Leit
Loka

Hagnýtar upplýsingar

Orsakir hægðatregðu geta verið fjölmargar. Hjá börnum eru þær yfirleitt tengdar mataræði og hegðun.

Ef barn hefur hins vegar ekki hægðir frá fyrsta degi, getur ekki leyst vind eða sýnir þroskafrávik bendir það til sjúklegs ástands sem þarf að skoða nánar. Börnum hættir til að fá hægðatregðu þegar breyting verður á venjum þeirra, t.d. þegar þau hætta á brjósti og fara yfir í þurrmjólk eða fasta fæðu. Einnig getur það gerst þegar börn hætta með bleiu og á að venja þau á klósett.

Breytingar í umhverfi eins og ferðalög, flutningur eða upphaf leikskóla- eða skólagöngu geta valdið því að börn haldi í sér hægðum. Við það verða hægðirnar stórar og harðar og þetta ferli viðheldur hægðatregðunni.

Rifur geta myndast við endaþarminn og valdið sársauka við hægðalosun og það getur líka orðið til þess að börnin reyna að halda í sér. Þennan vítahring þarf að rjúfa.

Óheppilegt mataræði, t.d. mikill mjólkurmatur, sælgæti og kex stuðlar að hægðatregðu. Þá geta veikindi og ákveðin lyf valdið hægðatregðu.

 • Barn hefur ekki hægðir í nokkra daga (sjaldnar en þrisvar í viku
 • Hægðir eru harðar og barnið á erfitt með að hafa hægðir
 • Hægðir eru litlar
 • Klíningur í buxum (framhjáhlaup)
 • Þaninn kviður
 • Minnkuð matarlyst, ógleði
 • Ferskt blóð utan á hægðum
 • Saga
 • Líkamsskoðun og mat læknis og/eða hjúkrunarfræðings
 • Stundum röntgenmyndataka

Meðferð fer eftir aldri barns og því hversu slæm hægðatregðan er.

Helstu úrræði eru:

 • Breyting á fæðu
 • Hegðunarmótun
 • Hægðalyf

Það sem gefist hefur best er aukin vatnsdrykkja, ávextir, ávaxtasafi og grænmeti. Sykurinn í ávöxtunum gerjast þegar hann blandast við eðlilega þarmaflóru og mýkir þannig hægðirnar.

Almennt virka trefjar hægðalosandi en þær eru eins og svampur, soga í sig vökva og tútna út.

Ef við drekkum ekki nægilega með trefjunum soga þær í sig þann vökva sem til staðar er í meltingarfærunum og hægðirnar verða því harðari.

Börn sem eru yngri en 5–7 ára ná oftast ekki að drekka nægilega mikið vatn til að trefjarnar virki sem skyldi og er því ekki lögð mikil áhersla á aukna trefjaneyslu hjá þeim.

FÆÐI FYRIR BÖRN YNGRI EN EINS ÁRS:

Sjaldgæft er að börn sem eru eingöngu á brjósti fái hægðatregðu. Ef slíkt gerist er gott að blanda maltextrakt í pela samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum.

 • Gefið sveskjumauk eða sveskjusafa út í grauta
 • Gefið barninu vatn á milli mála og forðist rísgraut
 • Börnum sem eru eldri en sex mánaða má gefa hafragraut og soðið grænmeti
 • Banani og gulrótarmauk getur valdið hægðatregðu

 

FÆÐI FYRIR BÖRN ELDRI EN EINS ÁRS:

 • Haldið vökva að barninu
 • Dragið úr mjólkurmat ef magnið sem barnið fær er meira en 2–3 glös á dag (skyr og jógúrt meðtalið)
 • Gefið barninu ávexti og grænmeti þrisvar á dag, til dæmis:
  • sveskjur
  • döðlur
  • fíkjur
  • rúsínur,
  • baunir
  • blómkál
  • spergilkál,
  • hvítkál
 • Einnig er mælt með ávaxtasafa
 • Forðist sælgæti, kex og „ruslfæði“
 • Epli, bananar og soðnar gulrætur geta valdið hægðatregðu

HEGÐUNARMÓTUN:

Mikilvægt er að hafa fastar klósettferðir daglega og á sama tíma, til dæmis eftir mat. Heilinn sendir ristlinum skilaboð um að tæma sig eftir mat og gott er að nýta sér það.

 • Hjálpið barninu að gefa sér góðan tíma á klósettinu og læra að slaka á
 • Látið barnið hafa eitthvað undir fótunum þegar það situr á klósettinu svo fæturnir lafi ekki, þá ná þau að slaka betur á
 • Segið barninu að fara strax á klósettið þegar það finnur fyrir þörf til að hafa hægðir 

Gott er að nota umbunaraðferð fyrir klósettferðir, velja aðferð sem hentar skapferli og aldri barnsins. Það má t.d. gefa barninu lítinn límmiða í verðlaunabók ef það fer á klósettið og stóran límmiða ef það hefur hægðir.

Einnig má segja barninu skemmtilega sögu á meðan eða gera eitthvað sem því finnst skemmtilegt á eftir.

 • Ef barnið er með sprungur við endaþarminn er hægt að bera vaselínkrem eða annað mýkjandi krem í kringum hann
 • Ef barn er hætt með bleiu en vill ekki setjast á klósettið er betra að setja aftur á það bleiu en að þvinga það á klósettið
 • Fyrir eldri börn með verki getur heitt bað hjálpað
 • Fyrir yngri börn er hægt að nudda magann með því að setja olíu á fingurna 

Hvetjið barnið til að hreyfa sig eða farið með það í göngutúra, sund, fótbolta, út að hjóla, skokka eða eitthvað sem því finnst gaman að gera Þetta kemur hreyfingu á ristillinn og eykur þar með líkurnar á að vandamálið lagist.

 • Fáðu þér skemmtilegan brúsa, fylltu hann af vatni og geymdu í ísskápnum
 • Settu appelsínu í mixarann og klaka út í. Þetta er bæði gott og frískandi
 • Ef heimaráð virka ekki þarf að leita til læknis sem skoðar barnið og ákveður hvort lyfjagjöf sé nauðsynleg.

Lyf sem hægt er að fá án lyfseðils eru til dæmis sorbitol og laktulosa. Þetta eru sykrur sem líkaminn nýtir ekki og virka líkt og ávaxtasafi.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?