Leit
Loka

Kórónaveiran Covid-19

Alvarlegrar lungnasýkingar varð vart í borginni Wuhan í Kína í lok desember 2019 og var síðar staðfest að um óþekkt afbrigði kórónaveirunnar væri að ræða. Það kallast nú Kórónaveiran Covid-19. Nú er sýnt að veiran sýkir menn, hún hefur leitt til allmargra dauðsfalla í Kína og greinst í fleiri löndum. Því hafa heilbrigðisyfirvöld í heiminum gripið til aðgerða til að hefta útbreiðslu veirunnar.

 

Hagnýtar upplýsingar

23. janúar 2020

Eins og komið hefur komið fram í fjölmiðlum er hafinn nýr faraldur af öndunarfærasýkingum með nýrri og áður óþekktri coronaveiru (2019-nCoV Wuhan). Hún er skyld öðrum coronaveirum sem við þekkjum vel (SARS og MERS). Núverandi faraldur hófst um áramótin og virðist a.m.k. í byrjun fyrst og fremst vera bundinn við borgina Wuhan í Kína. Öll greind tilfelli virðast hafa verið þar eða tengjast borginni. Smit á milli manna virðist ekki vera mjög greitt og fá dæmi um það. Nú hefur verið tilkynnt um yfir 400 tilfelli og 9 dauðsföll, öll hjá eldri eða ónæmisbældum einstaklingum.

Sóttvarnarstofnun Evrópu metur ástandið 23. janúar 2020 þannig að frekar líklegt sé að tilfelli muni berast til Evrópu. Hins vegar sé frekari dreifing innan landa Evrópu frekar ólíkleg. Ekki er mælst til skimunar á flugstöðvum eða almennt en Bretar og Ítalir munu vera að taka upp slíka skimun á flugsamgöngum beint við Wuhan.

Skilgreining á tilfelli skv. Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO): Einstaklingur sem er með hita og hósta þarfnast innlagnar OG aðrar greiningar skýra ekki orsökina. Þar að auki þarf einstaklingurinn að hafa verið í Wuhan innan við 14 dögum áður en einkenni koma fram EÐA umgengist sjúklinga sem geta fallið undir skilgreininguna.

Skimun: Í tengslum við skimun fyrir ónæmum bakteríum skal jafnframt spyrja alla sjúklinga um ferðalög. Ef sjúklingur með lungnabólgu var nýlega á ferðalagi í Asíu (<2 vikur) skal skrá sérstaklega dagsetningar ferðalaga, flugnúmer og í hvaða löndum var dvalist og hvenær var dvalist þar.

Hlífðarbúnaður: Meðan skortir frekari upplýsingar um smit milli manna skal gera ráð fyrir snerti- og úðasmiti. Þetta getur breyst þegar frekari upplýsingar um smitleiðir liggja fyrir og þá breytast e.t.v. leiðbeiningar um hlífðarbúnað og kröfur um herbergi einnig.
Allir starfsmenn skulu klæðast hlífðarsloppi, hönskum, fínagnagrímu (FFP2/N95 að lágmarki) og nota hlífðargleraugu þegar farið er í herbergi sjúklings.
Setja skal fínagnagrímu án ventils (FFP2 hið minnsta) á sjúkling ef ástand hans leyfir, ef sú gríma er of þétt skal nota skurðstofugrímu. Kenna skal sjúklingi hóstavarúð (hósta/hnerra í snýtubréf, setja það í poka og spritta hendur).

Aðstaða: Gera þarf ráð fyrir úðasmitseinangrun og ef sjúklingur þarf að dveljast á bráðamóttöku í lengri tíma skal nota stofur 16 og 17, annars hefðbundið einbýli. Ef sjúklingur þarf innlögn skal leggja hann inn í úðasmits einangrunarherbergi á A7 (berklaeinangrunarherbergi) með neikvæðum þrýstingi.

Þrif: Nota skal Virkon við þrif í umhverfi sem sjúklingur getur hafa mengað.

Greiningarpróf: Þar sem aðrir sjúkdómar geta valdið sömu einkennum er nauðsynlegt að reyna eins og hægt er að greina þá. Senda skal hefðbundin hálsstrok í veiru- og bakteríu PCR, hafa í huga þvag í mótefnaleit fyrir legionellu og pneumococcum. Ef ástæða er til að leita sérstaklega að 2019-nCoV Wuhan þá þarf að senda sýnið erlendis en væntanlega verður hægt að greina veiruna á veirufræðideild Landspítala innan 2-3 vikna.

Nýjustu samantektir um faraldurinn:

https://www.who.int/emergencies/diseases/novel-coronavirus-2019/situation-reports
https://www.ecdc.europa.eu/en/novel-coronavirus-china
https://promedmail.org/promed-post/?id=6907971

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?