LifrabolgaC_Banner_heimas-05.jpg (152376 bytes)

Í ársbyrjun 2016 hófst opinbert átak á Íslandi gegn lifrabólgu C sem stendur í þrjú ár. Landspítali er ábyrgur fyrir framkvæmd verkefnisins en aðalsamstarfsaðili er sjúkrahúsið Vogur. Yfirumsjón með verkefninu hefur sóttvarnarlæknir í umboði heilbrigðisráðherra. Unnt er að lækna lifrarbólgu C hjá flestum sjúklingum með viðeigandi lyfjagjöf og einstaklingum sem eru smitaðir af lifrarbólgu C og njóta sjúkratrygginga á Íslandi býðst nú meðferð með nýjum og öflugum lyfjum. Öllum þeim sem greinst hafa með veiruna verður boðin fræðsla, meðferð og eftirfylgni sem hluta af meiriháttar forvarnar- og lýðheilsuverkefni sem miðar að því að hefta útbreiðlsu og útrýma sjúkdómnum hér á landi. Fyrirhugað er að meðferðarátakið standi í 2-3 ár. Á tímabilinu verður haft samband við sjúklinga og þeim boðin meðferð en einnig er unnt að óska eftir viðtali vegna meðferða með því að skrá sig hér |>>.

Stór hluti þeirra, sem smitast af lifrarbólgu C, fá engin augljós einkenni sjúkdómsins. Algengustu einkenni eru slappleiki og úthaldsleysi. Önnur einkenni svo sem vöðva- og liðverkir, kviðverkir og húðútbrot eru sjaldgæfari. Sumir veikjast með hita og gulu við smit, en það er undantekning. Oft gera einkenni ekki vart við sig fyrr en eftir mörg ár eða áratugi þegar komin er skorpulifur og lifrarbilun.

Sérstök ástæða er til að leita greiningar ef:

 • Þú hefur einhvern tímann sprautað þig í æð
 • Þú ert HIV jákvæður
 • Þú þarft eða hefur þurft að undirgangast blóðskilunarmeðferð
 • Þú hefur viðvarandi óútskýrða hækkun á lifrarprófinu ALAT
 • Þú ert barn móður sem sýkt er af lifrarbólgu C
 • Maki þinn er með lifrarbólgu C
 • Þú hefur hlotið blóðgjöf, storkuþætti eða þegið líffæri fyrir árið 1992.

Lifrarbólga C er greind með blóðprófi. Niðurstöður liggja fyrir innan nokkurra daga frá því að próf er tekið. Hægt er að óska eftir blóðprófi hjá öllum heilsugæslustöðvum, einnig er hægt að leita ráðgjafar vegna lifrarbólgu C hjá hjúkrunarfræðingum  síminn er: 800 1111

 

Lifrarbólga C er bólgusjúkdómur í lifur af völdum smitandi veiru sem kölluð er lifrarbólguveira C. Á Íslandi er áætlað að um 800 til 1000 manns séu smitaðir af lifrarbólgu C en árlega greinast á bilinu 40-70 einstaklingar. Lifrarbólga C er alvarlegur og í mörgum tilvikum lífshættulegur sjúkdómur. Talið er að á heimsvísu séu allt að 180 milljónir manna með sjúkdóminn. 

Lifrarbólga C smitast fyrst og fremst við blóðblöndun. Algengustu smitleiðirnar eru því þegar sýkt blóð berst frá einum einstaklingi til annars, t.d. þegar fíkniefnaneytendur deila óhreinum sprautunálum og öðrum áhöldum sem sýkt blóð hefur komist í. Fólk getur smitast ef ekki er gætt fyllsta hreinlætis við húðflúr og götun t.d í eyru. Smit getur einnig borist við blóð-eða blóðhlutagjöf en þar sem allt blóð er skimað eru líkur á að smitast þannig hverfandi. Veiran getur borist milli manna við kynmök en það er talið sjaldgæft (innan við 5%). Sjaldgæft er einnig að veiran berist frá sýktri móður til fósturs (um 5% líkur). Hjá sumum er ekki hægt að finna neina augljósa áhættuþætti fyrir sjúkdómnum.

Lifrarbólga C smitast ekki:

 • við venjulega umgengni og snertingu milli fólks, þ.m.t kossa og atlot þar sem ekki á sér stað „blóðblöndun“
 • af matarílátum, matargerð eða við það að borða saman
 • með andardrætti og hósta
 • í sundlaugum
 • við brjóstagjöf
 •  

  Sé sýkingin ekki meðhöndluð getur hún valdið örmyndun í lifrinni og á endanum getur hún leitt til skorpulifrar, lifrarkrabbameins og lifrarbilunar.
  Lyfin eru gefin í töfluformi. Þau eru tekin daglega, að jafnaði í 8-12 vikur. Aukaverkanir eru að jafnaði vægar. Ekki er þörf á að taka sýni úr lifur (lifrarástunga) og ekki eru gefin lyf í sprautuformi. Fylgst er með árangri meðferðarinnar með því að taka blóðsýni og þurfa þeir sem hana undirgangast að mæta reglulega í eftirlit og blóðprufur á meðan á meðferðinni stendur.