Vísindastefna LSH

FRAMTÍÐARSÝN

Öflugt vísindastarf er forsenda góðrar heilbrigðisþjónustu og menntunar heilbrigðisstétta. Landspítali - háskólasjúkrahús vinnur ásamt öðrum vísinda- og heilbrigðisstofnunum að því að bæta heilbrigði þjóðarinnar með hagnýtingu vísindarannsókna og þekkingarmiðlun. Í ljósi þessa setur Landspítali - háskólasjúkrahús sér það markmið að vera árið 2012 eitt af fimm bestu háskólasjúkrahúsum á Norðurlöndum hvað varðar árangur og afköst í vísindarannsóknum.

STEFNA

LSH verði í fremstu röð alþjóðlega í heilbrigðisvísindum og eftirsóknarverður samstarfsaðili fyrir innlendar og erlendar stofnanir og fyrirtæki. Fjárframlag stjórnvalda til vísindarannsókna á LSH fylgi þeirri þróun sem er hjá norrænum háskólasjúkrahúsum og verði orðið 3% af veltu spítalans fyrir árið 2011 og fari um helmingur til Vísindasjóðs LSH. Jafnframt er gert ráð fyrir því að vísindamenn spítalans sæki samsvarandi fjármagn til ytri samkeppnissjóða. Nýting fjár til vísindarannsókna á LSH fari eftir árangursmati og samkeppni með jafningjamati. Markvisst verði unnið að bættri aðstöðu til vísindastarfa, uppbyggingu öflugra vísindahópa og nýliðun. Vísindaverkefni nái til grunnrannsókna, klínískra rannsókna og lýðheilsurannsókna og taki tillit til þarfa samfélagsins. Lögð er áhersla á að rannsóknir séu alþjóðlega samkeppnisfærar og hvatt er til breiðrar faglegrar nálgunar.

FRAMKVÆMD

Markaðssókn
· Kynna sérstöðu og styrkleika LSH til vísindastarfa og menntunar fyrir stjórnvöldum og almenningi.
· Kynna niðurstöður og ávinning af vísindastarfsemi LSH.
· Koma á samstarfssamningum við innlendar og erlendar vísindastofnanir um sameiginleg vísindaverkefni, klíníska gagnagrunna og tengdar stöður vísindamanna.
· Kynna kraftmikinn hóp reyndra og upprennandi vísindamanna sem gera LSH aðlaðandi kost til samstarfs fyrir öfluga vísindamenn.

Fjáröflun
· Efla fjárstreymi frá styrktaraðilum utan spítalans.
· Skipuleggja faglega aðstoð við öflun styrkja og frágang einkaleyfa.

Skipting rannsóknarfjár
Fjárframlag Vísindasjóðs LSH renni
· til rannsóknarhópa spítalans í samræmi við árangur í vísindarannsóknum undanfarin 5 ár.
· í samkeppnissjóð samkvæmt umsóknum.
· til ungra, upprennandi vísindamanna og doktorsnema á sjúkrahúsinu.

Hlutfall hvers þáttar er ákveðinn af stjórn Vísindasjóðs og Vísindaráði LSH.

Eftirfylgni
Árlegt uppgjör sýni að fjármögnun og nýting fjár til vísinda er gegnsæ og fylgir viðurkenndum reglum um rekstur.

Innri aðstaða
· Stuðlað verður að uppbyggingu öflugra rannsóknarhópa sem byggja á starfi vísinda­manna sem hafa þegar hlotið alþjóðlega viðurkenningu.

Þar verði

  • rekstrarleg ábyrgð
  • handleiðsla doktorsnemenda
  • post-doc stöður
  • þróun fjölfaglegra vísindaverkefna
    · Tryggt verður að vísindamenn og rannsóknarhópar sem fá fjárframlög skv. árangursmati hafi húsnæði, aðgang að sjúklingum, legudeildum og tækjabúnaði á spítalanum eftir því sem klínísk notkun þessarar aðstöðu leyfir.
    · Stuðlað verður að uppbyggingu lífsýnabanka og rafrænna gagnabanka þar sem vísindamönnum sjúkrahússins er tryggður aðgangur til að svara vísindalegum spurningum.

ÁBYRGÐ

· Vísindastefna er samþykkt af framkvæmdastjórn.
· Vísindaráð LSH er ráðgefandi um allt er varðar framkvæmd vísindastefnu spítalans.
· Vísindaráð LSH semur matsreglur í samræmi við alþjóðlegar viðmiðanir og með hliðsjón af matsreglum íslenskra háskóla.
· Skrifstofa kennslu, vísinda og þróunar annast framkvæmd vísindastefnu fyrir hönd framkvæmdastjórnar LSH.
· Forstöðumenn fræðasviða/forsvarsmenn fræðigreina, vísindakjarnar og einstakir vísindamenn bera ábyrgð á sínum vísindarannsóknum.
· Sjúkrahúsið ber lögbundna ábyrgð á öllum gögnum um sjúklinga og lífsýnum sem safnað er á vegum LSH.

MÆLINGAR

Árangur og afköst verða mæld með
· ISI skráðum vísindagreinum
· tilvitnunum
· mati ytri aðila
· fjölda nema í meistara- og doktorsnámi
· fjölda alþjóðlegra samstarfsverkefna
· fjárhæðum aðfengra styrkja
· stofnun sprotafyrirtækja
· fjölda einkaleyfa
· öðrum þáttum s.s. matsreglum HÍ.

Greinargerð

Með því að úthluta fé til vísindarannsókna á grundvelli árangursmælinga tryggir LSH nýtingu fjármagnsins.
Með því að úthluta hluta rannsóknarfjár á grundvelli árangurs undanfarinna ára er byggt á þeim styrk sem er í vísindarannsóknum á stofnuninni, enda eru rannsóknarhópar sem hafa sannað árangur sinn líklegastir til að halda því áfram og nýta féð með mestum árangri.
Með því að úthluta fé á grundvelli nýrra umsókna gefst færi á að styrkja ný og vönduð verkefni.

Þannig er til dæmis hægt að taka sérstakt tillit til ungra og efnilegra vísindamanna og þeirra sem eru nýlega komnir til starfa á LSH.
Jafningjamati er beitt til að meta umsóknir um styrki til nýrra vísindarannsókna. Þannig eru yfirmenn hvattir til þess með beinni tengingu milli fjármögnunar á vísindastarfsemi og árangurs að ráða til starfa framúrskarandi unga vísindamenn og skapa þeim svigrúm til uppbyggingar.

Stuðst er við árangursmælingu og jafningjamat til að úthluta fé til vísindarannsókna í þeim löndum þar sem bestur árangur hefur náðst. Í Finnlandi er til dæmis úthlutað að verulegu leyti á grundvelli árangurs undanfarinna ára og í Bandaríkjunum er byggt á samkeppni og jafningjamati.

Áætlað er að LSH verji um 1,5% af ársveltu til vísindarannsókna. Til viðmiðunar fær Karolinska sjúkrahúsið í Stokkhólmi til vísindarannsókna upphæð sem svarar til 12% af árlegri veltu þess Þar af kemur tæpur helmingur eða 5% beint frá sjúkrahúsinu sjálfu eða heilbrigðisyfirvöldum.Samþykkt á fundi framkvæmdastjórnar LSH 24. apríl 2007