Gas- og kolmónoxiðeitrun

Gaseitrun getur orðið ef gas lekur út í miklu magni í lokuðu rými og byggist á því að gasið rekur í burtu súrefnið úr loftinu og menn verða fyrir súrefnisskorti. Kolmónoxíð er hins vegar litlaus og lyktarlaus lofttegund sem myndast við bruna, binst blóðfrumum líkamans og kemur í veg fyrir að nægjanlegt súrefni berist til líffæra. Báðar þessar eitranir geta valdið dauða.

Kolmónoxíð er þó mun líklegra til að valda alvarlegum eitrunum þar sem mun minna þarf af því en gasinu og erfiðara er að greina hvort það er til staðar. Kolmónoxíð myndast við allan bruna en ef súrefnisflæði er nægjanlegt verður styrkur þess ekki það mikill að skaði hljótist af.

 



Þannig á að forðast kolmónoxíðeitrun:

Algengast er að fólk verði fyrir kolmónoxíð eitrun þegar verið er að nota tæki innan dyra sem brenna gasi eða olíu. Gæta þarf að því að loftræsting sé í lagi við notkun á gashiturum, olíuhiturum, arinofnum, gaseldavélum, gasgrillum, kolagrillum o.s.frv. Gasgrill og kolagrill má að sjálfsögðu aldrei nota í lokuðu rými og gæta þarf þess að tæki sem ætluð eru til notkunar innan dyra séu rétt tengd og sett upp þannig að loftræsting eða útblástur sé tryggður.
Einnig er rétt að minna á að láta aldrei bíla, mótorhjól, báta eða önnur farartæki í gang innan dyra.

Guðborg Auður Guðjónsdóttir
forstöðumaður eitrunarmiðstöðvar
Landspítala