Líknardeild Kópavogi

Líknardeildin í Kópavogi
Kópavogsbraut 5-7
200 Kópavogur 

 

Símar: 543 6602 /543 6605

Staðsetning deildarinnar á korti
Minningarkort líknardeildar og heimahlynningar

Deildarstjóri er Dóra Halldórsdóttir
Yfirlæknir er Valgerður Sigurðardóttir
Sími líknardeildar er 543 6602 og 543 6605

Líknardeildin í Kópavogi er hugsuð fyrir tímabundna innlögn fólks með ólæknandi, langt genginn sjúkdóm og skertar lífslíkur þar sem læknanlegri meðferð hefur verið hætt og öll meðferð (krabbameinsmeðferð eða önnur) miðast að því að fyrirbyggja eða lina einkenni og draga úr líkamlegri, sálfélagslegri og andlegri þjáningu. Megin markmið er að bæta lífsgæði sjúklinganna og fjölskyldna þeirra.

Starfið á líknardeildinni grundvallast á skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) frá 2002 um líknarmeðferð:

Líknarmeðferð miðar að því að bæta lífsgæði sjúklinga með lífshættulega sjúkdóma og felst í að fyrirbyggja og draga úr líkamlegri, sálfélagslegri og andlegri þjáningu sjúklinga og fjölskyldna þeirra. Líknarmeðferð á við snemma í sjúkdómsferlinu samhliða annarri meðferð (krabbameinslyfjum og geislum) sem notuð er til að lina einkenni en jafnframt lengja líf.

Á líknardeildinni er heimilislegt umhverfi og reynt að mæta þörfum sjúklings og fjölskyldu hans eins og framast er unnt. Veitt er læknis- og hjúkrunarþjónusta, hæfing og sálgæsla sem og félagsráðgjöf og annar stuðningur ef þörf er á. Deildin skiptist í legudeild, fimm daga deild, dagdeild og göngudeild. Heimahlynning hefur aðsetur í sama húsi
Áhersla er lögð á teymisvinnu og fjölskylduhjúkrun þar sem unnið er markvisst að því að veita heildræna einstaklingsmiðaða þjónustu til skjólstæðinga og fjölskyldna þeirra og starfa hinar ýmsu starfsstéttir náið saman. Helstu ástæður innlagna á deildina eru meðferð einkenna og meðferð við lok lífs.

Almennur heimsóknartími á líknardeildinni er frá kl. 15:00-16:30 en er sveigjanlegur fyrir nánustu aðstandendur og vini. Taka þarf tillit til þess að á morgnana fá flestir sjúklingar aðstoð við sjálfsumönnun/aðhlynningu, matartími er frá kl. 11:30-12:30, kvöldmatur 17:30-18:30 og margir sjúklingar vilja hvíla sig eftir matinn. Útidyrahurðum er læst á kvöldin en hægt er að hringja í síma 543-6602 ef komið er utan þess tíma. Reynt er að hafa ekki mikinn gestagang eftir kl. 21.

Mælst er til þess að fjöldi heimsóknargesta sé innan skynsamlegra marka hjá hverjum og einum og mikilvægt er að gefa nánustu aðstandendum rými með sjúklingnum. Börn eru að sjálfsögðu velkomin en hafa þarf í huga að þau valdi ekki truflun á deildinni. Oft er betra að þau stoppi stutt við í einu.
Öll herbergi eru einbýli þannig að aðstandendur geta verið hjá sjúklingi yfir daginn ef þörf er á og möguleiki er á að gista yfir nótt á bedda eða hægindastól á stofu sjúklings. Nánustu aðstandendur geta fengið keyptan mat úr eldhúsi Landspítala en panta þarf hádegismat fyrir kl. 10:00 að morgni og kvöldmat fyrir kl. 13:30. Starfsfólk í eldhúsi og ritari sér um pöntun og tekur á móti greiðslu.

Sjúklingar hafa oft lítið úthald og þurfa heimsóknargestir því að haga lengd heimsóknar með tilliti til þess og stoppa stutt. Algengt er að sjúklingar þoli illa sterka lykt t.d. af lyktarsterkum blómum (liljum), reykingum, ilmvatni eða rakspíra og er mikilvægt fyrir heimsóknargesti að huga að því.

Mælst er til þess að aðstandendur hafi farsíma sína stillta á hljóðlátt (silence) og tali ekki í síma á gangi og í setustofu deildarinnar. Hægt er að fara í fundarherbergi, bókarskot undir stiga, aðstandendaherbergi eða út.

Taka þarf tillit til þess að sjúklingar sem eru mikið veikir óska oft eingöngu eftir heimsóknum frá sínum nánustu fjölskyldumeðlimum. Þetta kemur heimsóknargestum stundum á óvart en ætti ekki að taka persónulega. Óskir sjúklings þarf að virða.

Þegar um mikið veika sjúklinga er að ræða verða samræður oft erfiðari en þýðir þó ekki að heimsóknargestir ættu að hætta að koma. Nærvera er flestum mikilvæg og geta sjúklingar notið nærveru gesta, fundist gott að heyra í þeim þó svo að sjúklingur eigi erfitt með að taka þátt í samræðum. Varast ber þó að þreyta sjúkling. Ef heimsóknargestir eru í vafa hvort þeir eigi að heimsækja sjúkling ættu þeir að vera í sambandi við fjölskyldu hans eða starfsfólk líknardeildar í síma 543 6602 eða 543 6605.
Maturinn á líknardeildinni kemur frá eldhúsi Landspítala. Hádegismatur er kl. 11:30-12:30, kvöldmatur kl. 17:30-18:30. Þess á milli er kaffitími um kl. 15:00 og kvöldhressing um kl. 20:00. Tími morgunmatar er sveigjanlegur. Aðstandendum er velkomið að koma með mat að heiman fyrir sjúkling. Möguleiki er að geyma merktan mat í ísskáp. Aðstandendur hafa aðgang að ísskáp og eldhúsi sem sérstaklega er ætlað aðstandendum.
Líknardeildin í 15 ár 2014

Líknardeildin hóf starfsemi í apríl 1999. Henni var komið á fót með sameiginlegu átaki Landspítala (LSH) og Oddfellowreglunnar á Íslandi sem ákvað í tilefni af 100 ára afmæli reglunnar að veita fé til uppbyggingar líknardeildar í Kópavogi. Í húsnæði samhliða legudeildinni er dag- og fimm daga deild sem og göngudeild sem opnaðar voru september 2007, einnig með stuðningi Oddfellowreglunnar.
Viðmið fyrir þjónustu
Sólarhringsdeild
5 daga deild
Dagdeild
Göngudeild
Frá innskrift til útskriftar
Hvað þarf að hafa með sér
Aðstaða
Þátttaka, virkni, ábyrgð
Fjölskyldur
Heimsóknir
Reykingar