Leit
Loka

Hagnýtar upplýsingar

Þið eigið tíma hjá transteyminu fyrir börn og unglinga.

Transteymið er teymi á BUGL (barna- og unglingageðdeild) sem vinnur með börnum og unglingum að átján ára aldri, sem eru ekki sátt við það kyn sem þau fengu úthlutað við fæðingu.

Transteymið vinnur samkvæmt föstu verkferli til að fá bestu mögulegu mynd af barninu þínu og greina erfiðleika þess.

Mikilvægasta verkefnið er að varpa ljósi á erfiðleika barnsins í kringum kynvitund þess (hver upplifun á eigin kyni er).

Þegar greiningartímabilinu lýkur (eftir u.þ.b. 6 mánuði) kemur í ljós hvort barn þitt uppfyllir greiningarskilmerki um kynama (Gender dysphoria)og/eða hvort um annan vanda sé að ræða.

Sé þess óskað, eða talið nauðsynlegt, færð þú einnig ráðgjöf um hvernig best er að mæta barninu þar sem það er statt og bregðast við þeim vanda sem til staðar er.

Ennfremur getur þú fengið ráðgjöf um hugsanlega sálfræðilega meðferð eða leiðbeiningar um úrræði sem eru í boði í þinni heimabyggð.

Í fyrsta viðtali talar málastjórinn oftast nær við bæði foreldra og/eða forsjáraðila og við barnið. 
Málastjórinn útskýrir í stuttu máli hvað felst í greiningarferlinu og hvenær þú
mátt eiga von á niðurstöðum. Þá getur þú eða barnið þitt líka borið upp spurningar um greiningarferlið og/eða meðferðina. Ennfremur er farið yfir eftirfarandi atriði:
  • Staða og líðan barns við fyrstu komu
  • Upplýsingar um þroska og fyrri heilsufarssögu

Ef barnið þitt hefur verið í meðferð annars staðar munum við biðja þig um leyfi til að fá sendar upplýsingar um það. 

Fyrir fyrsta viðtal hefur þú móttekið spurningalista í pósti sem þú afhendir við komu. Í viðtalinu verður farið yfir fleiri spurningalista.

Til að fá heildarmynd af barninu þínu biðjum við þig um að fá kennara,
sem þekkir barnið þitt vel, til að fylla út spurningalista. 

Barn hegðar sér stundum öðruvísi í skóla heldur en heima við.

Greiningarferlið hefst í fyrsta viðtali.

Ef þörf er á frekari athugunum fáið þið afhenta greiningaráætlun um viðbótarathuganir.

Viðtöl við barnið

Barnið fer í nokkra viðtalstíma hjá meðferðaraðila.
Fjöldi viðtalstíma fer eftir aldri og persónulegum aðstæðum.

Viðtöl við foreldra og/eða forráðamenn

Á greiningartímabilinu eru einnig viðtöl við foreldra og/eða forráðamenn.

Niðurstöður athugunar

Í þessu viðtali er farið yfir niðurstöður með foreldrum og/eða forráðamönnum.

Stundum er gagnlegt að barnið sé með í þessu viðtali, eða hluta þess. Jafnframt er rætt um hugsanlega ráðgjöf eða meðferð á BUGL eða í nærumhverfi.

Hafir þú enn spurningar er þér velkomið að hafa samband við málastjóra þinn á göngudeild BUGL.

 

ÚTGEFANDI: LANDSPÍTALI JÚNÍ 2017

ÁBYRGÐ: GUÐRÚN BRYNDÍS GUÐMUNDSDÓTTIR, YFIRLÆKNIR BUGL

UMSJÓN: HUGRÚN HRÖNN KRISTJÁNSDÓTTIR, VERKEFNASTJÓRI BUGL

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?