Félagsráðgjafar

Félagsráðgjöf er nútímafag. Hún þróaðist sem sérhæfð starfs- og fræðigrein, sprottin úr jarðvegi þjóðfélagsbreytinga 19. aldar, þar sem mannúð og félagslegt réttlæti er haft að leiðarljósi. Félagsráðgjöf er byggð á hugmyndafræði félagsvísinda um þróun og breytingar hjá einstaklingum og samfélagi. Grundvöllur félagsráðgjafar eru mannréttindi og félagslegt réttlæti með áherslu á sérstöðu hvers einstaklings og trú á getu hans til að nýta hæfileika sína til fullnustu.

Með nýju skipulagi þann 1.júní 2009 hefur þjónusta félagsráðgjafa við allar deildir sjúkrahússins færst undir Geðsvið. Á Landspítala starfa um 50 félagsráðgjafar og veita þeir þjónustu á öllum klínískum sviðum. Félagsráðgjafar starfa í samræmi við stefnu Landspítala sem er að veita þjónustu til einstaklinga samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007 til verndar andlegu, líkamlegu og félagslegu heilbrigði og veita stuðning og ráðgjöf til aðstandenda.

Félagsráðgjafar starfa einnig í samræmi við lög um félagsráðgjöf nr. 95/1990 og önnur þau lög sem starfssviðinu tilheyra. Unnið er út frá kenningum um mannlega hegðun og félagsleg kerfi. Klínísk vinna félagsráðgjafa á sjúkrahúsi felst fyrst og fremst í því að efla persónulega styrkleika einstaklings með sérhæfðri meðferðarvinnu í einstaklings- fjölskyldu- eða hópmeðferð. Lögð er áhersla á að efla sjálfsstyrk og tilfinningatengsl. Aðstæður eru kannaðar eftir þörfum, samfélagslegra úrlausna leitað og aðstoð veitt við umsóknir um félagsleg réttindi og er það liður í að framfylgja endurhæfingaráætlun og bæta meðferðarheldni. Handleiðsla, kennsla og rannsóknir er einnig hlutverk félagsráðgjafa á Landspítala.