Hjúkrunarfræðingar

Hjúkrunarfræðingar á geðsviði starfa samkvæmt stefnu og markmiðum geðsviðs og Landspítala Starf hjúkrunarfræðinga á geðsviði er mjög víðfeðmt og viðfangsefni fjölbreytt.

Hjúkrunarfræðingar vinna á öllum legudeildum geðsviðs og sinna þar sólarhringsþjónustu. Einnig starfa þeir á bráðaþjónustu, dag- og göngudeildum og út í samfélaginu. Hjúkrunarfræðingar leggja áherslu á að veita þjónustu sem eykur lífsgæði og styrkir sjúklinga til sjálfsbjargar. Leitast er við að horfa á einstakling út frá heildrænu sjónarhorni við mat og gerð meðferðaráætlana. Fjölskylduhjúkrun er því mikilvægur þáttur í þjónustu hjúkrunar á geðsviði.

Hjúkrunarfræðingar á geðsviði taka þátt í teymisvinnu heilbrigðisstétta. Teymi eru samsett eftir þörfum og aðstæðum hverju sinni. Í teymunum er fagfólk sem býr yfir fjölþættri þekkingu sem nýtist vel við greiningu, meðferð og endurhæfingu.

Hjúkrunarfræðingar leggja áherslu á að tengja þjónustu við aðrar stofnanir sem koma að þjónustu við sjúklinga.

Kennsla og leiðbeiningar til nemenda er veigamikill hluti af starfi hjúkrunarfræðinga á geðsviði, auk þess sem hjúkrunarfræðingar leiðbeina ófaglærðu fólki sem vinnur á geðdeildunum. Hjúkrunarfræði er kennd við Háskóla Íslands Einnig er hjúkrunarfræði kennd við Háskólann á Akureyri. Hjúkrunarfræðingar á geðsviði legggja mikla áherslu á lærdóm sem leiðir til starfsþróunar og að veita þjónustu sem er í sífelldri framþróun.