Handhreinsun

Sýkingavarnir fela í sér allar þær aðgerðir sem miða að því að koma í veg fyrir dreifingu örvera sem geta valdið sýkingum hjá sjúklingum og starfsmönnum innan sjúkrahússins og þar með fækkun spítalasýkinga. Spítalasýking er sýking sem einstaklingur fær á sjúkrahúsi eða eftir útskrift ef hana má rekja til sjúkrahúsdvalarinnar.

Sýkingarvaldandi örverur er að finna víða, bæði á okkur sjálfum og í umhverfinu.

Snertismit er langalgengasta smitleiðin innan sjúkrahúsa og utan. Snertismit verður ýmist beint eða óbeint og gegna hendur manna þar veigamiklu hlutverki. Beint snertismit felur í sér að húð snertir sýkta eða sýklaða húð og örverur flytjast á milli hýsils (sá sem ber örveruna) og næms einstaklings. Örverurnar geta tekið sér tímabundna eða varanlega bólfestu á húð einstaklings. Óbeint snertismit felur í sér snertingu einstaklings við hlut sem hefur mengast við snertingu frá öðrum.

Sýkingavarnadeild LSH sér meðal annars um eftirlit og skráningu á ýmsum tegundum ónæmra örvera og fræðslu til starfsfólks og leitar að leiðum til að draga úr líkum á spítalasýkingum. Vinnubrögð allra starfsmanna sjúkrahússins eiga að miða að því að hindra dreifingu sýkla í umhverfi og milli sjúklinga. Hreinlæti er grundvallaratriði í sýkingavörnum og handhreinsun skipar þar mjög stóran sess.

Hvernig drögum við úr hættu á spítalasýkingu?

Sjúklingar:

  • Þvo og/eða spritta hendur oft.
  • Þvo hendur eftir salernisferðir og fyrir máltíðir.
  • Fara fram á að starfsfólk (allar stéttir) sé með hreinar hendur áður en það annast þig.
  • Ef þú ert með leggi eða línur, s.s. súrefni í nös, þvaglegg eða æðaleggi er mikilvægt að fá upplýsingar um hvernig hjá starfsmönnum um hvernig best er að umgangast slíkt.


Aðstandendur:
  • Þvo og/eða spritta hendur við komu á deild.
  • Ekki koma í heimsókn ef með kvef, hósta, niðurgang eða uppköst.