Dagdeild skurðlækninga 13D

 
Aðsetur:  
Aðalbygging Hringbraut, 3. hæð – D álma. Inngangur
Símanúmer: 543 7480
Opið: Mánudaga til fimmtudaga kl. 07:00-19:00 og föstudaga kl. 07:30-19:00.
Heimsóknartímar: Eftir samkomulagi
Hjúkrunardeildarstjóri: Elín María Sigurðardóttir  

Á dagdeild skurðlækninga er tekið á móti sjúklingum sem eru að leggjast inn til skurðaðgerðar á Landspítala Hringbraut. Sjúklingar koma á deildina að morgni aðgerðardags og þar fer fram undirbúningur fyrir aðgerð.

Við Hringbraut eru aðgerðir á kviðarholi, þvagfærum, hjarta- og brjóstholi og augum. Sjúklingar sem ekki þarfnast innlagnar á legudeild eftir aðgerð koma aftur á dagdeildina eftir skurðaðgerðina til að jafna sig áður en þeir útskrifast heim.  Aðrir sjúklingar fara á legudeildir eftir aðgerð. 

Dagdeildin tekur einnig við sjúklingum sem leitað hafa á bráðamóttöku í Fossvogi og þurfa frekari skoðun og mat. Margir útskrifast heim að kvöldi en aðrir þarfnast bráðrar skurðaðgerðar og leggjast í framhaldinu inn á legudeild.

Á dagdeild koma einnig þeir sjúklingar sem þurfa á styttri meðferð að halda og geta farið heim samdægurs, til dæmis eftir lyfjagjöf, verkjameðferð,  ástungur og aftöppun á vökva í kviðarholi.

Netsamband.  Sjúklingar og aðstandendur geta fengið aðgang að „gestaneti“ spítalans sem er virkt á flestum starfsstöðvum hans. Þannig er hægt að komast í tölvupóstsamskipti, nota samskiptamiðla og vafra á Netinu. 

Atriði sem vert er að hafa í huga um notkun á Netinu: 


Talið ekki um aðra sjúklinga, aðstandendur eða starfsfólk nema með leyfi viðkomandi.
Setjið ekki inn myndir af öðrum, aðstandendum eða starfsfólki nema með leyfi viðkomandi.
Setjið ekki upplýsingar úr sjúkraskrá á Netið.
Virðið friðhelgi einkalífsins.

 

Vinsamlega virðið einkalíf annarra sjúklinga og ræðið ekki það sem þið kunnið að verða áskynja um heilsufar þeirra og hagi.