Leit
Loka

Hagnýtar upplýsingar

Allir starfsmenn Landspítala og nemar í heilbrigðisvísindum sem hafa aðgang að sjúkraskránni undirrita trúnaðar- og þagnarskyldu.

Heilbrigðisstarfsmaður sem veitir meðferð og færir upplýsingar í sjúkraskrá ber ábyrgð á sjúkraskrárfærslum sínum.

Framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala skipar eftirlitsnefnd um rafræna sjúkraskrá.  

Verkefni nefndarinnar er, samkvæmt erindisbréfi, að gera reglubundnar athuganir á því hvort starfsmenn sem opna rafræna sjúkraskrá eigi þangað eðlilegt erindi vegna meðferðar sjúklings.

Það gerir nefndin með því að:

 • Gera úttektir á sjúkraskrám sem valdar eru af handahófi
 • Gera úttektir á uppflettingum starfsmanna af handahófi
 • Sinna upplýsingaöflun um aðgengi að einstökum sjúkraskrám samkvæmt ábendingum framkvæmdastjóra lækninga
 • Hafa frumkvæði að því að skoða opnun sjúkraskráa valdra einstaklinga

Þegar leitað er eftir meðferð á Landspítala eru færðar í sjúkraskrá upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna meðferðarinnar.

Samkvæmt lögum um sjúkraskrár nr. 55/2009 átt þú rétt á að fá aðgang að sjúkraskránni þinni. Einnig er í vissum tilvikum hægt að veita nánum aðstandanda aðgang að sjúkraskrá látins einstaklings þegar ríkar ástæður eru fyrir hendi eða miklir hagsmunir í húfi.

Þá þurfa ættingjar eða umboðsmaður látins sjúklings að rökstyðja beiðni um upplýsingar eða afrit úr sjúkraskrá svo hægt sé að meta hagsmuni þeirra (gr. 14, 15 og 15a - sjá hér fyrir neðan).

Óskir þú eftir að fá afrit af sjúkraskrá þinni, afrit af sjúkraskrá látins ættingja, yfirlit yfir hverjir hafa skoðað sjúkraskrána þína eða afrit af sjúkraskrá látins ættingja er hægt að senda rafrænan póst á sjukraskra@landspitali.is, eða fylla út form á vefnum:

Eða senda skriflega beiðni á: 

 • Miðstöð um sjúkraskrárritun
  Afhending sjúkraskrárgagna
  Landspítali
  Kópavogsgerði 2
  200 Kópavogi.

Í skriflegu beiðninni þarf að koma fram:

 • Nafn
 • Kennitala
 • Símanúmer
 • Heimilisfang
 • Tölvupóstfang  og hvaða gögnum úr sjúkraskránni óskað er eftir, svo sem um hvaða komu á spítalann er að ræða.

Afhending gagna og gjaldskrá

Í beiðni þar sem óskað er eftir að fá afrit af sjúkraskrá þarf að koma fram hvernig þú vilt fá gögnin afhent, þ.e. á minnislykli eða rafrænt í gegnum Island.is. Þú getur einnig komið á Miðstöð um sjúkraskrárritun og sótt gögnin sem þú óskaðir eftir gegn framvísun persónuskilríkja eða fengið þau send í ábyrgðarpósti á heimilisfang þitt.

Greiða þarf gjald fyrir minnislykil, sk. gjaldskrá Landspítala. Sjá einnig gjaldskrá Póstsins fyrir rekjanleg bréf innanlands og rekjanleg bréf til útlanda.

________________________________________________________________________________________________________________

„Safn sjúkraskrárupplýsinga um sjúkling sem unnar eru í tengslum við meðferð eða fengnar annars staðar frá vegna meðferðar hans á heilbrigðisstofnun eða starfsstofu heilbrigðisstarfsmanns.“ Lög um sjúkraskrár nr. 55/2009

14. gr. Aðgangur sjúklings að eigin sjúkraskrá. 

Sjúklingur eða umboðsmaður hans á rétt á aðgangi að eigin sjúkraskrá í heild eða að hluta og til að fá afhent afrit af henni ef þess er óskað.

Beiðni þar að lútandi skal beint til umsjónaraðila sjúkraskrárinnar. 

Sé um að ræða sjúkraskrárupplýsingar sem hafðar eru eftir öðrum en sjúklingi sjálfum eða heilbrigðisstarfsmönnum skal leita samþykkis þess sem upplýsingarnar gaf áður en þær eru sýndar honum.

Ef sá sem þannig hefur veitt upplýsingar um sjúkling er látinn eða horfinn eða neitar á óréttmætum grundvelli að veita samþykki sitt getur landlæknir ákveðið að sjúklingi eða umboðsmanni hans skuli veittur aðgangur að umræddum upplýsingum, í heild eða að hluta. 
[Sé talið að það þjóni ekki hagsmunum sjúklings að veita honum aðgang að sjúkraskrá í heild eða að hluta eða afhenda honum eða umboðsmanni hans afrit af henni skal umsjónaraðili sjúkraskrár leiðbeina um rétt til að bera synjun um aðgang undir embætti landlæknis skv. 15. gr. a. 

Sjúklingur á rétt á því að fá upplýsingar frá umsjónaraðila sjúkraskrár um það hverjir hafi aflað upplýsinga úr sjúkraskrá hans, m.a. með samtengingu sjúkraskrárkerfa, hvar og hvenær upplýsinga var aflað og í hvaða tilgangi. 
 L. 6/2014, 2. gr.

15. gr. Aðgangur að sjúkraskrá látins einstaklings. 

Mæli ríkar ástæður með því er umsjónaraðila sjúkraskrár heimilt að veita nánum aðstandanda látins einstaklings, svo sem maka, foreldri eða afkomanda, aðgang að sjúkraskrá hins látna og láta í té afrit hennar ef þess er óskað.

Við mat á því hvort veita skuli aðgang að sjúkraskrá látins einstaklings skal höfð hliðsjón af hagsmunum aðstandanda sem óskar eftir slíkum aðgangi og vilja hins látna, liggi fyrir upplýsingar um hann.

Synji umsjónaraðili sjúkraskrár um aðgang eða afrit af sjúkraskrá látins einstaklings skal umsjónaraðili sjúkraskrár leiðbeina um rétt til að bera synjun um aðgang undir embætti landlæknis skv. 15. gr. a.
 L. 6/2014, 3. gr.

15. gr. a. Réttur til að bera synjun um aðgang að sjúkraskrá undir embætti landlæknis. 

Heimilt er að bera synjun umsjónaraðila sjúkraskrár um aðgang sjúklings að eigin sjúkraskrá í heild eða að hluta eða synjun um að fá afhent afrit af henni undir embætti landlæknis.

Sama gildir um synjun umsjónaraðila sjúkraskrár um að veita nánum aðstandanda aðgang að sjúkraskrá látins einstaklings eða synjun um að fá afhent afrit af henni.

Um málsmeðferð fer samkvæmt stjórnsýslulögum.

Ákvarðanir embættisins um aðgang að sjúkraskrá eru endanlegar á stjórnsýslustigi og verður ekki skotið til ráðherra.

 

Telji sjúklingur eða umboðsmaður hans að sjúkraskrárupplýsingar séu rangar eða villandi getur hann gert athugasemd um það.

Óheimilt er samkvæmt lögum að eyða upplýsingum úr sjúkraskrá sjúklings nema með samþykki landlæknis.

Ef upplýsingar í sjúkraskrá eru beinlínis rangar, svo sem að ofnæmi sé rangt skráð eða röng lyf tilgreind, er hægt að leiðrétta það.

Sé sjúklingur almennt ósáttur við þær upplýsingar sem skráðar eru í sjúkraskrána þá er honum heimilt að senda inn skriflegar athugasemdir við textann og eru þær athugasemdir lagðar í sjúkraskrána. 

Teljir þú að upplýsingar í sjúkraskrá séu rangar eða villandi getur sjúklingur eða umboðsmaður hans, þú eða umboðsmaður þinn, sent tölvupóst á sjukraskra@landspitali.is ásamt rökstuðningi fyrir erindinu.

Sé erindið samþykkt kemur fram í svari Landspítala hvernig brugðist verður við. Hafni Landspítali erindinu er hægt að skjóta þeirri synjun til landlæknis. 

Sjá nánar um kvartanir til landlæknis 

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?