Leit
Loka

Sérhæfð endurhæfingargeðdeild

Uppvinnsla, meðferð og endurhæfing einstaklinga með alvarlega geðrofssjúkdóma.

Banner mynd fyrir Sérhæfð endurhæfingargeðdeild

Hafa samband

Deildin er staðsett á 3. hæð A-álmu í Geðdeildarbyggingu v/Hringbraut. 

Hagnýtar upplýsingar

Sérhæfð endurhæfingargeðdeild (SEG) er lokuð 10 rúma geðdeild sem er staðsett á 3. hæð í Geðdeildarbyggingunni við Hringbraut.  
Sérhæfð endurhæfingargeðdeild sinnir endurhæfingu sjúklinga með geðrofssjúkdóma og í flestum tilfellum einnig fíknivanda. Auk þess sinnir deildin þjónustu við sjúklinga í dagdeild sem þurfa stuðning í nokkra daga/vikur eftir útskrift af deildinni. 
 Áhersla er lögð á hlýlegt, rólegt og öruggt umhverfi. Deildin hefur m.a. aðgang að líkamsræktarsal, iðjuþjálfun, virkni í batamiðstöð og útivistarsvæði. 
Heimilt er að heimsækja sjúklinga í samráði við starfsfólk til kl. 22:00 alla daga vikunnar. 

Símanúmer

 • Vakt: 543 4212
 • Deildarstjóri: 543 4210
 • Yfirlæknir: 543 1000
 • Sjúklingasími: 543 4011
 • Deildin hentar vel þeim sem þurfa mikinn stuðning og aðhald við endurhæfingu og eiga erfitt með að fóta sig á opinni geðdeild
 • Meirihluti þeirra sem leggjast inn á deildina eru sjálfræðissviptir, á aldrinum 18-30 ára
 • Flestir þeirra sem leggjast inn hafa fyrst verið í meðferð móttökugeðdeildum Landspítala 

Þverfaglegt teymi lækna, hjúkrunarfræðinga, félagsráðgjafa, iðjuþjálfa, ráðgjafa og sálfræðinga skipuleggur meðferð hvers og eins í samvinnu við sjúklinginn. 
Dagleg þjónusta er í umsjón og ábyrgð hjúkrunarfræðings sem hefur ráðgjafa sér til fulltingis. 
Lögð er rík áhersla á að styðja við og fræða fjölskyldur/nánustu aðstandendur sjúklinga í góðu samráði við þá. 

Á SEG er unnið samkvæmt hugmyndafræði batastefnunnar. Batamiðuð þjónusta felur í sér að styðja sjúklinga til að draga úr geðrænum einkennum og auka lífsgæði þeirra með áherslu á að þeir séu sjálfir sérfræðingar í eigin lífi. 

Starfsfólkið er til staðar til að leiðbeina og styðja sjúklinga til að ná þeim markmiðum sem þeir hafa sett sér.  

Aðal útgangspunkturinn er sjúklingurinn sjálfur en ekki sjúkdómafræði, veikindi, einkenni eða almenn heilsa hans. 

Markmiðið með batamiðaðri þjónustu er að efla samstarfið á milli sjúklinga og starfsfólks. 

Ráðgjafi 
Ráðgjafar eru þeir starfsmenn sem standa sjúklingunum næst. Það er alltaf hægt að leita til þeirra til að fá stuðning varðandi líðan, fíkn og virkni. Ráðgjafar skipuleggja vikulega virkniáætlun með sjúklingum og aðstoða þá við að ná vikulegum markmiðum sínum. 

Læknir 
Á SEG starfar að jafnaði einn geðlæknir sem er sérfræðingur í geðlækningum. Hann ber ábyrgð á sjúkdómsgreiningu, meðferð og eftirfylgni sjúklinga í samstarfi við málastjóra og meðferðarteymi.  

Hjúkrunarfræðingur 
Hjúkrunarfræðingar deildarinnar bera ábyrgð á daglegri hjúkrun sjúklinga og að skipuleggja endurhæfingarmeðferð í samstarfi við sjúkling og meðferðarteymi hans. Þeir geta aðstoðað með líkamleg- og andleg einkenni. Hægt er að leita til þeirra ef þörf er á samtali eða stuðningi. Hjúkrunarfræðingar standa að fræðslu og vinnu með aðstandendum.  

Félagsráðgjafi 
Félagsráðgjafi sér um að aðstoða sjúklinga við að finna sér búsetu, þekkja sín réttindi og getur aðstoðað með að skipuleggja fjármál ef sjúklingur óskar eftir.  
Einnig sinnir félagsráðgjafi fjölskyldustuðningi, tekur viðtöl við sjúklinga og vinnur náið með meðferðarteymi til að best sé hægt að sinna þörfum sjúklinga í endurhæfingu. 

Sálfræðingur 
Allir sjúklingar á deildinni hafa aðgang að sálfræðingi á deildinni. Hægt er að vinna með geðrofseinkenni, kvíða, sjálfsvígshugsanir, depurð, lífsgæði og fleira.  

Iðjuþjálfi 
Iðjuþjálfun er einstaklingsmiðað ferli þar sem leitast er við að auka færni og þátttöku sjúklinga í að takast á við daglegt líf innan sem utan deildar.   
Sjúklingar fá tækifæri til að takast á við verkefni sem vekja hjá þeim áhuga, eru þeim mikilvæg, geta veitt gleði og aukið sjálfstraust þeirra.  
Iðjuþjálfar geta aðstoðað með atvinnuleit ef óskað er eftir því.

Meðferðarúrræði 

 • Auka lífsgæði 
 • Draga úr einkennum 
 • Koma í veg fyrir bakslag 
 • Styðja sjúklinga við þátttöku í samfélaginu 
 • Sjúklingar útskrifast í búsetu. Hvort sem um að ræða á leigumarkað, í heimahús, almennar félagslegar íbúðir, almennar félagslegar íbúðir með stuðningi, sértæka búsetu eða utankjarna búsetu. 
Markmið iðjuþjálfunar er að efla og viðhalda líkamlegri, andlegri og félagslegri færni í daglegu lífi. Í iðjuþjálfun á Kleppi er unnið margbreytilegt starf eftir þörfum sjúklinga. Meðal annars er hópastarf sem kallast „vinnusalur“. Í vinnusal iðjuþjálfunar eru unnin margskonar verkefni fyrir allar deildir Landspítalans. Dæmi um verkefni eru: Ljósritun, prentun bóka, bæklingar, fræðsluefni, plöstun og fleira. Þar vinna sjúklingar og starfsfólk saman að verkefnum. 

Markmið vinnusalar: 

 • Að skapa rútínu og bæta vinnutengda hegðun 
 • Að auka félagsfærni, einbeitingu og úthald 
 • Að færnimeta sjúklinga með tilliti til vinnu/skóla með viðeigandi matstækjum 
Geðlæknir sér um að hver sjúklingur fái þá lyfjameðferð sem hentar þeim best. Geðlyf draga úr geðrofseinkennum og gera sjúklingum kleift að bregðast við umhverfi sínu á viðeigandi hátt og lifa heilbrigðara lífi.

Batamiðstöðin býður upp á ýmiss konar virkni til að hjálpa sjúklingum að ná bata. Hún er staðsett í húsinu fyrir aftan aðalbyggingu Klepps og í hverri viku kemur út ný stundaskrá með þeim liðum sem eru í boði hverju sinni.  

Markmiðið með þjónustu Batamiðstöðvar er að tengja sjúklinga við samfélagið, stuðla að bata og auka virkni.  

Skipta má þeirri virkni sem er í boði í fernt; hreyfingu, fræðslu, slökun og heimsóknir út í samfélagið.  

Að auki er hægt að koma hvenær sem er í Batamiðstöð til að spjalla, fá sér kaffisopa eða te, púsla, spila eða kíkja í blöðin. 

Þá er hægt að panta viðtal hjá atvinnuráðgjafa ef áhugi kviknar á að komast í vinnu.  

Dæmi um þá virkni sem er í boði eru gönguferðir, yoga, slökun, fótbolti, streitustjórnun, nálastungur, vitræn endurhæfing, minnisþjálfun, morgunrabb, núvitund, fótbolti, dans og margt fleira. 

SEG grúppan eru hóptímar þar sem sjúklingar fá fræðslu og tækifæri til að ræða ýmis málefni. Til að mynda er farið yfir geðrofsfræðslu, streitu-næmi líkanið, ranghugmyndir, tortryggni, að hrapa að ályktunum, raddir, neikvæð einkenni, bjargráð, tilfinningar (HAM), áhrif hegðunar á hugsanir og líðan (HAM) og algengar hugsanaskekkjur (HAM). Það eru fyrirfram ákveðin markmið með hverri grúppu, hvort sem það er að fræða um einkenni, ræða upplifanir eða að læra aðferðir og tækni til að takast á við einkennin og daglegt líf.
Í virkniviðtölum er farið yfir hvernig virkni og markmið síðustu viku gengu. Því næst eru markmið sett fyrir komandi viku þar sem hver og einn velur það sem hentar eftir áhugasviði.
SEG leggur mikla áherslu á fjölskyldustuðning. Fjölskyldustuðningur á SEG er miðaður að þörfum hvers og eins. Aðstandendur hitta teymi sjúklings reglulega á meðan á innlögn stendur. Öllum sjúklingum og aðstandendum er boðin fræðsla um deild, meðferð og geðrofssjúkdóma.
Hópmeðferð og einstaklingsmeðferð eru í boði fyrir þá sem hafa áhuga á því. Í einstaklingsmeðferð er unnið með vandamál og markmið sem sjúklingar skilgreina sjálfir. Oft snýr vandi sem unnið er með að geðrofseinkennum (röddum, ranghugmyndum, vanvirkni). Einnig er unnið með kvíða, depurð og/eða fíkn.
Endurhæfing hjálpar sjúklingum að aðlagast samfélaginu utan veggja geðheilbrigðisstofnana með því að þjálfa það sem er nauðsynlegt til að takast á við hið daglega líf.  

Til dæmis er hægt að fá aðstoð við að: 

 • Skipuleggja sig 
 • Halda utan um fjármál sín 
 • Kaupa í matinn 
 • Sinna eigin umhirðu og umhirðu heimilis 
 • Þjálfun í starfi, með það að markmiði að geta lifað sjálfstæðu lífi 
Við upphaf meðferðar á SEG er veitt mikið aðhald og stuðningur til að tryggja stöðugleika. Með tímanum taka sjúklingarnir sjálfir sífellt meiri ábyrgð á eigin bata eftir einstaklingsbundnu styrkingarplani. Markmið með endurhæfingu er að auka daglega virknigetu sjúklinga svo þeir geti lifað sjálfstæðu lífi í samfélaginu.

Stuðningsviðtöl eru veitt af ráðgjöfum og hjúkrunarfræðingum á SEG. Viðtölin eru hugsuð þannig að sjúklingar geta rætt um og deilt innri upplifunum sínum eins og hugsunum og tilfinningum.  

Sjúklingum er frjálst að biðja um stuðningsviðtöl hvenær sem er og hvetjum við sjúklinga til að sækjast eftir viðtölunum ekki síst þegar þeim finnst vera þörf á því. Við leggjum upp úr því að andrúmsloft í stuðningsviðtali einkennist af góðri nærveru, virkri hlustun og skilningi.  

Sjúklingum er frjálst að ræða um hvað sem er í viðtölunum og dæmi um meðferðarvinnu sem er unnin er t.d. að leitabjargráða við vanlíðan, hafa einhvern til að deila með erfiðri reynslu eða finna leiðir til að draga úr líkum á bakslögum. 

 • „Stuðningsviðtölin eru vel heppnuð og gerðu mig ánægðari“ 
 • „Með því að hafa einhvern til þess að hlusta á mann vinnur maður með rót vandans“ 
 • „Það er öðruvísi að hugsa hlutina í einrúmi heldur en að tala við einhvern um þá“ 
 • „Stuðningsviðtöl hjálpa með að vera ekki einn með vanlíðan sinni “  

 

Skaðaminnkandi hugmyndafræði beinist að því að draga úr eða lágmarka heilsufarslegan, félagslegan og fjárhagslegan skaða sem vímuefnanotkun getur valdið einstaklingum og samfélögum. Markmið skaðaminnkunar er fyrst og fremst að auka lífsgæði neytenda.

Geðrofssjúkdómar

 • Um 3% einstaklinga munu fara í geðrof einhvern tímann á lífsleiðinni. Fyrsta geðrofið kemur í flestum tilfellum fram á árunum 16-30 ára 
 • Algengi þess að einstaklingar heyra raddir er á milli 4%-10%
 • Allir geta lent í því að veikjast af geðrofssjúkdóm. Streita getur hrint af stað geðrofssjúkdómi en reynslan sýnir að fólk er misviðkvæmt fyrir streitu
 • Allir geta lent í því að þurfa að glíma við geðrænan vanda. Rannsóknir sýna að helmingur fólks uppfyllir skilgreiningu geðræns vanda einhvern tímann á lífsleiðinni

Geðrof er heilkenni geðrænna einkenna sem geta verið tímabundið ástand t.d. í tengslum við notkun vímuefna eða vegna svo kallaðra geðrofssjúkdóma en þekktastur þeirra er geðklofi.  

Geðrof hefur áhrif á það hvernig einstaklingurinn skynjar umhverfi sitt, hvernig hann hugsar og hagar sér. 

Sá sem veikist af geðrofi missir að einhverju leyti tengsl við raunveruleikann og upplifir ofskynjanir og ranghugmyndir.  

Sjúkdómseinkenni eru mjög einstaklingsbundin. Sumir hafa fá einkenni en aðrir hafa mörg einkenni.  

Einkennin breytast oft með tímanum.  

Algengustu einkenni geðrofs eru eftirfarandi:  

 • Ranghugmyndir eru hugmyndir sem einstaklingurinn trúir staðfastlega þó svo að skýr rök eða sannanir séu fyrir því að þær geti ekki átt sér stoð í raunveruleikanum.  Ranghugmyndir geta komið tímabundið fram í ýmsum geðröskunum t.d. þunglyndi.  
 • Aðsóknaranghugmyndir eru algengar í geðrofi t.d. getur viðkomandi haldið að nágrannar hans stjórni honum með rafsegulbylgjum. 
 • Tilvísunarranghugmyndir eru einnig algengar og lýsa sér t.d. með því að einstaklingurinn telur að ýmsir hlutir eða atburðir í umhverfinu hafi sérstaka merkingu sem beint er til hans. Þannig getur viðkomandi talið að auglýsingaskilti eða persóna í sjónvarpsþætti sé að senda honum skilaboð. 
 • Enn önnur tegund eru stjórnunarranghugmyndir sem snúast gjarnan um að einstaklingnum sé stjórnað af einhverjum utanaðkomandi öflum. 
 • Ofskynjanir geta tengst hvaða skynfæri sem er en heyrnarofskynjanir eru algengastar. Lýsa þær sér oftast með því að viðkomandi heyrir rödd eða raddir sem tala til eða um einstaklinginn. Raddir þessar lýsa gjarnan hegðun viðkomandi eða vara hann við einhverri aðsteðjandi hættu.  
 • Fólk í geðrofi vill oft ekki ræða um ofskynjanir sínar, jafnvel við sína nánustu.  
 • Hugsanatruflanir lýsa sér með því að skipulag og flæði hugsana er truflað.  Tengsl milli hugsana verða gjarnan órökrétt og erfitt getur reynst að skilja hvað viðkomandi á við þegar hann segir frá hugsunum sínum.  Oft virðist einstaklingurinn tala í kringum hlutina eða flakka á milli hugsana.  
 • Ýmis önnur einkenni geta fylgt geðrofi og geðrofssjúkdómum.   Mörg þeirra eru kölluð einu nafni eða neikvæð einkenni og lýsa sér í stuttu máli með því að ýmislegt í hugsunum og viðfangsefnum viðkomandi breytist eða hverfur.   Neikvæð einkenni birtast oft sem tilfinningaflatneskja, áhugaleysi, framtaksleysi og erfiðleikar við að skipuleggja og framkvæma ýmsar athafnir daglegs lífs. 

Kynning