Endurhæfingardeildin á Grensási var opnuð 26. apríl 1973 þegar fyrsti sjúklingurinn kom þangað. Hún hefur síðan gengið undir nafninu Grensásdeild.
  

Markmið og starfshættir

Markmið endurhæfingar er að gera einstaklinga eins sjálfbjarga líkamlega, andlega og félagslega og geta leyfir. Leiðir að markmiðum eru margar svo sem að auka styrk og þol, auka færni við ýmsar athafnir daglegs lífs eða þjálfa mál og tal. Þetta krefst virkrar þátttöku einstaklinga og þeirra sem standa þeim næst.  Mikilvægt er að markmið séu eins skýr og unnt er. Sett eru tímamörk til viðmiðunar og þau endurmetin reglulega.

Teymisvinna er sérstaklega mikilvæg vegna þeirra flóknu verkefna sem unnið er að. Samvinna starfsmanna og sjúklings miðar að því að ná settu marki með því að samþætta sérþekkingu og framlag hvers og eins. Sjúklingur er kjarni teymisins og með honum starfar hópur fagfólks; meðferðarteymi. Fjöldi fagaðila í hverju teymi fer eftir eðli verkefnis. Samsetning teymis er breytileg, að jafnaði hittir sjúklingur lækni, hjúkrunarfræðing, sjúkraþjálfara og iðjuþjálfa. Sjúkraliðar, sálfræðingar, félagsráðgjafar, talmeinafræðingar og næringarfræðingar eru oft burðarásar í þeim verkefnum sem leysa þarf. Stoðtækjafræðingar og sjúkrahúsprestar koma einnig til ráðgjafar og aðstoðar sé eftir því leitað. Teymið hittist eins oft og þurfa þykir, ýmist með sjúklingnum einum eða með honum og fjölskyldu hans. 

Markmiðs- og fjölskyldufundir

Reynt er að hafa markmiðsfundi stutta, um 15 mínútur og fjölskyldufundi um 30 mínútur. Markmið funda er að tryggja að allir, sjúklingur, fjölskylda hans og meðferðarteymi, séu samstiga og að endurhæfingarferlið sé skýrt. Á þann hátt skapast gagnkvæmt traust. 

Brúarfundir

Í vissum tilvikum er þörf á að samhæfa þjónustuna að lokinni útskrift. Haldnir eru fundir með því fagfólki sem tekur við sjúklingi svo sem félagsþjónustu, heimahjúkrun og fleirum.