Ígræðsla nýra er flókið fyrirbæri og getur gerbreytt lífi og lífsgæðum þess sem nýrað fær. Ótal spurningar vakna varðandi undirbúning, framkvæmd, meðferð og eftirlit að aðgerðinni lokinni og ekki síst um það hvernig nýraþeginn hagar lífi sínu svo að honum nýtist sem best hin dýrmæta gjöf. Ígræðsla líffæris er úrræði sem beitt er þegar önnur úrræði eru ekki til staðar til að bæta alvarlegan heilsubrest eða bjarga lífi. Heilbrigður einstaklingur sem er við góða heilsu getur gefið annað nýrað sitt, vegna þess að nýrun hafa mikla umframgetu og unnt er að lifa eðlilegu lífi með eitt nýra. Hægt er að gefa nýra fram að sjötugsaldri, ef heilsan er góð og nýrun starfa eðlilega. Hér á landi er algengast að ígrætt nýra fáist frá lifandi gjöfum og undanfarna tvo áratugi hafa íslenskir nýraþegar fengið nýra frá lifandi nýragjafa í 70% tilvika. Engu að síður er skortur á líffærum til ígræðslu helsta vandamálið sem glímt er við,  sérstaklega þegar um er að ræða að gefa líffæri við lífslok.
Margir hafa haldið því fram, að ef menn eru tilbúnir til að þiggja ígrætt líffæri þá eigi menn líka að vera reiðubúnir að gefa líffæri við lífslok.

 
Óhætt er að segja að það hafi reynst heillaspor fyrir Landspítala og íslenskt samfélag að hefja ígræðslur nýrna hér á landi. Þessi áfangi stórefldi ígræðslulækningar og hefur haft jákvæð áhrif á lækningastarfsemi stofnunarinnar í heild. Nýraígræðslur á Íslandi er samstarfsverkefni nýrnalækninga- og   þvagfæraskurðlækningaeininga Landspítala og Jóhanns Jónssonar ígræðsluskurðlæknis á Fairfax-sjúkrahúsinu í Virginíu í Bandaríkjunum. Hann gerir aðgerðirnar ásamt Eiríki Jónssyni yfirlækni þvagfæraskurðlækninga. Undirbúningi og langtímameðferð nýraþega er stjórnað af nýrnasérfræðingum í samvinnu við hjúkrunarfræðing á ígræðslugöngudeildinni. Eingöngu eru gerðar nýraígræðslur frá lifandi gjöfum á Landspítala, en ígræðslur frá látnum gjöfum eru gerðar erlendis.
Í tengslum við þessar ígræðslur var ígræðslugöngudeild spítalans efld, en í ígræðsluteymi spítalans eru nýrnalæknar, þvagfæraskurðlæknar, hjúkrunarfræðingur, félagsráðgjafi, sálfræðingur og sérhæfðir starfsmenn blóðbankans. Hjúkrunarfræðingar og læknar á skurðstofum, gjörgæslu og legudeild tóku stóran þátt í skipulagningu og undirbúningi þegar byrjað var að gera þessar aðgerðir á Landspítala. Það er því stór hópur sérhæfðra starfsmanna Landspítala sem á hlut að máli þegar kemur að nýraígræðslum. Þessi hópur myndar keðju þar sem sérhver hlekkur skiptir miklu máli til að tryggja öryggi nýragjafa og nýraþega fyrir og eftir aðgerð.
Frá árinu 2003 til 2012 hafa verið framkvæmdar 63 árangursríkar nýraígræðslur á Landspítala, eða um níu aðgerðir á hverju ári.