Deildin sinnir fjölbreyttum hópi sjúklinga sem eiga það sameiginlegt að hafa tapað færni, tímabundið eða varanlega vegna slysa eða veikinda. Stundum er um að ræða marga sjúkdóma samtímis. 
 

Endurhæfingardeildin á Grensási sinnir fyrst og fremst sjúklingum sem koma frá öðrum deildum Landspítala. Hér eru nokkur algeng viðfangsefni:

Algengustu ástæður aflimunar eru blóðrásartruflanir vegna æðakölkunar eða sykursýki. Aðrar ástæður geta verið æxli, sýkingar,  slys eða meðfæddir gallar.

Tilgangur aflimunar er að fjarlægja þann hluta fótarins þar sem blóðflæði er orðið það lítið að drep hefur myndast, stöðva þjáningu t.d. þegar litlar líkur eru á að bein grói eftir slys eða að auðvelda endurhæfingu t.d. vegna meðfæddra galla. Ávalt er reynt að fjarlægja sem minnst af fótleggnum til að hreyfing og göngufærni skerðist sem minnst.

Að læra að  ganga á gervifæti getur verið erfitt verkefni sem krefst  mikillar orku og þjálfunar sérstaklega þegar aflimun er ofan við hné. Í upphafi endurhæfingar eru því allir þjálfaðir í að verða sjálfbjarga í hjólastól.

Þegar ákvörðun um val á gervifæti og tilheyrandi gönguþjálfun er tekin þarf að taka mið af  aldri og almennu heilsufari.  

Boðið er upp á eftirlit í framhaldi af útskrift.

Fyrirtæki sem eru í samvinnu við Grensásdeild: 
Stoð hf.   www.stod.is 
Össur hf.  www.ossur.is

Langvinn veikindi
Ýmsir sjúkdómar eru í eðli sínu langvinnir. Þeim sem búa við afleiðingar langvinnra sjúkdóma, t.d. sykursýki og krabbameins fjölgar stöðugt og lífslíkur þeirra aukast.  Bráð veikindi geta breyst í  langvinn veikindi sem geta komið hægt og sígandi jafnvel án þess að einstaklingurinn geri sér grein fyrir  þeim.

Bráð veikindi geta valdið stigvaxandi álagi og bilun í mörgum líffærakerfum. Þetta kallast fjölkerfabilun. Algengust eru nýrnabilun, hjartabilun og lungnabilun. Truflun á efnaskiptum og næringu er vel þekkt og getur leitt til röskunar á starfsemi tauga og vöðva með tilheyrandi vöðvarýrnun. Einkenni geta m.a. verið  slappleiki,  þreyta, geðdeyfð, lystarleysi og jafnvægistruflun.

Innlögn á endurhæfingardeild getur verið nauðsynlegt framhald  langrar legu á gjörgæslu og bráðadeildum.  Oft er þörf fyrir áframhaldandi þjónustu frá  öðrum deildum Landspítala samhliða endurhæfingu.

Meðferð í sjúkraþjálfun
Alvarleg slys eru nokkuð algeng í okkar þjóðfélagi. Algengustu áverkar eru beinbrot, áverkar á innri líffærum og skaðar á taugakerfi.

Áherslur í endurhæfingu taka mið af þeim skaða sem sjúklingur hefur orðið fyrir.

Áverkar á heilavef eða mænu þarfnast sértækrar meðferðar sem fjallað er um hér (tenglar).

Oft er þörf fyrir áframhaldandi samhliða þjónustu frá  öðrum deildum Landspítala.


Taugakerfið samanstendur af heila, mænu og úttaugum. Skaði á taugakerfi veldur því að boð berast ekki með eðlilegum hætti um kerfið. Við skaða á mænu ræðst umfang einkenna af því hve ofarlega á mænunni skaðinn er og hvort um er að ræða alskaða eða hlutskaða.
Alskaði á mænu lýsir sér í þverlömun , þar sem engin boð berast niður fyrir mænuskaðann, sem veldur lömun og skertu skyni, s.s. snerti- og sársaukaskyni. Við hlutskaða er skaðinn ekki alger þannig að eitthvað af hreyfiboðum og/eða skynboðum berast yfir skaðasvæðið.

Því ofar sem skaðinn er því meiri verður lömunin. Hár mænuskaði (í hálshrygg) getur haft áhrif á bol og alla útlimi en lágur mænuskaði (í lendhrygg) hefur áhrif á neðri útlimi.

Helstu orsakir mænuskaða eru áverkar en ýmsir sjúkdómar geta einnig valdið mænuskaða t.d. krabbamein eða brjósklos.

Endurhæfing , heilsurækt og eftirlit

Lögð er áhersla á sjálfsbjörg og sjálfstæði í öllum athöfnum daglegs lífs og aðlögun umhverfis að nýjum aðstæðum. Þjálfuð er færni við að takast á við breyttar aðstæður og kennt að hugsa um líkamann á nýjan hátt og á nýjum forsendum.

Regluleg heilsurækt er mikilvæg til að viðhalda styrk, liðleika og úthaldi. Sumir stunda æfingar hjá Íþróttafélagi fatlaðra, aðrir á heilsuræktarstöðvum eða í hópþjálfun á Grensási.

Boðið er upp á reglulegt eftirlit, þar sem er farið yfir heilsufar og hjálpartækjamál.

Samtök endurhæfðra mænuskaddaðra - SEM

Heilaskaði
Heilinn getur orðið fyrir skaða vegna áverka eða sjúkdóma. Sjúkdómar sem valda heilaskaða eru t.d. heilablóðfall, sýkingar í heila og súrefnisskortur við hjartastopp. Heilaskaði getur einnig orðið til við höfuðáverka í slysum af ýmsum toga. Umferðarslys eru algengasta orsök heilaskaði  í yngri aldurshópum en föll hjá þeim sem eldri eru.

Heilaskaðar eru flokkaðir í væga, miðlungs eða alvarlega út frá alvarleika einkenna í upphafi. Eftir því sem meðvitundarskerðing er meiri og varir lengur því alvarlegri telst skaðinn.  

Einkenni eftir heilaskaða eru mjög einstaklingsbundin. Þau vara einnig mislengi og fara að nokkru leyti eftir staðsetningu, eðli skaðans og alvarleika. Þannig eru líkur á því að þeir sem fá alvarlegan, dreifðan heilaskaða fái mikil einkenni sem vara lengi og séu lengur að ná sér en þeir sem fá vægari skaða. 

Í upphafi eru bráð einkenni mest áberandi, eins og meðvitundarleysi, höfuðverkur, svimi, ógleði og uppköst. Þegar fólk kemur til meðvitundar og bráðastigið er gengið yfir verða önnur einkenni meira áberandi. Þau má flokka í líkamleg einkenni og hugræn einkenni.  

Líkamleg einkenni geta verið lömun í útlimum, skert skyn, skert samhæfing, jafnvægistruflun, sjónskerðing og mál- eða taltruflanir. 

Hugræn einkenni eru margvísleg og geta bæði snúist um vitræna getu en einnig geðræn einkenni eða breytta hegðun. Flestir finna fyrir þessum einkennum að einhverju marki. Með vitrænum einkennum er átt við t.d. minnistruflanir, skipulags- og athygliserfiðleika, skerta einbeitingu og skert andlegt úthald eða þreytu sem oft er mjög áberandi. Geðræn einkenni geta t.d. verið þunglyndi/depurð, kvíði, skert frumkvæði, hvatvísi og ýmiss konar hegðunartruflanir. 

Endurhæfing felst m.a. í því að þjálfa þá þætti sem eru skertir, eins og minni, athygli og einbeitingu. Í endurhæfingarferlinu er einnig lögð áhersla á fræðslu og aðlögun einstaklings og umhverfis því að í mörgum tilvikum ganga einkenni ekki að fullu tilbaka. Endurhæfing verður alltaf einstaklingsbundin því afleiðingar heilaskaðans eru mismunandi og því breytilegt hvað þarf að leggja áherslu á í hverju tilviki fyrir sig.

Flestir sem fá miðlungs eða alvarlega heilaskaða  þurfa á endurhæfingu að halda. Við vægari heilaskaða þarf fyrst og fremst ráðgjöf og eftirfylgd.

Blóðþrýstingsmæling
Heilablóðfall er það kallað þegar truflun verður á  blóðflæði til heilans.  Það getur verið vegna blæðingar í eða utan við heilavefinn eða vegna þess að æð lokast í kjölfar blóðtappa.  Æðar lokast annað hvort af því að þær hafa smá saman verið að þrengjast eða af því að blóðtappi lokar þeim skyndilega. Heilablóðföll koma oftast án mikils fyrirvara og gefa skyndileg einkenni.

Einkenni eftir heilablóðfall geta verið margvísleg og mismikil eftir stærð og staðsetningu heilablóðfallsins. Málstöðvar eru t.d. í vinstra heilahveli hjá flestum.

Lömun í öðrum líkamshelmingnum er eitt algengasta einkennið og getur hún verið allt frá því að vera mjög væg yfir í það að vera alger.  Önnur einkenni geta verið skert húðskyn og jafnvægi, sjóntruflanir, verkstol, gaumstol, málstol, þvoglumælgi, kyngingarerfiðleikar o.fl.  Þessi einkenni eru mismikil. Sumir geta haft mörg þessara einkenna á meðan aðrir hafa einungis hluta þeirra. Heilablóðfall í vinstra heilahveli veldur einkennum í hægri líkamshelmingi og öfugt.

Endurhæfing miðar að sjálfsbjörg og sjálfstæði við allar athafnir daglegs lífs. Boðið er upp á heilsurækt í hópþjálfun að lokinni útskrift.

Heilablóðfall og endurhæfing (pdf - fræðslubæklingur)

Tenglar:

Heilaheill.is