Umhverfismál á Landspítala


Það er stefna Landspítala að vera til fyrirmyndar í umhverfismálum og hafa samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi við ákvörðunartöku og í daglegu starfi.

Landspítali er einn stærsti vinnustaður landsins með rúmlega 5 þúsund starfsmenn.  Starfsemin er fjölbreytt og umfangsmikil, allt frá innkaupum og byggingarframkvæmdum til ýmiss konar rannsókna og meðferða í heilbrigðisvísindum. Spítalinn gegnir mikilvægu hlutverki fyrir heilsu fólksins í landinu en starfsemi hans hefur líka í för með sér heilmikil áhrif á umhverfið

Sem dæmi má nefna að daglegt starf á spítalanum krefst mikilla flutninga og ferða,  töluvert fellur til af úrgangi, notuð eru lyf og varasöm efni,  mikið er keypt af vörum og þjónustu , tækjabúnaður krefst mikils rafmagns og notuð eru kynstrin öll af einnota vörum og umbúðum.  Allt hefur þetta áhrif á umhverfi og heilsu með einum eða öðrum hætti.  

Umhverfisstefnunni er markvisst fylgt eftir. Í grænu bókhaldi er haldið er utan um tölur sem tengjast umhverfisþáttum og meðal annars unnið að því að auka flokkun úrgangs, draga úr notkun á einnota vörum, minnka matarsóun, auka vistvæn innkaup og hvetja starfsmenn til að nota vist- og heilsuvæna ferðamáta til og frá vinnu.

Hér fyrir neðan eru upplýsingar um nokkur mikilvæg umhverfismálefni Landspítala, tölur um þau og dæmi.

Viðurkenningar og vottanir Landspítala í umhverfismálum

 • 2017 - Sustainable healthcare organizer of the year 2017 á vegum Bonnier Business Media og Nordic Center for Sustainable Healthcare. 
 • 2016 - Hjólavottun - silfur fyrir Hringbraut og Fossvog, Landakot, Grensás, Ármúla, Vífilsstaði, Tunguháls, BUGL, Klepp og Blóðbankann
 • 2015 - Kuðungur, umhverfisverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins 2014 fyrir framúrskarandi starf að umhverfismálum 
 • 2015 - Svansvottun hjá eldhúsi og matsölum Landspítala
 • 2014 - Samgönguverðlaun Reykjavíkurborgar 2014
 • 2014 - Hjólaskálin - viðurkenning vegna hvatningar til hjólreiða starfsfólks m.a. með uppbyggingu á 
             aðstöðu og samgöngustyrkjum

Svansvottun eldhúss og matsala

 • Eldhús og matsalir fengu 27. mars 2015 Svansvottun, umhverfismerki Norðurlanda, fyrir aðgerðir sínar í umhverfismálum.  Ýmsar þeirra hafa leitt til sparnaðar. 
 • Daglega eru framreiddar um 4.500 máltíðir til starfsmanna, gesta og sjúklinga. 
 • Aukið framboð er af lífrænt ræktuðum mat, 12 tegundir eru í boði reglulega, 7 af þeim eru í boði daglega. 
 • Fleiri umhverfisvottaðar vörur eru notaðar, 99% ræstivara, allur hreinlætispappír, skrifstofupappír og servíettur. 
 • Gestum hefur á sama tíma fjölgað um 30% og ánægja gesta hefur aukist um 50%. 

Flokkun úrgangs

Sorptunnur
 • Árið 2015 féllu til um 3 tonn af úrgangi á degi hverjum frá starfsemi Landspítala og 23% af því fóru til endurvinnslu. Árið 2016 nálgast endurvinnsla 30% eða tæpt tonn á dag. 
 • Sett hefur verið upp flokkunaraðstaða á öllum deildum með skýrum upplýsingum fyrir plast, pappír, pappa og aðra algenga flokka.  Flokkað er í 25 flokka á spítalanum samkvæmt flokkunartöflu (pdf). 
 • Átta sinnum meira fer af pappír til endurvinnslu frá því að flokkun hófst. 
 • Endurnýting hefur verið aukin, m.a. er nú safnað notuðum fötum í þvottahúsi Landspítala sem Rauði krossinn tekur og notuð prenthylki eru send í áfyllingu. 
 • Lífræn flokkun er í eldhúsi og matsölum og sent til jarðgerðar.

Einnota vörur og umbúðir

Vagnyfirbreiðslur
 • Mikið er notað af einnota vörum við m.a. hjúkrun, lækningar, rannsóknir og ýmsan rekstur.
 • Oft er nauðsynlegt að nota einnota vörur m.a. vegna sýkingarvarna. Stundum er þó hægt að skipta þeim út fyrir margnota vörur. Vagnayfirbreiðslur sem voru teknar í notkun 2012 eru til dæmis hagkvæmar og umhverfisvænar. Þær spara bæði háar fjárhæðir og mörg tonn af plasti.
 • Landspítali notaði um 6 tonn af bekkjapappír árið 2013 eða 370 km og það kostaði 2,6 milljónir.  Á barnadeild er ekki notaður bekkjapappír með góðum árangri og sparnaði. Fleiri deildir fylgja nú í kjölfarið.
 • Pappírsnotkun minnkaði um 45% frá 2009 og 2013 vegna ýmissa aðgerða m.a. innleiðingar á prentþjónustu. Prenturum fækkaði á sama tíma úr 1.290 í 291.
 • Frauðplastboxum hefur fækkað um 123.000. Tekin voru í notkun margnota matarbox í matsölum án PA sem spara fé, umhverfi og úrgang.  
 • Áætlað er að minnka enn frekar notkun á einnota vörum, til dæmis frauðglösum og skóhlífum. Fjölmargar hugmyndir frá starfsmönnum liggja fyrir um þetta og ýmsum þeirra hefur þegar verið hrint í framkvæmd á deildum spítalans.  

Samgöngusamningar

 • Byrjað var 1. maí 2014 að gera samgöngusamning við starfsmenn sem ferðast vistvænt.  Um 360 fleiri starfsmenn ferðast síðan vistvænt.  Sumarið 2014 voru rúmlega 1.400 starfsmenn með samgöngusamning eða 28% starfsmanna sem ferðuðust vistvænt. Af þeim töldu 82% samgöngusamninginn hafa góð áhrif á heilsu sína og líðan, samkvæmt könnun. 
 • Við byggingar Landspítala eru hjólagrindur fyrir um 300  hjól auk nokkurra læstra hjólageymslna og þurrkskápa fyrir föt. Öryggismyndavél vaktar stærsta hjólastæðið og þar er einnig loftpumpa og verkfærakassi. Unnið er að frekari úrbótum. 
 • Í september 2014 veitti Reykjavíkurborg Landspítala árlega samgönguviðurkenningu en auk þess fékk Landspítali viðurkenninguna Hjólaskálina fyrir stuðning við hjólreiðar starfsfólks. 
 • Það er heilsusamlegur ferðamáti að ganga, hlaupa eða hjóla og að auki bæði vistvænn og hagkvæmur. Starfsmönnum eru gefin góð ráð í því sambandi, til dæmis bent á gagnlega upplýsingavefi eins og www.hjolreidar.is.
 • Haustið 2016 fengu 10 stærstu starfsstöðvar spítalans hjólavottun.

Minna af varasömum efnum í loft og vatn

 • Spilliefnakassar
  Hættulegur úrgangur, m.a. efnaúrgangur, sóttmengaður úrgangur og rafeindabúnaður, fellur til víða á Landspítala. Unnið hefur verið að því að bæta verklag við meðhöndlun hættulegs úrgangs, að það sé skýrt, í samræmi við löggjöf og innleitt á öllum deildum spítalans. 
 • Aðkeypt ræstiþjónusta er 93% umhverfisvottuð sem felur m.a. í sér að notuð eru umhverfis- og heilsuvæn ræstiefni. 
 • Í eldhúsi og matsölum hefur efnum fækkað úr 26 í 16 og hlutfall umhverfisvottaðra ræsti- og hreinsiefna hefur aukist í 99%. 

Strætó

 • Strætó og Landspítali
  Samkvæmt samgöngukönnun Landspítala 2016 tóku 9% starfsmanna oftast strætó til og frá vinnu, 12% til viðbótar gætu hugsað sér að nota strætó oftar.  
 • Leiðir strætó henta starfsmönnum Landspítala ekki alltaf nógu vel m.a. vegna vaktavinnu um kvöld og helgar. Í mörgum tilfellum getur strætó þó hentað ágætlega. Svona er leiðakerfi Strætó og hér er rauntímakort  sem sýnir hvar vagnarnir eru staddir hverju sinni. 
 • Starfsmönnum Landspítala býðst að kaupa strætókort með afslætti, svokallað samgöngukort. Þannig geta þeir keypt 12 mánaða kort á verði 9 mánaða korts.

Vistvæn innkaup

Vistvæn kaup- rafbíll
 • Landspítali kaupir vörur og þjónustu fyrir um 38 milljónir króna að meðaltali á degi hverjum.  Birgjar eru um 3.000 talsins.
 • Ýmis dæmi eru um að umhverfisskilyrði við innkaup á Landspítala hafi skilað bæði sparnaði og betra umhverfi. Útboð á prentþjónustu leiddi til ýmiss konar hagræðingar og minni pappírsnotkunar. Flutningadeild keypti umhverfisvænan bíl fyrir daglegar sendiferðir sem lækkar eldsneytiskostnað og minnkar losun koltvísýrings verulega . Allur prentpappír sem Landspítali kaupir er umhverfisvottaður og nærri allar ræstingar.
 • Aukin áhersla er á vistvæn innkaup á Landspítala, meðal annars með því að setja skýrar umhverfiskröfur í útboðum um m.a. efnainnihald, orkunotkun, hávaðamörk, loftmengun og endingu 
 • Á árunum 2013-2016 hafa verið sett umhverfisskilyrði í um 20 útboð / örútboð og fjölda verðfyrirspurna. 

Orka og vatn

Rafmagnstengill - jarðtenging

 • Starfsemi Landspítala krefst töluverðrar orku- og vatnsnotkunar. Rafmagnsnotkunin jafngildir notkun um 4.600 heimila og heitavatnsnotkunin um 1.600 heimila. 
 • Kostnaður vegna rafmagns og heits vatns er um 275 milljónir á ári. 
 • Gufuframleiðsla á spítalanum notar eldsneyti sem samsvarar meðaleyðslu um 100 bifreiða. 
 • Orkuúttektir í nokkrum byggingum og úrbætur í kjölfarið skiluðu töluverðum orkusparnaði. 
 • Ætlunin er að minnka notkun á rafmagni um 3% og heitu vatni um 3% frá árinu 2011 til 2013. Unnið er að þessu með úttekt orkunotkunar og orkusparandi aðgerðum í kjölfarið.  

Umhverfisvottun nýs Landspítala

 • Nýr Landspítali - lógó
  Fyrirhugað er að nýr Landspítali uppfylli ýmsar umhverfiskröfur, m.a. um umhverfisvottun BREEM
 • Við hönnun nýs spítala er heilsa og vellíðan notenda í fyrirrúmi og auk þess skapaðar forsendur fyrir því að starfsemin verði sem umhverfisvænust. Þar má nefna áherslu á heilnæmt inniloft, góða hljóðvist, dagsbirtu sem víðast, góðar aðstæður fyrir hjólandi, gangandi og almenningssamgöngur, heilnæm og vistvæn byggingarefni og góða orkunýtingu bygginga. 
 • Á framkvæmdatíma verða gerðar kröfur til verktaka um umhverfisstjórnun sem tryggi að umhverfisáhrif verði sem minnst meðan á framkvæmdum stendur.