Frétt

27. 03 2015

Eldhús og matsalir Landspítala hafa fengið umhverfisvottun

Eldhús - matsalir á Landspítala fá umhverfisvottun - Páll Matthíasson og Kristín Linda Árnadóttir - 27. mars 2015
Eldhús og matsalir Landspítala (ELM) hafa fengið Svansvottun sem staðfestir að þjónustan uppfylli strangar umhverfis- og gæðakröfur. Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, afhenti í dag Páli Matthíassyni, forstjóra Landspítala, staðfestinguna um Svansvottun. Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna.  

Eldhúsið og matsalirnirnir 10 framleiða og selja 4.500 máltíðir á dag fyrir starfsmenn, gesti og sjúklinga spítalans. Tækifærin eru því mörg til að leggja umhverfinu lið sem samræmist vel metnaðarfullri umhverfisstefnu Landspítala.

Um nokkurt skeið hefur verið unnið markvisst að því að gera starfsemina umhverfisvænni.  Fjöldi starfsmanna hefur komið að þeirri vinnu auk þess sem gestir í matsölum hafa lagt sitt af mörkum með aukinni flokkun og margnota matarboxum. Birgjar hafa einnig hjálpað til með því að auka framboð af umhverfisvottuðum hreinsiefnum og pappírsþurrkum, umhverfisvænni ílátum auk þess að flytja inn lífrænt ræktaðar matvörur í magnumbúðum sem áður voru ekki til.

Náðst hefur eftirtektarverður árangur sem skilar sér í betra umhverfi og auknum gæðum:

Minni matarsóun:  Vel er farið með mat, skammtar aðlagaðir og innkaup vel skipulögð. Matarsóun hefur minnkað um 40% síðan 2011 sem þýðir að 20 tonnum minna af mat er hent á ári hverju.
Meira lífrænt ræktað: Boðið er upp á fjölbreyttan og hollan mat úr úrvals hráefni, framboð aukið af grænmeti og fjöldi lífrænt ræktaðra matvara. Notaðar eru 11 tegundir af lífrænt ræktuðum matvörum og 6 þeirra eru í boði daglega. Fjöldi þeirra eykst stöðugt.
Minna plast og einnota:  Boðið eru upp á margnota matarbox eða einnota pappabox og tréfhnífapör fyrir gesti sem vilja taka með sér matinn . Aðrir gestir nota margnota borðbúnað. Plastílát nánast heyra sögunni til. Um 123.000 færri frauðplastbox eru nú notuð á ári hverju og mun minna af öðrum plastílátum og plastáhöldum. 
Meira af umhverfisvottuðum vörum:  Notaðar eru sífellt fleiri umhverfisvottaðar vörur. Yfir 95% ræsti- og þvottaefna eru umhverfisvottuð og allur hreinlætispappír, skrifstofupappír og servíettur.
Meira til endurvinnslu:  Sífellt stærra hlutfall fer til endurvinnslu af því sem til fellur í starfseminni.  Flokkunarstöðvar eru í öllum matsölum og í eldhúsinu er flokkað í sex úrgangsflokka sem fara til endurvinnslu. Allir matarafgangar fara til jarðgerðar en starfsmenn spítalans geta fengið ókeypis moltu sem verður til í jarðgerðinni.
Aðgerðir eldhúss og matsala hafa fallin í góðan jarðveg og þær hafa einnig haft ýmsan óvæntan og jákvæðan ávinning í för með sér fyrir utan það að bæta umhverfið. Þannig hefur gestum matsala fjölgað um 30% sem kaupa mat frá eldhúsinu, ánægja gestanna hefur aukist um 50%, fjölbreytni hefur aukist í úrvali rétta og ýmsar aðgerðanna hafa leitt til umtalsverðs sparnaðar.  

Páll Matthíasson forstjóri: 
„Við erum afar stolt af þessum árangri, sem er afrakstur samstillts verkefnis fjölda fólk. Landspítali er stór stofnun og samfélagsleg ábyrgð hans mikil. Til dæmis hendum við nú 20 tonnum minna af mat á ári hverju og höfum minnkað matarsóun um 40%. Við höldum þessari vegferð áfram og Svansvottunin er okkur mikil hvatning“.

Úr úttektarskýrslu Umhverfisstofnunar vegna Svansvottunarinnar, mars 2015:
"Þið hafið unnið gífurlega gott og mikið starf í kringum Svansvottun ELM og eigið heiður skilið. Starfsemin er stór og viðamikil en niðurstaðan er sú að þið hafið náð vel utan um þá þætti sem Svanurinn gerir kröfu til og náið því Svansvottun með glans."

Veggspjald um umhverfisvottun eldhúss og matsala sem verður hengt upp í matsölum á Landspítala

 

Til baka