Bæklunarskurðdeild B5

BæklunarskurðdeildAðsetur:  Landspítali Fossvogi, 5 hæð – B álma. Inngangur 

Heimsóknartímar: kl. 15:00-17:00 og 19:00-20:00
Símanúmer: 543 7470

Göngudeild bæklunarskurðlækninga er á 3. hæð í G-álmu. Inngangur

Hjúkrunardeildarstjóri:
Ingibjörg Hauksdóttir
Yfirlæknir: Yngvi Ólafsson  

 • Á deildinni er vatnskælivél og kæliskápur fyrir sjúklinga.
 • Setustofa fyrir sjúklinga og aðstandendur er staðsett innst á ganginum og þar borða sjúklingar á matmálstímum og boðið er upp á kaffi fyrir aðstandendur. 
 • Sjónvörp eru á öllum sjúkrastofum.
 • Allir sjúklingar fá mat á deildinni nema þeir séu tímabundið fastandi vegna rannsókna, aðgerða eða sjúkdómsástands. 
 • Sjúklingar borða í setustofu sem staðsett er innst á ganginum. 
Morgunverður: Kl. 8:30-10:30.
Hádegisverður: Kl.12:00-13:00.
Miðdegiskaffi: Kl. 14:30-15:30.
Kvöldmatur: Kl. 17:30-18:30.
Kvöldkaffi: Kl. 19:30
Kvennadeild Rauða kross Íslands rekur verslanir í anddyrum Landspítala.

 Afgreiðslutímar í Fossvogi

Mánudagar til fimmtudagar: kl 9:30-16:00 og 17:00-18:30 
Föstudaga: kl. 9:30-16:00
Laugardag og sunnudag: kl. 13:30-16:00 


 • Hraðbanki er í anddyri á 1. hæð í Fossvogi, sjálfsalar á 2. hæð og við inngang á bráðamóttöku.
 • Sjúklingar eru beðnir um að láta vita ef þeir hyggjast fara í verslunina eða af deildinni í öðrum erindagjörðum.
 • Blóm eru ekki leyfð vegna ofnæmis. 
 • Farsíma má nota en vinsamlega hafið símann stilltan á hljóðlausa hringingu og takið tillit til stofufélaga þegar talað er í síma.
Sjúklingar og aðstandendur geta fengið aðgang að „gestaneti“ spítalans sem er virkt á flestum starfsstöðvum hans. Þannig er hægt að komast í tölvupóstsamskipti, nota samskiptamiðla og vafra á Netinu.

Atriði sem vert er að hafa í huga þegar kemur að notkun á Internetinu: 

Talið ekki um aðra sjúklinga, aðstandendur eða starfsfólk nema með leyfi viðkomandi.
Setjið ekki inn myndir af öðrum, aðstandendum eða starfsfólki nema með leyfi viðkomandi.
Setjið ekki upplýsingar úr sjúkraskrá á Netið.
Virðið friðhelgi einkalífsins.
 

Vinsamlega virðið einkalíf annarra sjúklinga og ræðið ekki það sem þið kunnið að verða áskynja um heilsufar þeirra og hagi.

Allt starfsfólk og nemar eru bundin þagnarskyldu og farið er með málefni sjúklinga af fyllsta trúnaði. Starfsfólki ber að gæta þagnarskyldu um heilsufar sjúklings, ástand, sjúkdómsgreiningar, horfur og meðferð ásamt öðrum persónulegum upplýsingum. Þagnarskyldan nær til allrar vitneskju um sjúklinga, sjúkdóma þeirra, meðferð og annarra persónulegra upplýsinga og helst hún þó að sjúklingur andist.
Aðstoðar- og deildarlæknar annast sjúkdómsgreiningu, stýra lyfjameðferð sjúklinga, gerð meðferðaráætlana og vali á meðferðarúrræðum í samráði við aðrar fagstéttir undir leiðsögn sérfræðilækna. Sérfræðilæknar sinna kennslu aðstoðar- og deildarlækna og hafa umsjón með þeim í daglegu starfi.
Hjúkrunarfræðingar hafa eftirlit með sjúklingum fyrir og eftir aðgerð. Þeir hafa yfirumsjón með allri hjúkrun, sjá um lyfjagjafir, verkjastillingu, fræðslu til sjúklinga og aðstandenda, þeir skipta um umbúðir á sárum, undirbúa útskriftir o.fl.
Sjúkraliðar aðstoða sjúklinga við athafnir daglegs lífs. Þeir mæla lífsmörk, gera verkjamat, og meta næringarástand sjúklinga. Þeir eru leiðandi í þrýstingssára- og byltuvörnum og aðstoða sjúklinga við hreyfingu o.fl.
SjúkraþjálfunSjúkraþjálfari býr yfir sérþekkingu á hreyfingum mannslíkamans, þjálfun og líkamsbeitingu. Starf sjúkraþjálfara er m.a. fólgið í greiningu og meðferð ýmissa sjúkdóma, meiðsla, ofálags eða meðfæddrar fötlunar. Hann sér einnig um fræðslu varðandi orsakir ýmissa einkenna, ráðgjöf og leiðbeiningar. Sjúkraþjálfari stuðlar að andlegri og líkamlegri vellíðan um leið og hann fær fólk til þess að taka ábyrgð á eigin heilsufari.
IðjuþjálfunIðjuþjálfar gegna mikilvægu hlutverki í meðferð, fræðslu og ráðleggingum til sjúklinga. Þeir þjónusta einstaklinga sem eiga erfitt með að takast á við athafnir daglegs lífs eftir slys eða veikindi. Eftir því sem við á er færni skjólstæðings metin við athafnir daglegs lífs (ADL), gerð er skimun á vitrænni getu, aðstæður skjólstæðings metnar svo og hjálpartækjaþörf.
Félagsráðgjafar veita ráðgjöf varðandi réttindamál, búsetuúrræði og færni og heilsumat. Undirbúningur útskriftar er einnig veigamikill þáttur í þjónustu félagsráðgjafa. Leitað er að þjónustuúrræðum sem eru í boði fyrir sjúkling hvort sem hann er að útskrifast heim til sín eða á stofnun. Samstarf við aðrar stofnanir er veita slíka þjónustu er mikið.
Næringarráðgjafar veita fræðslu og ráðgjöf um mataræði. Beiðnir um næringarráðgjöf koma frá læknum og hjúkrunarfræðingum. Næringarráðgjafar veita ráðgjöf um mataræði miðað við sjúkdómsástand og næringarástand.
Sálfræðingar eru kallaðir til eftir þörfum bæði fyrir sjúklinga og aðstandendur.
Sálfræðileg aðstoð beinist að því að bæta líðan sjúklingsins, hjálpa honum að ná sáttum við breytta stöðu, efla aðlögunarhæfni og auka sjálfstraustið. Stuðningur við aðstandendur skiptir hér miklu svo markmið um betri líðan megi nást.

Sjá einnnig kynningarrit um sálfræðiþjónustu spítalans

Áfallamiðstöð LSH veitir sálrænan stuðning og aðstoð við tilfinningalega úrvinnslu áfalls. Tilgangur þjónustunnar er að aðstoða þolendur að takast á við eðlileg streituviðbrögð í kjölfar alvarlegra áfalla. Þeim sem leita til áfallamiðstöðvarinnar er sýnd fyllsta tillitssemi og hlýja og þess gætt að þeim sé ekki mætt með vantrú eða tortryggni. 


Hringja til að hafa samband 
 
 • 543 2085 - fyrirspurnir til áfallamiðstöðvar - opið allan sólarhringinn
 • 543 2000 - afgreiðsla slysa- og bráðadeildar LSH

 

Áföll, áfallastreita, áfallahjálp. Sorg og sorgarstuðningur (PDF)

Prestar og djáknar sinna sálgæslu sjúklinga, aðstandenda og starfsfólks.

Markmið sálgæslu er að liðsinna þeim, sem glíma við sárar tilfinningar og erfiðar tilvistarspurningar tengdar veikindum og alvarlegum áföllum. Þessi þjónusta stendur öllum opin, jafnt sjúklingum sem aðstandendum og starfsfólki spítalans, án tillitis til lífsskoðana eða trúarafstöðu.

Guðsþjónustur eru flesta sunnudaga kl.10:00 á 4. hæð. Þær eru auglýstar sérstaklega.

Sjá nánar um presta og djákna>>

Landspítali sinnir í vaxandi mæli sjúklingum sem eru af erlendu bergi brotnir og ber að tryggja að þjónusta við þá sé í samræmi við lög um réttindi sjúklinga nr. 74/1997. 

Rétturinn til upplýsinga er hluti af grundvallar réttindum sjúklinga. Starfsfólk deilda sjúkrahússins gerir viðeigandi ráðstafanir til að útvega túlk ef þörf er á hverju sinni eða nauðsynlegt reynist.

 


Nemar

Landspítali er háskólasjúkrahús og mikill fjöldi nema í heilbrigðisfræðum og tengdum greinum koma í verklega þjálfun sem er hluti af námi þeirra. Nemar fylgjast með og taka þátt í daglegri meðferð sjúklinga og eru ávallt á ábyrgð og undir handleiðslu leiðbeinenda sinna.

SjúklingafræðslaFræðsla er mikilvægur þáttur í þjónustu við sjúklinga. Með styttri legutíma eykst enn frekar þörf á hnitmiðuðu fræðsluefni. 
Sjúklingar þurfa oft að meðtaka flóknar upplýsingar og skriflegt fræðsluefni er því mikilvægt til að svara spurningum þeirra og aðstandenda. 
Sjúklingar eiga rétt á að fá upplýsingar um þá þjónustu sem þeim og aðstandendum þeirra stendur til boða.

 

Góð fræðsla

Eykur öryggi sjúklinga og sjálfsbjargargetu. Gerir þeim kleift að taka þátt í eigin meðferð og axla raunhæfa ábyrgð á heilsu sinni. Getur dregið úr þörf fyrir endurteknar innlagnir á sjúkrahús.


Sjúklingaráðin 10 >>

Allir sjúklingar eiga að fá armband með nafni og kennitölu. Upplýsingar á armbandinu eru notaðar til staðfestingar þegar lyf eru gefin, við blóðgjafir og hvers kyns rannsóknir og aðgerðir. Stundum þykir fólki nóg um hversu oft er til dæmi spurt um kennitölu, ofnæmi og lyfjanotkun en allt er þetta gert til að tryggja öryggi. Best er ef sjúklingar eru vakandi fyrir þessum vinnureglum og minni á ef ekki er farið eftir þeim. Hjálpaðu okkur að tryggja öryggi þitt.
 • Í aðgerðGerviliður í hné: Aðgerðin er gerð í mænudeyfingu og tekur 1-1/2 klst.
  - vöknun: 4-6klst
 • Gerviliður í mjöðm: Aðgerðin er gerð í mænudeyfingu og tekur um 2 klst
  - vöknun: 4-6klst
 • Verkir eru óhjákvæmilegur fylgifiskur flestra skurðaðgerða Eftir skurðaðgerðir eru flestir með einhverja verki, mismunandi eftir aðgerðum og einstaklingum. Langmestan hluta verkja eftir skurðaðgerðir má stilla með verkjalyfjum og/eða annarri meðferð.
 • Ef þú hefur mikla verki er mjög mikilvægt að draga úr þeim. Þú átt strax að láta vita um sársauka þinn. Með góðri verkjastillingu líður þér betur, þú kemst í betra jafnvægi og nærð fyrr bata. 
 • Gott ráð til að sjá hvernig verkjameðferðin gengur er að átta sig á styrk verkjanna á tölukvarða (sjá mynd). 

Verkjameðferð eftir aðgerð (PDF)

HækjurTilgangur hækjanna er að taka þunga af veika fætinum. Tvær hækjur eru notaðar þegar ekki má stíga í veika fótinn eða þegar tylla má létt í. Ein hækja eða göngustafur getur nægt til stuðnings þegar stíga má í veika fótinn.

Upplýsingarit um hækjur

Klexane er notað til að koma í veg fyrir eða meðhöndla blóðtappa.

Hvernig drögum við úr hættu á spítalasýkingu?

Sjúklingar:
 • Þvo og/eða spritta hendurnar oft.
 • Þvo sér um hendurnar eftir salernisferðir og fyrir máltíðir.
 • Fara fram á að starfsfólk (allar stéttir) sé með hreinar hendur áður en það annast þig.
 • Ef þú ert með súrefni í nös, þvaglegg eða æðaleggi er mikilvægt að fá upplýsingar hjá starfsmönnum um hvernig best er að umgangast slíkt.
Aðstandendur:
 • Þvo og/eða spritta hendur við komu á deild.
 • Aðstandendur ættu ekki koma í heimsókn ef þeir eru með kvef, hósta, niðurgang eða uppköst.
Mósasmit: Bakterían sem kölluð er Staphylococcus aureus er meðal algengustu sýkingavalda í mönnum. MÓSA (Methicillin Ónæmur Staphylococcus Aureus) er afbrigði þessarar bakteríu og er ónæm fyrir mjög mörgum sýklalyfjum. Bakterían getur lifað á húð og í nefi án þess að valda neinum einkennum. Það er ekki fyrr en hún kemst í gegnum varnir líkamans að hún veldur sýkingum. 

Inflúensa: Inflúensa er veirusjúkdómur í öndunarfærum sem gengur í árvissum faröldrum oftast um miðjan vetur. Sjúkdómurinn er yfirleitt mildur en ýmsar sýkingar geta komið í kjölfar hans, svo sem lungnabólga, berkjubólga o.fl. 

Niðurgangur af völdum Clostridium Difficile (PDF): Í þessum bæklingi eru almennar upplýsingar um einkenni og meðferð vegna niðurgangs af völdum bakteríunnar Clostridium difficile. Ef eitthvað er óljóst eða spurningar vakna hvetjum við þig til að leita til hjúkrunarfræðinga og lækna þinna sem munu greiða úr því. 

 
Niðurgangur af völdum nóróveira (PDF): Þetta eru veirur sem valda bráðum sýkingum í meltingarvegi manna. Veikindi af völdum þessara veira eru algeng í samfélaginu. Einkennin eru oftast mild og ganga í langflestum tilfellum sjálfkrafa yfir. Veiran er mjög smitandi og er algengasta orsök fjöldasýkinga í meltingarvegi.

Bakteríur sem komast upp þvagrásina, í blöðru eða jafnvel til nýrna geta valdið þvagfærasýkingum. Yfirleitt er um að ræða bakteríur frá endaþarmi þess sem sýkist. Sýkingin getur verið bundin við blöðru eða blöðruhálskirtil (hjá körlum) eða náð til nýrna. Bakteríur geta verið í þvaginu án þess að fólk hafi einkenni um sýkingu. Sjá upplýsingarit um þvagfærasýkingu

Þrýstingssár er sár sem myndast vegna of mikils eða langvinns þrýstings á húð. Þrýstingurinn veldur blóðþurrð (súrefnisskorti) á svæðinu og kemur í veg fyrir eðlilega blóðrás þar. Fyrsta merki um þrýstingssár er roði á afmörkuðu húðsvæði. Ekki er víst að roðinn valdi sársauka.  Líkami okkar er skapaður til að hreyfa sig og hvílast til skiptis og við erum stöðugt að skipta um líkamsstellingu. Ef þú getur ekki hreyft þig að vild eða ert með skert húðskyn eykst hættan á þrýstingssárum, fyrst og fremst vegna þess hversu auðvelt er að gleyma mikilvægi þess að hagræða sér með vissu millibili.

Sykursýki af tegund 1 er sjúkdómur sem upp kemur vegna þess að framleiðsla insúlíns í brisi minnkar eða hættir algjörlega. Eftir að einstaklingur greinist með sykursýki eru heilbrigðir lífshættir lykilatriði í meðferð sjúkdómsins ásamt eftirliti með blóðsykri og viðeigandi insúlíngjöf.

 

 

Sykursýki af tegund 2 er sjúkdómur sem upp kemur vegna ónógrar virkni og framleiðslu insúlíns í líkamanum. Það geta verið nokkrar ástæður fyrir því að við fáum sykursýki. Meðal þeirra eru erfðir, offita, sérstaklega aukin kviðfita, óhollt mataræði og hreyfingarleysi. Sykursýki verður algengari með aldrinum. Rannsóknir hafa sýnt að þeir sem eru í sérstakri hættu á að fá sykursýki af tegund 2 geta dregið verulega úr líkum á því með því að huga að mataræði og lífsstíl.

Upplýsingarit um sykursýki teg. 2

Meginhlutverk líknarteymisins er að gefa ráð um meðferð einkenna, sálfélagslegan stuðning og umönnun einstaklinga sem eru með lífshættulegan, ólæknandi sjúkdóm á hvaða stigi sem er. Ráðgjöfin nær einnig til fjölskyldunnar.

Sjúkrahúsdvöl á aldrei að vera lengri en nauðsyn krefur og sjúklingar eiga að jafnaði að fá upplýsingar um útskrift innan sólarhrings frá innlögn.

Útskriftartími er kl. 11:00

Áður en sjúklingur útskrifast fær hann meðal annars:

- Fræðslu um

 • Skurðsár
 • Verki og verkjalyf
 • Blóðþynningu
 • Hvíld og hreyfingu
 • Næringu
 • Hættumerki sem þarf að vera vakandi fyrir eftir heimkomu 
- Endurkomutíma ef þess er þörf

- Lyfseðla

 • Fyrir lyfjum sem á að taka, skammtastærðir og tímalengd ef við á. Lyfseðlar eru sendir rafrænt í lyfjagátt og er hægt að leysa út í hvaða apóteki sem er.
 • Ef endurnýja þarf lyfseðla síðar er það að öllu jöfnu hlutverk viðkomandi heilsugæslustöðvar eða læknastofu að sjá um slíkt.

 

Iðjuþjálfar og sjúkraþjálfarar sjá um að sækja um hjálpartæki til Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) ef skjólstæðingur á rétt á þeim skv. reglugerð.
Í flestum tilfellum þarf skjólstæðingur að nálgast tækin sjálfur. 

Ef hann á ekki rétt á hjálpartækjum frá SÍ geta iðju- eða sjúkraþjálfarar veitt upplýsingar um hvar hægt er að kaupa eða leigja hjálpartæki.

Dæmi um hjálpartæki eru:

 • Sokkaífæra
 • Griptöng
 • Salernisupphækkun 
 • Baðhjálpartæki
 • Stoðir við salerni og rúm
 • Sessa
 • Göngugrind
 • Hjólastóll
 • Vinnustóll
 • Sjúkrarúm
 • Öryggiskallkerfi/-hnappur

Útskriftarfræðslubæklingar:

 

Þegar heilsan bilar og færnin til að sjá um sig minnkar er hægt að sækja um margvíslega aðstoð til að halda áfram að búa heima.

Má þar nefna:
 • heimaþjónustu
 • heimahjúkrun
 • dagþjálfun
 • akstursþjónustu 
 • heimsendan mat
 • hvíldarinnlagnir 
Mikilvægt er að byrja strax að undirbúa heimferð.

Heimahlynning: 

Heimahlynning Landspítala er sérhæfð hjúkrunar- og læknisþjónusta og er ætluð sjúklingum sem eru með erfið einkenni vegna langvinnra sjúkdóma. Hlutverk þjónustunnar er að gera skjólstæðingum kleift að dvelja heima eins lengi og aðstæður leyfa. 

Sjá einnig upplýsingar á vefsíðu heimahlynningar

Sjúkrahótelið nýtist m.a. þeim sem dvalið hafa á sjúkrahúsi sem liður í frekari endurhæfingu og bata. Auk almennrar hótelþjónustu er gestum veitt hjúkrun og ráðgjöf vegna heilsufarsvanda og þeim liðsinnt við að sækja heilbrigðisþjónustu. Dvöl er háð tilvísun lækna og hjúkrunarfræðinga á LSH eða heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni.Sjúklingar sem dvelja á sjúkrahóteli skulu vera sjálfbjarga með að komast fram úr rúmi og eiga sjálfir að geta séð um athafnir daglegs lífs. Hægt er að fá létta aðstoð, t.d. við böðun og aðstoð við lyfjatöku og sáraskipti. Sjúklingar þurfa að hafa með sér á sjúkrahótelið öll hjálpartæki sem þeir þurfa að nota svo sem hjólastóla, göngugrindur og hækjur. Það sama gildir um öll lyf. Hægt er að fá sjúkraþjálfun á hótelinu.

Upplýsingar um sjúkrahótel

 • Eir
  Brotaendurhæfing er fyrir einstaklinga 67 ára og eldri sem hlotið hafa beinbrot, þurft liðskipti og/eða eiga við stoðkerfisvandamál að stríða. Einstaklingar koma á deildina eftir að bráðameðferð er lokið á LSH. Endurhæfingartíminn er einstaklingsbundinn og miðast við færni og sjálfsbjargargetu einstaklingsins. Sjá nánari upplýsingar á heimasíðu Eir.is
 • Landakot
  Markmið er að veita öldruðum sem þjást af margs konar langvinnum sjúkdómum greiningu, meðferð og endurhæfingu. Einnig að auka hæfni einstaklingsins til þess að takast á við athafnir daglegs lífs og/eða auka líkamlega, andlega og félagslega færni þeirra. Þurfi sjúklingurinn aðstoð eftir að heim er komið, svo sem heimahjúkrun eða heimilishjálp, er hún skipulögð fyrir útskrift af starfsfólki deildarinnar. Sjá nánari upplýsingar á vef öldrunarþjónustu
 • Grensás  
  Deildin sinnir fjölbreyttum hópi sjúklinga sem eiga það sameiginlegt að hafa tapað færni, tímabundið eða varanlega, vegna slysa eða veikinda. Stundum er um að ræða marga sjúkdóma samtímis. Markmið endurhæfingar er að gera einstaklinga eins sjálfbjarga líkamlega, andlega og félagslega og geta leyfir. Sjá vef Grensásdeildar
 • Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands 
  - Liðskiptaendurhæfing: Markmið meðferðarinnar er að auka líkamlega færni og þrek, draga úr verkjum og bæta andlega líðan. Einnig að auka hæfni til að lifa sem eðlilegustu lífi og auka lífsgæði. Veittur er stuðningur til varanlegra lífsstílsbreytinga og hvatning til sjálfshjálpar. Sjá nánari upplýsingar á vef Heilsustofnunar Náttúrulækningafélags Íslands
 • Öldrun Á undanförnum árum hefur rýmum á dvalarheimilum fækkað og aukin áhersla verið lögð á þjónustu inni á eigin heimili. Opinbera stefnan er að fólk geti búið á eigin heimili með viðeigandi þjónustu þar til þörf er fyrir búsetu á hjúkrunarheimili. 

Færni- og heilsumat í hjúkrunarrými er ferli sem fólk þarf að ganga í gegnum áður en það getur farið til varanlegrar búsetu á hjúkrunarheimili. Nánari upplýsingar um færni og heilsumat

Á Landspítala er starfandi útskriftarteymi sem er starfsfólki, sjúklingum og aðstandendum til ráðgjafar og aðstoðar við flóknar útskriftir. Til þeirra teljast útskriftir þar sem útvega þarf og samhæfa þjónustu fleiri en eins aðila, þar sem færni- og heilsumat í vist- eða hjúkrunarrými er forsenda útskriftar og þar sem grípa þarf til sérhæfðra og sérstakra úrræða. Sjá nánari upplýsingar um útskriftarteymið.

Á Vífilsstöðum eru sjúklingar sem lokið hafa meðferð og endurhæfingu á Landspítala, og bíða varanlegrar vistunar á hjúkrunarheimili.  Sjá nánar hér.

Meginviðfangsefni

 • Þjónusta við sjúklinga sem fara í hrygg- eða liðskiptaaðgerðir 
 • Þjónusta við sjúklinga sem fara í aðgerðir vegna áverka á stoðkerfi  

Sjúklingar sem leggjast inn á deildina koma frá bráðadeild, dagdeild skurðlækninga eða gjörgæsludeild. 

Deildin er legudeild með 18 rúmum. 

Starfsfólk deildarinnar leggur áherslu á góð samskipti við sjúklinga og fjölskyldur þeirra og að veita greinargóðar upplýsingar um sjúkdómsástand, rannsóknir, meðferð, hjúkrun og batahorfur.