Sí- og endurmenntun starfsmanna

Starfsþróun starfsfólks á Landspítala tekur mið af þörfum sjúklingahópa, fléttast inn í allt starf á sjúkrahúsinu með starfsáætlun og framtíðarverkefni þess að leiðarljósi. Starfsþróun ræðst af gildum Landspítala, sérhæfingu deilda og/eða sviða og áhugasviði hvers starfsmanns. Starfsþróun er allt í senn miðlæg, tengd starfi á deild og/eða starfsþróun að eigin vali.

Við upphaf starfs tekur starfsþróun mið af því sem starfsmenn þurfa að tileinka sér til að mæta þörfum spítalans og miðast framboð fræðslu við það. Innan Landspítala teljast námskeið, fræðsla og þátttaka í vinnuhópum til starfsþróunar. Fjöldi námskeiða, fræðsluerinda og annarra námstækifæra stendur starfsfólki Landspítala til boða á hverju ári samkvæmt #námskrá# sem er aðgengileg á innra neti spítalans.

Samkvæmt stefnu Landspítalans í mannauðsmálum, sem kynnt var í ársbyrjun 2017, er áhersla lögð á öflug og samhent teymi starfsfólks og nema í hvetjandi umhverfi: 

Teymisvinna og samskipti
Áhersla er lögð á að þjálfa teymisvinnu stétta, efla samskipti, staðla viðbrögð og æfa tækniatriði til að tryggja árangursríkt starf. Í Örk - klínísku kennslusetri gefst starfsfólki Landspítalans og nemendum, sem sækja þar starfsnám, færi á að æfa sig á sýndarsjúklingum til að auka færni sína í að bregðast við ýmsum aðstæðum sem geta komið upp í raunveruleikanum. Með þjálfun starfsfólks við sýndaraðstæður í Örk er leitast við að tryggja öryggi sjúklinga á Landspítala þar sem hægt er að líkja eftir og æfa viðbrögð við atvikum án þess að það hafi afleiðingar fyrir lifandi fólk.

Sýndarsjúklingar eru tengdir tölvuforriti sem sýnir t.d. öndun, hjartslátt, blóðþrýsting og gildi efna í blóði. Þannig er hægt að líkja eftir ýmsum aðstæðum sem geta komið upp í bráðatilvikum og hvaða áhrif viðbrögð starfsmanna hafa.

Myndbönd um þjálfun í teymisvinnu og samskiptatækni með gagnreyndum aðferðum á Landspítala:

Þverfagleg hermikennsla
SBAR - Staða-Bakgrunnur-Athuganir-Ráðleggingar

Nánari upplýsingar: kennslusetur@landspitali.is 

Námskeið í endurlífgun

Námskeið í endurlífgun standa starfsmönnum Landspítala reglulega til boða og þurfa allir að sækja námskeið í grunnendurlífgun. Starfsmenn sem taka þátt í og stjórna endurlífgunarteymum skulu hafa lokið þjálfun í sérhæfðri endurlífgun ILS (Intensive life support), og ALS (Advanced life support). Fyrir þá sem vinna í barnateymum er gerð krafa um EPALS I og II (European Pediatric Advanced Life Support). Þessu námskeið eru stöðluð skv. leiðbeiningum evrópska endurslífgunarráðsins (ERC), sjá nánar http://www.endurlifgun.is

Grunnendurlífgun (myndband)