Spurt og svarað um nýragjafir

Það er raunhæfur valkostur fyrir heilbrigðan einstakling að gefa annað nýrað sitt án þess að heilsan versni eða lífsgæði skerðist. Nýragjöf er ómetanleg þeim sem þiggur. Ígrætt nýra bætir heilsu og eykur lífsgæði nýraþegans. Það hefur verið sýnt fram á að nýra frá lifandi gjafa starfar yfirleitt lengur, heldur en nýra sem kemur frá látnum gjafa. 

Hildigunnur Friðjónsdóttir og Selma Maríusdóttir hjúkrunarfræðingar á ígræðslugöngudeild Landspítala veita fekari upplýsingar um nýragjafir í síma 8253766 / 8255837 á dagvinnutíma og einnig er hægt að senda tölvupóst á  transplant@landspitali.is

 

Allir heilbrigðir einstaklingar geta gefið nýra. Einstaklingur sem vill gefa nýra er oftast náinn ættingi eða vinur. Oft er ættingi æskilegur kostur, þar sem líklegra er að gott samræmi sé milli vefjaflokka og því minni hætta á að líkami nýraþegans hafni nýranu. Það er mikilvægt að þeir sem íhuga að gefa nýra fái greinargóðar upplýsingar um nýragjöf og hvað það hefur í för með sér. Ákvörðun um að gefa nýra þarf að taka í góðri samvinnu við nánustu fjölskyldu þar hún snertir alla fjölskylduna.
Nýragjafinn verður að vera orðinn 18 ára. Miðað er við að nýragjafi sé ekki eldri en sjötugur, en alltaf þarf að taka mið að heilsufari nýragjafans og starfshæfni nýrna hans. Þá skiptir aldur nýraþegans einnig máli.

 Nýragjafinn þarf einnig:

 • að hafa tekið upplýsta ákvörðun um að vilja gefa nýra
 • að gefa nýrað af fúsum og frjálsum vilja
 • að vera andlega og líkamlega heilbrigður

Skyldleiki er ekki forsenda þess að geta gefið nýra. Nýragjafi getur verið maki, vinur eða kunningi. Einnig eru dæmi um að alls ótengdir einstaklingar gefi nýra. 

Tekin eru blóðsýni (blóðflokkun, vefjaflokkun, ýmsar rannsóknir) sem skera úr um hæfi þess sem er að velta fyrir sér að gefa nýra. Komi allar blóðprufur vel út er líkamsástand og nýrnastarfsemi rannsökuð nánar.  

Nokkur atriði til umhugsunar fyrir þá sem hafa hugleitt að gefa öðrum einstaklingi annað nýrað sitt:

Að gefa líffæri er stór ákvörðun og mikilvægt er að gjafinn sé sáttur við ákvörðunina.
Fyrir aðgerðina er nauðsynlegt að fá sem bestar upplýsingar um undirbúning, sjálfa aðgerðina og líðan eftir hana. Væntanlegur líffæragjafi þarf að huga vel að andlegri og líkamlegri heilsu sinni og t.d. getur háþrýstingur, ofþyngd og sykursýki komið í veg fyrir nýragjöf.
Samskipti innan fjölskyldu skiptir máli, allir í fjölskyldunni þurfa að fá góðar upplýsingar.
Sá möguleiki er fyrir hendi að nýraþegi hafni því af einhverjum ástæðum að þiggja nýra frá lifandi gjafa, en vilji fara á biðlista eftir nýra frá látnum gjafa, jafnvel þó að gjafinn vilji eindregið gefa nýra. Virða þarf slíka ákvörðun. Á sama hátt getur nýragjafinn skipt um skoðun og hætt við hvenær sem er í rannsóknarferlinu.

1. Hvert er almennt viðhorf þitt til líffæraígræðslu eða líffæragjafar?

2. Hefurðu hugleitt ávinning vegna nýragjafarinnar og áhættu sem fylgir skurðaðgerðinni?

3. Hvaða áhrif hefði aðgerðin á fjárhag þinn? Skerðast laun á meðan á ferlinu stendur? Hver er staða á vinnumarkaði og veikindaréttur?

5. Líkamleg virkni

6. Hvernig er samband þitt við nýraþegann? Erfið samskipti fyrir aðgerð gætu valdið óraunhæfum væntingum um að samskiptin batni eftir nýrnagjöfina. Einnig þarf að velta fyrir sér líðan sinni ef líkami nýraþegans hafnar gjafanýranu, ef hann sýnir ekki þakklæti eða ef samskipti við nýraþegann verða erfið og þvinguð eftir aðgerðina.

7. Hefurðu hugleitt hvernig þú bregst við verkjum eftir aðgerðina? Ertu reiðubúinn að takast á við aukaverkanir sem e.t.v. gætu seinkað bata?
Hefurðu hugsað út í það að þú gætir fundið fyrir þunglyndi og kvíða í tengslum við aðgerðina?

8. Getur búseta þín haft áhrif á ferlið?

9. Hvaða skuldbindingar hefur þú t.d. varðandi fjölskyldu (ung börn), vinnu eða félagsstörf?

10. Nauðsynlegt er að hætta reykingum fyrir aðgerð.

11. Líkamsþyngd getur haft áhrif á hvort þú getur gefið nýra.

12. Ertu að skipta um starf á sama tíma og aðgerðin er fyrirhuguð?

13. Nauðsynlegt er að hafa góðan stuðning frá fjölskyldu og/eða vinum meðan á ferlinu stendur vegna andlegra, tilfinningalegra, félagslegra og afkomutengdra þátta.

Til að meta hvort einstaklingur getur gefið nýra þurfa að fara fram ýmsar ransóknir. Byrjað er á að athuga blóð- og vefjaflokka nýragjafa og nýraþega til að athuga hvort líffæri þessara einstaklinga séu samrýmanleg.

Blóðflokkagreining:
• Þeir sem eru í blóðflokki A geta gefið þeim sem eru í blóðflokki A og AB.
• Þeir sem eru í blóðflokki B geta gefið þeim sem eru í blóðflokki B og AB
• Þeir sem eru í blóðflokki AB geta gefið þeim sem eru í blóðflokki AB
• Þeir sem eru í blóðflokki O geta gefið þeim sem eru í blóðflokki A, B, AB og O

Vefjaflokkunargreining er notuð til að greina sérstaka HLA-mótefnavaka líffæragjafans og greina hversu gott samræmi er milli líffæragjafa og líffæraþega.
Einnig eru gerðar nákvæmar blóðrannsóknir með áherslu á nýrnastarfsemi, blóðsölt, storkuhæfni blóðsins, lifrarstarfsemi og blóðsykur. Þá er einnig skimað fyrir lifrarbólgu B og C, HIV-veiru og öðrum veirusjúkdómum. 

Væntanlegur nýragjafi þarf einnig að gangast undir eftirfarandi rannsóknir: 

 • Læknisskoðun þar sem farið er yfir öll líffærakerfi líkamans, fyrri sjúkdóma, aðgerðir og fjölskyldusögu. Ef eitthvað kemur fram sem ekki telst eðlilegt þá getur þurft að rannsaka það nánar.
 • Þvagrannsókn til að skima fyrir nýrnasjúkdómum eða þvagvegakvillum 
 • Hjartalínurit er tekið til að meta hjartastarfsemi.
 • Röntgenmynd af brjóstholi er tekin til að meta ástand hjarta og lungna.
 • Tölvusneiðmyndun nýrnaæða, nýrna og þvagvega gerð til þess að meta slagæðar til nýrna og til að útiloka meinsemdir í nýrum og þvagvegum.
 • Konur þurfa að fara í skoðun hjá kvensjúkdómalækni og í brjóstamyndatöku (Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands).
 • Aðrar rannsóknir eftir þörfum hvers og eins t.d. hjartaómskoðun og öndunarpróf
 • Viðtal við félagsráðgjafa
 • Viðtal við sálfræðing eða geðlækni eftir þörfum hvers og eins. 
Ígræðslur nýrna frá lifandi nýragjöfum hafa verið framkvæmdar á Landspítala frá árinu 2003. 

Þegar niðurstöður rannsókna liggja fyrir meta sérfræðingar ígræðsluteymis hvort aðgerðin geti farið fram og hver skonar aðgerð verður framkvæmd.  Ef ekkert mælir á móti aðgerð, er aðgerðardagur ákveðinn.

Skurðaðgerð til að fjarlægja nýra er hægt að framkvæma á tvennan hátt, annað hvort með hefðbundnum skurði undir rifjabarði eða með kviðsjáraðgerð. Í sumum tilvikum getur þurft að breyta kviðsjáraðgerð í opna skurðaðgerð ef aðstæður krefjast þess þegar aðgerð hefur verið áætluð með kviðarholssjá getur skurðlæknir ákveðið að skipta yfir í opna skurðaðgerð ef aðstæður krefjast þess. Aðgerðin tekur 3-5 klukkustundir. 

Að aðgerð lokinni fer nýragjafinn á vöknun þar sem hann er undir nákvæmu eftirliti þar til óhætt er að hann fari á legudeild. 

 

Nýra frá lifandi gjafa byrjar yfirleitt að starfa strax, en ef um að ræða nýra frá látnum einstaklingi getur þurft blóðskilun fyrstu dagana eftir ígræðsluna þar til ígrædda nýrað tekur að starfa. 

Frekari upplýsingar um skurðaðgerðina færðu hjá skurðlækni fyrir aðgerðina.

 

Yfirleitt er sjúkrahúslegan tveir til fjórir dagar.
Eftir útskrift af sjúkrahúsinu getur gjafinn fundið fyrir verk eða eymslum á skurðsvæðinu, því skurðsárið er enn að gróa. Almennt er ekki mælt með því að fólk lyfti þungum hlutum í um það bil sex vikur eftir aðgerð. Mikilvægt er að nýragjafi ræði við lækni sinn eða hjúkrunarfræðing á ígræðslugöngudeildinni um líkamsþjálfun eftir aðgerðina. Gera má ráð fyrir því að vera 6 vikur frá vinnu eftir aðgerðina, en þetta er einstaklingsbundið og fer eftir því hvaða starf nýragjafinn stundar.
Eðlilegt að nýragjafi og fjölskylda hans hafi áhyggjur af hugsanlegum eftirköstum í kjölfar aðgerðarinnar. Mögulegir líffæragjafar ættu að ræða opinskátt um þessar áhyggjur við lækni og/eða hjúkrunarfræðing á ígræðslugöngudeild. Allar samræður milli gjafa og starfsmanna spítalans svo og allar niðurstöður læknisrannsókna eru trúnaðarmál.
Skurðaðgerðin felur í sér jafn mikla áhættu fyrir líffæragjafann og allar aðrar skurðaðgerðir. Flestir fylgikvillar eru minniháttar, en geta lengt sjúkrahúsdvölina. 

Áhættuþættir skurðaðgerðar sem nýragjafi ætti að ræða við ígræðsluteymið:

 • Verkir. Nýragjafi mun þurfa á verkjalyfjum að halda eftir aðgerðina.
 • Sýking. Komi sýking í skurðsárið verða gefin sýklalyf til meðferðar við henni. Sýking getur seinkað því að sár grói og valdið örum eða öðrum vandamálum.
 • Lungnabólga. Skurðaðgerð eykur hættu á lungnabólgu. Sjúkraþjálfari aðstoðar við öndun og öndunaræfingar eftir aðgerð. 
 • Skemmd á nýranu. Mögulegt er að nýrað verði fyrir skemmdum meðan á aðgerðinni stendur. Allt er gert til að lágmarka þá áhættu. Skurðlæknirinn gæti breytt áætlaðri kviðsjáraðgerð yfir í opna skurðaðgerð til að komast að nýranu á öruggan hátt.
 • Blóðsegamyndun. Strax eftir aðgerðina aðstoðar hjúkrunarfólk nýragjafann við að fara fram úr rúminu og hreyfa sig. Hreyfing örvar blóðrásina og hjálpar til við að koma í veg fyrir blóðsegamyndun. Flestir sem fara í aðgerðir á Landspítala fá blóðþynningarlyf til að minnka líkur á blóðsegamyndum í kjölfar aðgerðar.
 • Samfall á lunga. Nýrað liggur nálægt lunganu og það getur komið fyrir að opnað sé inn í fleiðruholið (holið sem umlykur lungað) í aðgerðinni. Ef það gerist gæti lungað fallið saman. Læknarnir myndu þá setja slöngu inn í brjóstkassann, tímabundið, til að lungað þenjist út að nýju.
 • Ofnæmisviðbrögð við svæfingu. Í undirbúningi fyrir aðgerð mun ígræðsluteymið leitast við að greina hugsanlegt ofnæmi. Ef vart verður ofnæmisviðbragða við svæfingu er samstundis brugðist við því og viðeigandi meðferð veitt.
 • Dauðsfall. Líkurnar á að nýragjafi látist eru um það bil 0,06% (Líkur á einu dauðsfalli í hverjum 1700 skurðaðgerðum).

 

Sjúklingatrygging veitir gjöfum rétt til skaðabóta vegna líkamlegs/geðræns tjóns sem verður í tengslum við rannsókn eða aðgerð. 

  Almennur réttur til bóta skv. lögum um sjúklingatryggingu byggir á því að tjón megi að öllum líkindum rekja til einhverra eftirtalinna atvika:

  1. Rannsókn/meðferð ekki hagað eins vel og unnt var eða í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.

  2. Bilun/galli í tæki, áhöldum eða búnaði sem notaður er við rannsókn eða aðgerð.

  3. Ef mat að lokinni rannsókn eða aðgerð sýnir að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri aðferð eða -tækni sem völ  var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn.

  4. Fylgikvilla rannsóknar eða aðgerðar sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Skilyrði er að tilvik sé sjaldgæft og alvarlegt.

  Réttur líffæragjafa til bóta skv. lögum um sjúklingatryggingu er rýmri en almennur réttur.   Bætur skal greiða vegna tjóns sem getur verið afleiðing þess að líffærið er fjarlægt, nema allt bendi til þess að tjónið verði rakið til annars. Í þessum tilvikum gildir hámark bóta úr sjúklingatryggingu ekki.  Tjón þarf heldur ekki að ná lágmarki svo bætur greiðist.

Nýragjöf hefur ekki áhrif á lífslíkur. Að því tilskildu að gjafinn sé metinn vandlega fyrir aðgerð og talinn hæfur til að gefa nýra mun hann lifa eðlilegu lífi eftir aðgerðina. Þegar nýrað er fjarlægt, stækkar nýrað sem eftir er og bætir smám saman fyrir starfsemi þess sem gefið var. Aðgerðin skilur eftir sig ör þegar nýrað er numið brott. 

Dæmi eru um fylgikvilla svo sem langvarandi verki, taugaskaða og kviðslit. Auk þess geta þeir sem hafa aðeins eitt nýra verið í aukinni hættu á að fá hækkaðan blóðþrýsting og aukinn próteinútskilnað í þvagi. Tíðni háþrýstings og nýrnabilunar er þó ekki aukin hjá þeim sem gefið hafa nýra samanborið við aðra.

Nýragjafar ættu að mæta í reglubundið eftirlit á ígræðslugöngudeild eða hjá heimilislækni þar sem fylgst er með blóðþrýstingi og nýrnastarfsemi (blóð- og þvagrannsóknir). Eðlilegt er að fylgjast með þessum þáttum árlega og oftar ef ástæða þykir til.
Nánari upplýsingar getur þú fengið hjá nýrnalækninum sem annast þig eða hjá hjúkrunarfræðingi ígræðslugöngudeildar.

Rannsóknir hafa sýnt að 80-97% nýragjafa sjái alls ekki eftir að hafa gefið nýra og jafnframt að þeir væru tilbúnir til þess að ganga í gegnum ferlið aftur, ættu þeir þess kost. Eftir nýragjöf greina gjafar samt sem áður stundum frá tilfinningasveiflum, allt frá gleði og létti yfir í kvíða og þunglyndi. Í álaginu sem fylgir ákvörðun um nýragjöf, brottnámsaðgerðinni sjálfri og bataferlinu í kjölfarið vilja tilfinningarnar gleymast. Nýragjafi getur fundið fyrir gleði en einnig þunglyndi, jafnvel þótt bæði nýragjafi og nýraþegi séu við góða andlega heilsu. Líffæragjafar sem finna fyrir áhyggjum, kvíða eða annarri vanlíðan eru hvattir til að hafa samband við ígræðslugöngudeild Landspítala transplant@landspitali.is
Meðganga eftir nýragjöf er möguleg en er yfirleitt ekki ráðlögð fyrr en að minnsta kosti sex mánuðum eftir aðgerðina. Nýragjafar ættu að ræða fyrirhugaða þungun við lækni og gæta þess að vera í góðu eftirliti á meðgöngunni.
Ef nýragjafinn er of þungur getur hann þurft að létta sig fyrir aðgerðina. Ef hann neytir mikils magns af próteinum eða salti getur hann þurft að draga úr því. Þetta eru þó fremur almenn heilsufarsleg atriði sem ekki tengjast nýragjöf sérstaklega. Rétt er að kanna hvort starfsfólk ígræðsluteymisins mæli með breytingum á mataræði.
Þetta er atriði sem hugsanlegir nýragjafar ættu að ræða við starfsfólk ígræðslugöngudeildar. Ræða þarf um það hvort undirliggjandi sjúkdómar eða aðrir þættir geti aukið líkurnar á nýrnasjúkdómi hjá gjafa og íhuga þarf málið vandlega áður en tekin er ákvörðun um nýragjöf.
Ráðlegt að ræða við vinnuveitanda ef þú hefur í hyggju að gefa nýra, til að kanna rétt þinn hjá fyrirtækinu sem þú vinnur hjá. Flestir vinnuveitendur veita veikindaleyfiog hægt er að sækja um bætur til Tryggingastofnunar ríkisins vegna launataps í tengslum við aðgerðina. Einnig er hægt að sækja um ferðastyrk ef gjafi býr fjarri Landspítala. Anna Dóra Sigurðardóttir félagsráðgjafi veitir frekari upplýsingar (annadora@landspitali.is).
Ef einstaklingur er sjúkratryggður á Íslandi eru rannsóknir, læknisheimsóknir og viðtöl á sjúkrahúsinu vegna mats og undirbúnings fyrir líffæragjöf, viðkomandi einstaklingi að kostnaðarlausu. Ekki þarf heldur að greiða fyrir eftirlit og meðferð eftir aðgerð sem tengist ígræðslunni.

Verði einstaklingur fyrir tekjutapi vegna nýragjafar er hægt að sækja um tímabundna fjárhagsaðstoð frá Tryggingastofnun ríkisins meðan hann er frá vinnu í kjölfar aðgerðarinnar. Nýragjafar í námi geta einnig sótt um tímabundna fjárhagsaðstoð. 

Ferðakostnaður: 

Sjúkratryggingar Íslands endurgreiða hluta kostnaðar vegna ferða sem tengjast nýragjöfinni samkvæmt ákveðnum reglum stofnunarinnar. 

Gistikostnaður: 

Nýragjafar geta gist á sjúkrahóteli Landspítala. Þeir greiða ákveðið gjald á sólarhring fyrir dvölina þar.

Anna Dóra Sigurðardóttir félagsráðgjafi á Landspítala veitir nánari upplýsingar og aðstoðar við að sækja um ofangreind atriði (annadora@landspitali.is).
Ef nýragjafi er áfram við góða heilsu eftir líffæragjöf ættu ekki að vera nein vandkvæði á að fá sjúkdóma- og/eða líftryggingu, en kanna þarf hvert mál fyrir sig.

Hefur líffæragjöf áhrif á sjúkdóma- og/eða líftryggingar?

Sjúkdóma- og/eða líftryggingar sem nýragjafi hefur tekið fyrir aðgerðina breytist ekki við hana. Sjúkdómatryggingar ná oftast yfir ákveðna sjúkdóma og aðgerðir og best er að kanna gildissvið þeirra, hvað þær fela í sér og skilmála í hverju tilviki fyrir sig.

Anna Dóra Sigurðardóttir félagsráðgjafi ígræðsluteymis veitir nánair upplýsingar (annadora@landspitali.is).