilbrigðisstofnunum.
Starfsfólk Hjartagáttarinnar myndar samhentan hóp sem vinnur af fagmennsku og alúð, með áherslu á hlýlega og persónulega móttöku.
Afmælishátíðin var kærkomið tækifæri til að líta yfir farinn veg, fagna árangri og styrkja samstöðu meðal starfsfólksins sem hefur gert Hjartagáttina að þeirri öflugu einingu sem hún er í dag.