Leit
Loka

 

 

Brjóstaskimun á Landspítala

Staðsetning: Brjóstamiðstöð – Skimun og greining er staðsett á Eiríksgötu 5

Þjónustutími: Opið fyrir brjóstaskimanir mánudaga til föstudaga kl. 8:00-16:00. 

Verðskrá: Verð fyrir brjóstaskimun er 5.072.- og 2.589.- fyrir aldraða og öryrkja. Brjóstaskimanir eru nú hluti af greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands. Sjá nánar gjaldskrá Landspítala

Boðanir og niðurstöður: Samhæfingarstöð krabbameinsskimana (SKS) sem er rekin af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins heldur utan um boðanir og bókanir í brjóstaskimanir og sendir einnig rafræn svarbréf þegar niðurstöður liggja fyrir. Tímapantanir eru í síma 513 6700 milli kl. 8:30 og 12:00 alla virka daga.

Brjóstaskimanir

Brjóstakrabbamein er algengasta krabbamein hjá konum hér á landi og að meðaltali greinast 210 konur árlega og er meðalaldur þeirra 62 ár. Skimun fyrir brjóstakrabbameini er árangursrík leið til að lækka dánartíðni sjúkdómsins en lýðgrunduð skimun fyrir brjóstakrabbameini hófst á Íslandi árið 1987. Skimun leiðir ekki til lækkunar á tíðni sjúkdómsins, en með því að greina hann snemma aukast líkur á því að sjúkdómurinn sé staðbundinn og hafi ekki náð að dreifa sér.

Almenn brjóstaskimun er fyrir konur sem ekki eru með einkenni frá brjóstum. Finnist fyrir einkennum frá brjóstum t.d. hnút eða fyrirferð í brjósti, inndreginni húð eða geirvörtu, blóðugri eða glærri útferð úr geirvörtu, verkjum eða eymslum í brjóstum, er ráðlagt að leita til læknis sem þá sendir tilvísun í frekari skoðun.

  • Skimunaraldur:
            Aldurshópurinn 40-69 ára fær boð í skimun á 2 ára fresti
            Aldurshópurinn 70-74 ára fær boð í skimun á 3 ára fresti
  • Konur í aukinni áhættu á brjóstakrabbameini: Konur með stökkbreytingu á BRCA1 og BRCA2 genum eru í aukinni hættu á að fá brjóstakrabbamein. Þær eru ekki í almennri skimun heldur fara í frekari skoðun og þéttara eftirlit hjá krabbameinslæknum Landspítala. Konur með sterka ættarsögu um krabbamein í brjóstum (móðir, systir, dóttir) eða aukinn þéttleika brjósta eru í almennri skimun, nema læknir ákveði annað.
  • Konur sem hafa farið í fyrirbyggjandi brjóstnám á báðum brjóstum: Ekki er þörf á skimun þar sem búið er að fjarlægja allan brjóstvef.
  • Konur sem fengið hafa brjóstakrabbamein: Eru undir eftirliti krabbameinslæknis í fimm ár eftir meðferð skv. verklagi Landspítala en geta farið aftur í almenna skimun eftir það. Þær konur sem ekki hafa náð skimunaraldri fimm árum eftir krabbameinsmeðferð eru áfram í árlegu eftirliti hjá krabbameinslækni, þar til þær hafa náð skimunaraldri. Konur sem hafa fengið brjóstakrabbamein fá boð um skimun til 79 ára aldurs.
  • Konur með púða í brjóstum: Geta farið í almenna skimun.

Skimanir geislafræðinga frá Landspítala vor 2023: Sjá skimanir á landsbygglinni á heimasíðu Brjóstaskimunar hér

Deildarstjóri: Kristjana G. Guðbergsdóttir
Yfirlæknir: Svanheiður Lóa Rafnsdóttir
hendur.jpg (415606 bytes)