Þegar nýrnabilun er komin á lokastig, þarf að bregðast við því með skilunarmeðferð eða nýraígræðslu. Ígræðsla er fyrir flesta ákjósanlegur kostur sem oftast bætir heilsu og lífsgæði. Hægt er að fá nýra frá lifandi eða látnum einstakling. Það er betri valkostur að fá nýra frá lifandi einstaklingi og rannsóknir hafa sýnt að nýragjafir eru sáttir við að hafa gefið nýra, þeir eru heilsuhraustir eftir aðgerðina og væru tilbúnir að ganga í gegnum allt ferlið aftur ef þeir hefðu fleiri nýru að gefa.
Oft á það sér nokkurn aðdraganda að nýrun hætta að starfa. Á þessum undirbúningstíma mun nýrnasérfræðingurinn ræða um mögulegar meðferðir þ.e. skilun og ígræðslu. Nýraígræðslur eru æskilegri kostur en skilunarmeðferð, ef aðstæður og heilsa leyfa, sérstaklega þegar litið er til langs tíma.  Þegar ljóst er að nýrnasjúkdómur muni þróast yfir í nýrnabilun er æskilegt að velta fyrir sér mögulegum nýragjöfum. Við þessar aðstæður er sjálfsagt að leita til Hildigunnar Friðjónsdóttur og Selmu Marínósdóttur hjúkrunarfræðinga á ígræðslugöngudeild Landspítala til að fá frekari upplýsingar um nýraígræðslur (transplant@landspitali.is)

Hvernig er hægt að biðja um nýra frá lifandi gjafa?

Oft á það sér nokkurn aðdraganda að nýrun hætta að starfa. Á þessum undirbúningstíma mun nýrnasérfræðingurinn ræða um mögulegar meðferðir þ.e. skilun og ígræðslu. Nýraígræðslur eru æskilegri kostur en skilunarmeðferð, ef aðstæður og heilsa leyfa, sérstaklega þegar litið er til langs tíma. Þegar ljóst er að nýrnasjúkdómur muni þróast yfir í nýrnabilun er æskilegt að velta fyrir sér mögulegum nýragjöfum. Við þessar aðstæður er sjálfsagt að leita til hjúkrunarfræðings á ígræðslugöngudeild Landspítala til að fá frekari upplýsingar um nýraígræðslur.

Hvað ef enginn lifandi nýragjafi er í sjónmáli?

Þegar leitað er að nýragjafa er nánasta fjölskylda oft besti kosturinn, m.a. vegna skyldleika sem hefur í för með sér auknar líkur á sameiginlegum vefjaflokkum. Það er þó alls ekkert skilyrði. Æskilegt er að áhugasamir ættingjar og vinir hafi samband við hjúkrunarfræðing á ígræðslugöngudeild til að fá upplýsingar um nýragjöf og til að staðfesta blóðflokk og einnig eru gerðar aðrar lykilrannsóknir sem ákvarða hvort þeir komi til greina sem nýragjafar. Frekari rannsóknir eru síðan skipulagðar ef ekkert mælir gegn nýragjöf.

Ef ekki finnst nýragjafi með þessu móti er sjúklingurinn settur á biðlista fyrir nýraígræðslu frá látnum gjafa. Í dag eru slíkar aðgerðir gerðar samkvæmt samningi Landspítala/Sjúkratrygginga Íslands við Sahlgrenska-háskólasjúkrahúsið í Gautaborg, Svíþjóð.

 

  Áður en ákveðið er að einstaklingur sé hæfur til að gangast undir ígræðslu nýra, þarf hann að fara í umfangsmikið mat til að tryggja að ekki séu fyrir hendi aðrir alvarlegir sjúkdómar eða vandamál sem mæla gegn ígræðslu.

   

  Helstu undirbúningsrannsóknir eru:

  • Blóðrannsóknir 
  • Röntgenmyndataka af brjóstholi
  • Hjartalínurit (EKG), hjartaómskoðun og e.t.v. álagspróf
  • Tölvusneiðmyndun kviðar- og grindarhols, m.a. til að meta ástand slagæða sem slagæð ígrædda nýrans verður tengd við.
  • Mælingar á þvagflæði og rýmd þvagblöðru.

  Þegar ígræðslan er gerð á Íslandi er aðgerðardagur ákveðinn með fyrirvara. Undirbúningurinn er í ákveðnu ferli þar sem bæði gjafinn og þeginn þurfa að hitta skurðlæknana, svæfingarlækni, hjúkrunarfræðing, sjúkraþjálfara, fara í blóðprufur og fá fræðslu um aðgerðina og lífið eftir aðgerð. Þetta er gert nokkrum dögum fyrir aðgerð.                                                                                                                                                                                                   Ef að einstaklingur er enn á vinnumarkaði þegar komið er að ígræðslu þá  ætti að kanna veikindarétt hjá vinnuveitanda og stéttarfélagi.

  Væntanlegur nýraþegi á að leggja allt kapp á að halda sér í eins góðu líkamlegu formi og unnt er á meðan hann bíður eftir ígræðslunni. Þeir sem eru of þungir ættu að nýta tímann til að grennast. Ofþyngd getur komið í veg fyrir aðgerð. Sjúklingurinn þarf að hætta að reykja og hægt er að fá aðstoð við það. Reykleysi er algjör forsenda fyrir græðslu briss, hjarta og lungna. Næringarfræðingur veitir leiðbeiningar um mataræði og oft er æskilegt að fá aðstoð sjúkraþjálfara við að skipuleggja æfingaáætlun.

  Á meðan beðið er eftir nýra sækja stundum efasemdir og áhyggjur að sjúklingnum. Hjúkrunarfræðingar og læknar á skilunar- og ígræðslugöngudeild er ávalt tilbúið að fara yfir málin. Einnig getur verið gagnlegt að hafa samband við annan sjúkling með ígrætt líffæri og fá hann til að miðla af reynslu sinni og hægt er að leita til hjúkrunarfræðings á ígræðslugöngudeild og Félags nýrnasjúkra varðandi það.

  Að aðgerð lokinni fer nýraþeginn á vöknun, þar sem fylgst er með honum fyrstu klukkustundirnar.
  Það getur dregist í daga og jafnvel vikur að ígrædda nýrað fari að starfa án þess að það hafi áhrif á árangur ígræðslunnar. Þetta getur verið vegna þess að oft líður nokkur tími frá því að nýrað er fjarlægt úr líkama nýragjafans og þar til það er grætt í líkama. Nauðsynlegt getur því reynst að framkvæma blóðskilun fyrstu dagana eftir ígræðslu. Sé nýrað úr lifandi eða nýlátnum gjafa eru miklar líkur á að það fari strax að framleiða þvag.


  Nýraþeginn getur fundið fyrir óþægindum þegar hann vaknar eftir svæfinguna, t.d. þorsta og eymslum í hálsi eftir barkarennuna sem notast er við í svæfingunni. Þá getur hæsi og hósti einnig verið fylgifiskur eftir svæfinguna.
  Nauðsynlegt er að fylgjast nákvæmlega með þvagútskilnaði og fyrstu dagana getur þvagið verið blóðlitað. Nauðsynlegt er að láta hjúkrunarfólk vita af verkjum og að fá verkjalyf eftir þörfum. Það auðveldar hreyfingu og öndun og minnkar hættu á aukaverkunum vegna svæfingar og rúmlegu.

  Daginn eftir ígræðsluna fær nýraþeginn aðstoð við að setjast á rúmstokkinn og taka fáein skref. Sjúkraþjálfari kemur einnig og aðstoðar við öndunaræfingar til að fyrirbyggja uppsöfnun á slími í öndunarvegi. Það flýtir bata að komast sem fyrst á fætur.

  Alla jafna má byrja að drekka fljótlega eftir aðgerð, jafnvel samdægurs og borða daginn eftir. Nauðsynlegt er að nýraþeginn fylgist með að meltingin komist í lag og láti vita ef það gengur treglega. Matarlystin eykst oft eftir aðgerðina, en það leiðir stundum til óæskilegrar þyngdaraukningu þegar frá líður.

  Mikilvægt er að gæta hreinlætis vegna lyfjameðferðar sem bælir ónæmiskerfið og eykur hættuna á sýkingum, einkum fyrstu mánuði eftir aðgerðina. Fylgst er daglega með líkamsþyngd, hita, blóðþrýstingi, þvagútskilnaði og ýmsum blóðgildum á meðan dvalist er á sjúkrahúsinu.

  Nýraþegar útskrifast oftast u.þ.b. 4 dögum eftir ígræðslu nýra frá lifandi gjafa á Landspítala og í kjölfarið fylgir náið eftirlit á ígræðslugöngudeild spítalans a.m.k. tvisvar í viku. Þar hittir nýraþeginn nýrnalækni og hjúkrunarfræðing og gerðar eru blóð- og þvagrannsóknir. Áfram er fylgst með blóðþrýstingi og þyngd. Farið er reglulega yfir lyfjameðferðina og aukaverkanir lyfja og einnig er farið yfir ákveðnar lífstílsbreytingar sem eru nauðsynlegar vegna ónæmisbælds ástands. Ef saumar eru í skurðsári eru þeir fjarlægðir um 10 dögum eftir aðgerð.

  Ef nýraþegi er með kviðskilunarlegg er hann yfirleitt fjarlægður í ígræðsluaðgerðinni nýra frá lifandi gjafa. Þegar nýra kemur frá látnum gjafa er hann venjulega fjarlægður síðar, eða þegar starfsemi nýja nýrans er komin í fullnægjandi horf. Ef nýraþeginn er með fistil fyrir blóðskilun hættir hann stundum að virka sjálfkrafa eftir ígræðslu. Í sumum tilvikum er fistli lokað með skurðaðgerð.

  Líkaminn skynjar ígrædda nýrað sem aðskotahlut og því ræðst ónæmiskerfið kröftuglega gegn því. Höfnun á ígræddu líffæri má hindra eða bæla með lyfjum. Án slíkrar lyfjameðferðar myndi nýrað eyðileggjast á nokkrum vikum. Þrátt fyrir ónæmisbælandi lyfjameðferð fá um 20-30% sjúklinga bráða höfnun sem kemur yfirleitt upp á fyrstu þremur mánuðunum eftir ígræðslu. Oftast er höfnun einkennalaus og sést aðeins sem hækkun kreatíns í blóði. Snögg hækkun kreatíns í blóði getur verið merki höfnunar, en getur líka stafað af öðrum orsökum t.d. ófullnægjandi vökvamagni í líkamanum. Ef starfsemi nýrans skerðist skyndilega eru frekari rannsóknir gerðar t.d. ómskoðun, en oft þarf einnig að taka nálarsýni (sýni með sérstakri nál) frá ígrædda nýranu til að staðfesta greiningu höfnunar.

  Eftirfarandi einkenni geta verið einkenni höfnunar:
  • Hækkun á kreatíni í blóði
  • Hiti og almennur slappleiki
  • Eymsli yfir ígrædda nýranu
  • Minni þvagmyndun 
  • Óeðlileg þyngdaraukning á mjög skömmum tíma
  • Bjúgur á fótum eða annars staðar á líkamanum
  Mikilvægt er að hefja meðferð við höfnun sem fyrst því að þá er árangurinn bestur. Því eru sjúklingar hvattir að hafa strax samband við nýrnalækni ef ofangreind einkenni koma fram. Læknir metur þá hvort frekari rannsókna er þörf. Fyrstu mánuðina er eftirlit með ígræðslusjúklingum þétt og þá eru jafnan gerðar blóðrannsóknir. Með því móti er hægt að fylgjast náið með kreatíni og þéttni ónæmisbælandi lyfjanna í blóðinu og grípa fljótt inn í, vakni grunur um höfnun.

  Höfnun hefur verið skipt í tvo aðalflokka:

  • Bráð höfnun einkennist af skyndilegri hækkun kreatíns í blóði og er hún algengust fyrstu þrjá mánuðina eftir ígræðslu þótt hún geti líka orðið síðar. Meðferð á höfnun fer fram á sjúkrahúsi og eru þá gefin lyf í æð í nokkra daga. Oftast tekst að koma í veg fyrir varanlegar skemmdir í nýranu á þennan hátt.
  • Langvinn höfnun einkennist af hægfara hnignun á starfsemi ígrædda nýrans og oft fylgir aukinn prótínútskilnaður í þvagi og hækkandi blóðþrýstingur. Þessi tegund höfnunar kemur yfirleitt fram seinna, en getur komið fram allt frá nokkrum mánuðum til nokkrum árum eftir ígræðslu. Enn er ekki völ á virkri meðferð gegn langvinnri höfnun, en ígrætt nýra getur starfað ágætlega í marga mánuði og jafnvel ár áður en þörf er á skilunarmeðferð eða hugsanlega endurígræðslu.
  Í ígræðsluaðgerðinni eru gefin öflug ónæmisbælandi lyf. Þessi lyf eru mótefni sem lama lykilfrumur í ónæmiskerfi þegans. Á meðan ígrædda nýrað er í líkamanum verður að taka ónæmisbælandi lyf, jafnvel þó að nýrað sé hætt að starfa, því ella annars er hætt við myndun mótefna gegn mikilvægum vefjaflokkum. Ef mótefni myndast getur það dregið úr líkum á að ný ígræðsla heppnist.

  Grundvallaratriði:

  • Taka skal lyfin nákvæmlega eins og fyrir er lagt!
  • Hafa skal strax samband við nýrnalækni ef rof verður á reglubundinni inntöku lyfja eða ef breyting verður á líðan. 

  Helstu ónæmisbælandi lyf sem nýraþegar taka til frambúðar:

  • Takrólímus (Prograf, Advagraf) hefur sértæka ónæmisbælandi verkun og er meginlyf flestra nýraþega í dag. Kemur í hylkjum til inntöku.
  • Cýklósporín (Sandimmun Neoral) verkar á svipaðan máta og takrólímus. Lyfið var áður aðal ónæmisbælandi lyf flestra nýraþega en dregið hefur úr notkun þess eftir tilkomu takrólímus. Kemur í hylkjum til inntöku.
  • Mýkófenólat (Cellcept, Myfenax, Myfortic) er annað helsta ónæmisbælandi lyf nýraþega auk takrólímus/cýklósporín. Kemur í töflum eða hylkjum til inntöku. Azaþíóprín (Imurel) var áður mikilvægur hluti ónæmisbælandi lyfjameðferðar nýraþega en notkun þess hefur minnkað mikið eftir að mýkófenólat kom til sögunnar. Lyfið er gefið í töfluformi.
  • Prednisólón er barksteri, en barksterar eru lyf með breiða bólguhemjandi og ónæmisbælandi verkun. Prednisólon kemur í töfluformi og er fyrstu dagana gefið í talsvert stórum skammti en síðan er skjótt dregið úr lyfjaskammtinum. Undanfarin ár hefur að verulegu leyti verið horfið frá notkun stera í tengslum við ígræðsluaðgerðir.
  Stöðugt er verið að þróa ný lyf við höfnun og prófa þau á rannsóknastofum og á ígræðslustofnunum.

  Aukaverkanir

  Ónæmisbælandi lyf eru forsenda þess að nýraþeginn haldi ígrædda nýranu. En þessum mikilvirku lyfjum fylgja óhjákvæmilega aukaverkanir. Misjafnt er að hve miklu leyti nýraþegar verða fyrir barðinu á þeim eða hvaða aukaverkunum einstaklingar finna fyrir. Stundum eru aukaverkanir svo íþyngjandi að nauðsynlegt er að breyta lyfjum eða lyfjaskömmtum. Því stærri sem lyfjaskammtarnir eru þeim mun líklegri eru aukaverkanir.

  Eftir því sem bæling ónæmiskerfisins er meiri aukast líkur á sýkingum. Þar á meðal eru veirusýkingar, en ýmsar veirur sem hafa bólfestu í líkamanum geta tekið að fjölga sér við þessar aðstæður.
  • Algengt er að herpes simplex-veiran geri vart við sig með frunsum kringum munnvik eða á kynfærum. Völ er á lyfjameðferð gegn slíkum sýkingum.
  • Hlaupabóluveiran getur brotist fram í formi ristils á fullorðinsárum. Völ er á lyfjameðferð. 
  • Stórfrumuveira (cytomegalovirus, CMV) er tíður sýkingavaldur hjá líffæraþegum og eru hiti og slappleiki helstu einkennin. Gjarnan er gefin fyrirbyggjandi meðferð gegn CMV í 3-6 mánuði eftir ígræðsluna og er yfirleitt notast við lyfið valgancíklóvír (Valcyte). Þá er hægt að uppræta CMV-sýkingu með lyfjagjöf í æð.
  • Aukin hætta er á ýmsum bakteríusýkingum og því er notuð fyrirbyggjandi sýklalyfjameðferð með lyfinu trímetóprím-súlfametoxazól (Trimezol, Primazol) í allt að 6 mánuði eftir ígræðslu.
  • Sveppasýkingar geta gert vart við sig víða í líkamanum, einkum í munni og kynfærum kvenna. Notuð eru ýmis lyf gegn sveppasýkingum.
  • Auknar líkur eru á að æxli myndist, einkum í húð. Æxlin, sem eru í flestum tilvikum góðkynja, sjást fyrst sem smávörtur, einkum á handarbaki. Þessi húðæxli er yfirleitt auðvelt að fjarlægja og hafa þau venjulega ekki frekari eftirköst. Komi fram breytingar á húð skal leita læknis. Forðast ber sólarlampa og sólböð. Nauðsynlegt er að nota sterka sólarvörn til að verja húðina. Mælt er með árlegu eftirliti hjá húðsjúkdómalækni.

  Takrólímus og cýklósporín koma í veg fyrir höfnun á ígrædda nýranu en geta jafnframt valdið skerðingu á starfsemi þess. Það kemur fram sem hækkun kreatíns, en það lækkar yfirleitt aftur ef dregið er úr lyfjaskammtinum.  

  Aðrar aukaverkanir takrólímus og cýklósporíns er einkum:

  • Hækkun blóðþrýstings.
  • Sykursýki og hækkun blóðfitu.
  • Eituráhrif á taugakerfi. Fyrst eftir ígræðsluna, á meðan lyfjaskammtar eru stórir, getur nýraþeginn fundið fyrir skjálfta í höndunum. Þá finna sumir fyrir brunatilfinningu í höndum eða fótum eða höfuðverk. Cýklósporín veldur auknum hárvexti, einkum í andliti og á handleggjum og oft ofvexti tannholds. Mikilvægt er að þeir sem taka lyfið leggi sig fram við umhirðu tanna og tannholds og séu í reglubundnu eftirliti hjá tannlækni.

  Helstu aukaverkanir mýkófenólats eru ógleði, uppþemba og niðurgangur. Einnig getur lyfið valdið bælingu á beinmerg sem getur leitt til blóðleysis og fækkunar hvítra blóðkorna og blóðflagna.

  Prednisólon getur haft margvíslegar aukaverkanir. Mikið hefur dregið úr aukaverkunum barkstera þar sem skammtar hafa verið stórlega minnkaðir. Langtímanotkun prednisólons fylgir aukin hætta á beinþynningu og því er jafnan gefin fyrirbyggjandi lyfjameðferð samfara notkun barkstera. Ský á augasteinum eru einnig hvimleið aukaverkun stera.

  Þó að aukaverkanir komi fram má nýraþeginn alls ekki breyta lyfjaskammti nema í samráði við nýrnalækni sem er ætíð reiðubúinn að veita upplýsingar þar að lútandi. 

   

  Önnur lyf

  Mikilvægt er að hafa í huga að inntaka ýmissa lyfja getur haft áhrif á efnaskipti ónæmisbælandi lyfja og þar af leiðandi styrk þeirra í blóði. Því ættu nýraþegar ekki að hefja töku nýrra lyfja nema að höfðu samráði við nýrnalækni. Sama á við um náttúrulyf og ýmsar fæðutegundir. Þannig veldur greipaldin og skyldir ávextir hækkun á styrk takrólímus og cýklósporíns í blóði og ættu nýraþegar því ekki að neyta þess. Bólgueyðandi lyf og gigtarlyf ætti aldrei að taka nema í samráði við nýrnalækni.

  Reglulegt eftirlit og rannsóknir eftir ígræðsluaðgerðina eru jafnmikilvægir þættir og ígræðslan sjálf. Nýraþegi mætir á ígræðslugöngudeild, fer í rannsóknir og hittir lækni, hjúkrunarfræðing, félagsráðgjafa eftir þörfum hvers og eins. Fylgst er náið með blóðþrýstingi, þyngd og andlegri og líkamlegri líðan.

  Í blóðprufum er meðal annars reglulega fylgst með:

  • Kreatín – hjá nýraþegum eru gildi yfirleitt nokkru hærri en eðlilegt gildi sem er 6-90 µmól/l hjá konum og 70-100 µmól/l hjá körlum.
  • Þéttni takrólímus /cýklósporíns í blóði er mæld og skal taka blóðsýni rétt fyrir reglubundna töku lyfsins. Stefnt er að hærri blóðþéttni fyrstu mánuðina eftir ígræðslu en þegar legra er um liðið. Langtímaþéttni er oftast á bilinu 4-7 ng/l. Ákvörðun skammta lyfsins ræðst af niðurstöðu mælingar á blóðþéttni. Of stór skammtur getur haft neikvæð áhrif á starfsemi ígrædda nýrans og of lítill skammtur eykur líkur á höfnun.
  • Hvít blóðkorn. Eðlilegt gildi er á bilinu 4 - 10 x109/l. Ef fækkun verður á hvítum blóðkornum í blóðinu getur þurft að draga úr skammti mýkófenólats og annarra lyfja sem geta valdið því.
  • Blóðrauði (hemóglóbín) þ.e. svokallað blóðgildi er oft of lágt fyrir ígræðsluna, en hækkar venjulega eftir heppnaða nýraígræðslu. Það getur tekið nokkra mánuði. Eðlilegt gildi fyrir karla er 120-165 g/l og 118-152 g/l fyrir konur.

  Ef ígrædda nýrað starfar ekki sem skyldi getur þurft að gera:

  • Ómun (ómskoðun) er gerð ef ástæða þykir. Sú rannsókn getur komið að gagni við greiningu á flæðishindrun í þvagvegi og höfnun.

  • Nýrasýni er vefjasýni, tekið með nál úr nýranu. Sýnatökunni er stýrt með ómun. Þar sem ígrædda nýrað liggur mjög grunnt undir húð er þetta auðveldari aðgerð og sársaukaminni en sýnataka úr eigin nýra. Niðurstaða úr vefjarannsókninni liggur yfirleitt fyrir strax næsta dag.

  Eftir vel heppnaða ígræðslu getur nýraþeginn snúið aftur til sinna venjulegra starfa, bæði hvað varðar einkalíf og tómstundir.

  Mataræði

  Eftir nýraígræðslu getur nýraþeginn oftast borðað og drukkið það sem hann langar í. Breyting verður oft á matarlyst og ýmsar takmarkanir á matarræði sem gilt hafa um lengri eða skemmri tíma vegna nýrnabilunar eiga ekki lengur við t.d. mega nýraþegar borða eðlilegt magn prótína. Mikilvægt er að borða vel samsettan mat með áherslu á takmörkun sykur- og fituneyslu því tíðni sykursýki, blóðfituhækkunar og hjarta- og æðasjúkdóma er aukin meðal nýraþega. Mataræði verður að taka mið af þessari hættu. Áfram er nauðsynlegt að takmarka saltneyslu því tilhneiging er til söfnunar salts í líkamanum sem leitt getur til bjúgs og hækkunar blóðþrýstings. Sterar auka matarlyst og geta því aukið hættu á þyngdaraukningu . Nýraþeginn þarf að fylgjast vel með þyngdinni, en erfitt getur verið að losna við óæskileg aukakíló. Ráðgjöf hjá næringarráðgjafa getur verið hjálpleg eftir ígræðsluna.

  Hreyfing

  Fara verður varlega fyrst eftir aðgerðina og forðast að lyfta þungum hlutum. Gagnlegt er að byrja á stuttum gönguferðum og auka síðan smám saman áreynslu eftir því sem geta leyfir.

  Nýraþegar geta stundað flestar íþróttir, einnig boltaíþróttir. Þó er ráðlegt að forðast áhættuíþróttir, sem geta haft í för með sér högg á líkamann, því hugsanlegt er að nýrað geti skaddast verði það fyrir þungu höggi.

  Við útivist er nauðsynlegt að nota ætíð sólarvörn með mikilli vörn (stuðul 30) en ónæmisbælandi lyfin valda því að hætta á húðkrabbameini er aukin. Sumir nýraþegar geta þurft á sjúkraþjálfun að halda eftir langvarandi erfið veikindi. Viðkomandi nýrnalæknir sækir um greiðsluhlutdeild Sjúkratrygginga Íslands fyrir hönd sjúklings.

  Reykingar og áfengi

  Nýraþegi ætti ekki að reykja vegna aukinnar hættu á hjarta- og æðasjúkdómum. Dánartíðni nýraþega vegna hjarta- og æðasjúkdóma er talsvert hækkuð og sér í lagi hjá þeim sem reykja. Áfengi verður að forðast algjörlega í upphafi en síðar má neyta áfengis í hófi ef lifrarstarfsemin er eðlileg.

  Kynlíf

  Kynlíf skaðar ekki nýrað, það er vel verndað þar sem það er staðsett og verður ekki fyrir hnjaski við samfarir. Eins og eftir aðrar stórar aðgerðir er ráðlegt að bíða með kynlíf í 6-8 vikur. Einstaklingar sem ekki eru í föstu sambandi ættu alltaf að nota smokk við samfarir til að koma i veg fyrir kynsjúkdóma.

  Sumir karlmenn fá stinningarvanda og bæði kyn geta fundið fyrir minnkandi áhuga á að stunda kynlíf þegar nýrnastarfsemin er léleg. Eftir vel heppnaða ígræðslu kemur kyngetan venjulega aftur, en það getur tekið tíma. Sum lyf gegn háum blóðþrýstingi geta einnig haft áhrif á kyngetu. Best er að tala við nýrnalækni eða hjúkrunarfræðing á ígræðslugöngudeildinni og einnig er völ á kynlífsráðgjöf hjá sérfræðingi ef þess er óskað.

  Barneignir

  Mörg dæmi eru um að konur hafi orðið þungaðar eftir nýraígræðslu. Ef blæðingar hafa hætt meðan á skilunarmeðferð stóð, hefjast þær venjulega aftur eftir nokkra mánuði. Egglos getur þó orðið áður og þungun er möguleg þó að blæðingar séu ekki orðnar eðlilegar. Því þarf að nota getnaðarvörn við samfarir. Óski kona með ígrætt nýra eftir að eignast barn ætti hún þó að bíða í a.m.k. eitt ár eftir ígræðsluna og hafa ræða það við lækni sinn áður en hún reynir að verða þunguð.

  Aftur til vinnu

  Eftir vel heppnaða ígræðslu má yfirleitt hefja vinnu á ný. Það fer eftir eðli starfsins og líðan hvort einstaklingur geti haldið áfram í fyrra starfi og hvort þeir sem hafa verið óvinnufærir geti farið aftur út á vinnumarkaðinn. Misjafnt er hvort einstaklingar hafa verið á vinnumarkaði eða óvinnufærir vegna langvarandi veikinda fyrir ígræðsluna. Gott er að byrja rólega, t.d. í hálfu starfi og auka síðan vinnuna eftir því sem þrek og þol leyfa. Hvenær þetta telst heppilegt ræðst af því hvers konar vinna er stunduð og hvernig líðan nýraþegans er, en það flýtir fyrir bata að hefja aftur eðlilegt líf.

  Tryggingar og fjármál

  Hugsanlega þarf að endurmeta örorku eða sjúkrastyrk vegna bættrar heilsu eftir vel heppnaða ígræðslu. Anna Dóra Sigurðardóttir félagsráðgjafi ígræðslugöngudeildar Landspítala veitir ráðgjöf varðandi tryggingar og fjármál.

  Utanlandsferðir

  Ef ígrædda nýrað starfar vel og heilsan er komin í lag eftir ígræðsluna getur nýraþegi ferðast til útlanda. Ekki er þó mælt með ferðalögum erlendis fyrr en uþb einu ári eftir ígræðsluna. Ekki má gleyma að hafa nægar birgðir af lyfjum meðferðis þar sem erfitt það getur verið mjög erfitt að nálgast þau erlendis. Alltaf skal ferðast með lyfin í handfarangri.

  Bólusetningar

  Bólusetningu má aðeins gera í samráði við nýrnalækni og upplýsa þarf um ígrædda nýrað áður en bólusetning er framkvæmd. Nauðsynlegt er að nýraþegar fái bólusetningu vegna inflúensu árlega og vegna lungnabólgu á 5 ára fresti.

  Tengslahópur nýrnasjúkra og aðstandenda þeirra er starfræktur innan Félags nýrnasjúkra  þar sem hægt er að komast í samband við einstaklinga sem hafa gefið og þegið nýru.

  Þegar nýraígræðslur eru gerðar erlendis er oftast er um að ræða ígræðslur frá látnum gjafa. Í einstaka tilfellum er þó um að ræða nýraígræðslur þar sem nýra kemur frá lifandi gjafa og fara þá eðlilega bæði gjafi og þegi saman erlendis. Þetta er í öllum tilfellum vegna læknisfræðilegra ástæðna.

  Þeir sem eru á biðlista eftir að ígræðslu nýra þurfa að vera reiðubúnir að fara utan fyrirvaralaust. Til þeirra verður að nást fljótt þegar nýra stendur til boða. Upplýsa þarf ígræðslugöngudeild Landspítala (linkur á uppl. um deildina) um dvalarstað ef farið er tímabundið að heiman og deildin þarf að hafa upplýsingar um símanúmer og farsímanúmer. Það getur haft mikla spennu í för með sér þegar símtal kemur um að nýra standi til boða. Það er gott að vera búin(n) að huga að nokkrum atriðum svo sem að:
  • útbúa lista yfir það sem þarf að taka með af fötum og snyrtivörum
  • taka með öll lyf
  • hafa með sér vegabréf eða önnur gild persónuskilríki (börn þurfa vegabréf)
  • hafa með kredit- eða debetkort

  Nýrnalæknir hringir í sjúkling og tilkynnir honum að nýra standi til boða. Nýrnalæknirinn gefur upplýsingar um hvar og hvenær sjúklingur á að mæta í flugið og spyr nánar um heilsu sjúklingsins áður en boðinu er tekið. Nauðsynlegt er að láta vita ef viðkomandi er lasin(n), vegna þess að aðgerð er ekki gerð ef viðkomandi er veikur þegar út er komið.

  Kostnaður vegna ferða, húsnæðis og uppihalds erlendis

  Ferðakostnaður

  Þegar Sjúkratryggingar Íslands  hafa  samþykkt nýraígræðslu greiðir stofnunin kostnað vegna ígræðsluaðgerðarinnar á erlendu sjúkrahúsi auk ferðakostnaðar og dagpeninga samkvæmt reglum stofnunarinnar. Einnig er greitt fyrir fylgdarmann eftir reglum SÍ.
  Í stöku tilvikum er ígræðsla nýra frá lifandi gjafa framkvæmd erlendis. SÍ greiðir þá samkvæmt sérstakri reglugerð fyrir kostnað vegna ígræðsluaðgerðarinnar og fyrir ferðakostnað gjafans og þegans. Greiddur er ferðakostnaður fyrir fylgdarmann/menn sem SÍ hefur samþykkt.  

  Nánari upplýsingar fást hjá Sjúkratryggingum Íslands

  Dagpeningar

  Sjúkratryggingar Íslands greiða dagpeninga vegna uppihalds nýraþega og nýragjafa þá daga sem þeir eru ekki inniliggjandi á sjúkrahúsi. Fylgdarmaður fær greidda dagpeninga fyrir þann tíma sem hann dvelur erlendis. Dagpeningar eru greiddir eftir á og sótt er um þá þegar heim er komið. Sjúkratryggingar Íslands gefa jafnframt út greiðsluábyrgð vegna flugfarseðils hjá Icelandair og greiðsluábyrgð til sjúkrahússins auk þess sem dagpeningar eru afgreiddir hjá þeim.  Hægt er að hafa samband við Önnu Dóru Sigurðardóttur félagsráðgjafa á Landspítala til að fá frekari upplýsingar annadora@landspitali.is .

  Sjúkrahúskostnaður

  SÍ greiðir kostnað sem tengist samþykktri meðferð erlendis fyrir nýraþega og einnig ef um er að ræða lifandi nýragjafa.

  Sjúkrahótel 

  Í Gautaborg útvegar Sahlgrenska-háskólasjúkrahúsið húsnæði fyrir aðstandendur og fyrir nýraþega og nýragjafa ef þeir þurfa á að halda þegar þeir útskrifast af sjúkrahúsinu eftir aðgerð. Frá þessu er gengið áður en farið er utan þegar um er að ræða nýraígræðslu frá lifandi gjafa, enda undirbúningstími þá allajafna nokkuð langur. Sjúkrahótel Sahlgrenska-háskólasjúkrahússins sendir Sjúkratryggingum Íslands reikninginn fyrir dvölinni.

  Ferðin út og dvölin í Gautaborg

  Yfirleitt er um að ræða sjúkraflug þegar nýra frá látnum gjafa býðst og þá er farið frá Reykjavíkurflugvelli. Fyrir þá sem búa utan höfuðborgarsvæðisins þarf að gera ferðaáætlun í samstarfi við ígræðslugöngudeildina. Í stöku tilvikum er hægt að notast við áætlunarflug, sérstaklega ef hægt er að velja beint flug á áfangastað. Þetta er breytilegt frá einum tíma til annars og væntanlegur þegi fær þessa upplýsingar þegar nýrnalæknirinn hringir.

  Við komuna á sjúkrahúsið þarf að koma mörgu í kring á skömmum tíma. Reikna verður með samtölum við marga aðila fyrir aðgerðina t.d. deildarlækni, svæfingalækni, skurðlækni, hjúkrunarfólk og ritara deildarinnar.

  Það getur komið fyrir að ekki reynist unnt að framkvæma ígræðsluaðgerðina þegar út er komið, vegna þess að líffærið sem átti að nota reynist ónothæft. Ef það gerist þá fer sjúklingurinn aftur heim og biðin heldur áfram. Slíkt er þó afar sjaldgæft þegar um er að ræða nýraígræðslur.

  Nýraþegar sem fá nýra frá látnum á Sahlgrenska-háskólasjúkrahúsinu í Gautaborg útskrifast 7-10 dögum eftir ígræðsluna. Eftir útskrift af sjúkrahúsinu fer nýraþeginn yfirleitt beint heim til Íslands með almennu farþegaflugi. Hann kemur síðan á ígræðslugöngudeildina fyrsta virka dag eftir heimkomuna. Síðan tekur við eftirlit með sama sniði og í tilviki þeirra sem fá nýra frá lifandi gjafa.

  Nánari upplýsingar um aðstöðuna á Sahlgrenskasjúkrahúsinu í Gautaborg má fá hjá ígræðslugöngudeild Landspítala. Einnig er hægt að hafa samband við Ágúst Einarsson fulltrúa Sjúkratrygginga Íslands í Gautaborg. Ágúst er einnig prestur Íslendinga í Svíþjóð (kirkjan@telia.com). Ágúst aðstoðar sjúklinga og aðstandendur þeirra meðan á dvölinni stendur eftir þörfum í hverju tilviki fyrir sig. Túlkaþjónusta stendur öllum til boða.

  Aðgerðin er gerð í svæfingu og tekur yfirleitt um 2-3 klst. Nýrað er jafnan sett neðst í kviðarhol hægra eða vinstra megin, utan lífhimnu og er tengt við mjaðmarblóðrás. Þvagleiðarinn er saumaður við þvagblöðruna. Hjá börnum er nýrað sett inn í kviðarholið.
  Eigin nýru sjúklingsins eru látin ósnert hafi þau ekki þegar verið fjarlægð af læknisfræðilegum ástæðum sem geta verið þrálátar sýkingar eða mikil fyrirferð (blöðrunýru).