Erfðir dreyrasýki

Dreyrasýki er erfðasjúkdómur sem þýðir að hann erfist frá einni kynslóð til annarrar. Helmingur gena, en þau segja fyrir um það hvernig við erum gerð, koma frá föður, hinn helmingurinn kemur frá móður. Af 46 litningum sem hver einstaklingur hefur eru tveir sem ákvarða kynferði, einn frá hvoru foreldri. Sá sem erfir X-litning frá báðum foreldrum verður stúlkubarn (XX) en sá sem erfir X og Y-litninga verður drengur (XY). Genin sem ákvarða dreyrasýki A og B eru á X-litningnum og eru á þann hátt sögð vera kyntengd. Annað á við um dreyrasýki C, þær erfðir eru ekki kynbundnar.

Þar sem stúlkur hafa tvo X litninga, hafa þær tvær ,,uppskriftir” um það hvernig líkaminn skuli framleiða storkuþætti í blóði. Sé annar hluti settsins ekki sem skyldi, bætir hinn hlutinn það upp. Þess vegna hafa konur venjulega ekki dreyrasýki því hið eðlilega X hylur gallann í hinu.

Sú kona sem hefur slík gen kallast arfberi. Arfberar flytja áfram sjúkdómsgenið og geta arfleitt börn sín að því. Arfberar geta flutt genið áfram til sona jafnt sem dætra og eru helmingslíkur á því í hvert skipti sem konan eignast barn að það erfi gallaða genið. Sé gallaði X-litningurinn í því eggi sem frjóvgast fær barnið dreyrasýki eða verður arfberi, allt eftir því hvort um dreng eða stúlku er að ræða. Drengir hafa Y-litning á móti gallaða X-litningnum og því ekki tækifæri til að bæta hann upp. Sé heilbrigði X-litningurinn í egginu fær barnið ekki dreyrasýki.

Eignist blæðarar, karlmenn með dreyrasýki, drengi fæðist enginn þeirra með dreyrasýki þar sem Y-litningurinn kemur frá föður og blæðarar hafa heilbrigða Y-litninga. Þar lýkur því erfðum dreyrasýki innan þess ættliðar, þar sem gallaði X-litningurinn flyst ekki áfram. En eignist blæðarar dætur verða þær allar arfberar, þar sem þær fá X-litning frá föður sínum sem veldur því að þær hafa annað X-ið gallað og geta því flutt genið áfram.

Samantekt um erfðir dreyrasýki:

Allar dætur arfbera hafa helmingslíkur á því að vera arfberar sjálfar.
Allir synir arfbera hafa helmingslíkur á því að vera blæðarar.
Allar dætur blæðara eru arfberar.
Allir synir blæðara eru heilbrigðir og geta ekki arfleitt börn sín að dreyrasýki.

Dreyrasýki þar sem ættarsága um sjúkdóminn er þekkt: 

Dreyrasýki kannast margir við sem "konunglegan" sjúkdóm en Viktoría Englandsdrottning var arfberi fyrir dreyrasýki. Einn þekktasti afkomenda hennar með dreyrasýki var yngsta barn og eini sonur síðasta Rússlandskeisara, Alexis, en móðir hans, Alexandra, var dótturdóttir Viktoríu.

   

Nýjar fjölskyldur með dreyrasýki

Um þriðjungur allra erfðasjúkdóma kemur fyrir í einstaklingum án fyrri sögu innan fjölskyldna þeirra. Það er vegna þess að erfðamengi okkar er sífelldum breytingum háð og ein þessara breytinga getur valdið dreyrasýki. Slík breyting kallast stökkbreyting. Erfitt er að vita nákvæmlega hvar eða hvenær stökkbreytingin verður. Því koma alltaf öðru hvoru upp tilfelli þar sem blæðari fæðist í fjölskyldu sem hefur enga sögu um sjúkdóminn.