Kvenlækningadeild 21A

Kvenlækningadeild 21A er í senn dag- og legu- og bráðamóttökudeild fyrir konur með bráða kvensjúkdóma og konur sem þurfa skurðaðgerð vegna góðkynja eða illkynja sjúkdóma í grindarholi og brjóstum. Starfrækt er tilvísunarbráðamóttaka kvenna eftir kl: 16:00 virka daga og allan sólarhringinn um helgar og aðra almenna frídaga.

Staðsetning: Kvenlækningadeild 21A er á 1. hæð í A- og B álmu kvennadeildahússins
Deildin er opin alla daga, allan sólarhringinn.
Heimsóknartími deildarinnar er 18:00–20.00

Deildarstjóri: Hrund Magnúsdóttir hrundmag@landspitali.is
Yfirlæknir: Kristín Jónsdóttir kjonsd@landspitali.is
Símar:
Skiptiborð Landspítala 543 1000

Helstu aðgerðir sem framkvæmdar eru á deildinni eru keiluskurðir, kviðspeglanir, kviðskurðir, legnám, aðgerðir vegna blöðru- og endaþarmssigs, fóstureyðingar og útsköf.
Einnig eru framkvæmdir fleygskurðir á brjóstum, brottnám brjósta og uppbyggingar á brjóstum.
Á deildinni eru 24 rúm.

Konur sem greinst hafa með illkynja sjúkdóma í kvenlíffærum eiga greiðan aðgang að deildinni eftir aðgerð og einnig meðan á krabbameinslyfjameðferð stendur.

Bráðamóttaka kvenna og göngudeildir

Mikilvægt er að hafa samband við heilsugæslustöð eða lækni áður en komið er á bráðamóttöku kvenna þar sem nauðsynlegt er að hafa tilvísun frá lækni. Tilvísunar er ekki þörf ef um er að ræða blæðingu eða verki á fyrstu 3 mánuðum meðgöngu.

Á móttökudeild kvenna er bráðaþjónusta fyrir kvensjúkdóma, krabbameinslækningar kvenna og þær sem þurfa að leita til kvennadeildar innan 14 daga frá aðgerð. Einnig er veitt bráðaþjónusta vegna vandamála á fyrsta þriðjungi (fyrstu 12 vikum) meðgöngu og móttaka vegna fóstureyðinga.

Getnaðarvarnaráðgjöf er á staðnum. Göngudeildarþjónusta kvensjúkdóma lækna er einnig staðsett á móttökudeild.

Ýmsar smáaðgerðir eru gerðar á móttöku kvennadeildar s.s. keiluskurðir í deyfingu.

Staðsetning: Bráðamóttökudeild kvenna er á 1. hæð í B-álmu kvennadeildahússins.
Deildin er opin virka daga frá 8 - 16.
Frjósemistímabil kvenna spannar yfir 30 ár og ekki er óalgengt að ótímabær þungun verði einhvern tíma á þessu tímabili. Það getur gerst fyrir alla og stundum þurfa pör eða kona að taka ákvörðun um að enda þungunina. Á Íslandi er löggjöf sem heimilar að enda þungun upp að 12. viku nema sérstakar aðstæður séu til staðar. Fóstureyðingar eru gerðar á sjúkrastofnunum og flestar á kvennadeild Landspítalans.

Ef þú ert að íhuga að enda þungun þá getur þú leitað til kvennadeildar Landspítalans.

Skref 1: Staðfesta þungun með þungunarprófi.

Skref 2: Hringja í símsvara kvennadeildar 543-3600
 • Leggja inn skilaboð þar sem þarf að taka fram nafn, kennitölu og símanúmer
 • Hringt verður til baka innan 48 klst. virka daga á milli 13 og 16. vinsamlega hafið símann við hendina.
 • Æskilegt er að vita hvenær fyrsti dagur síðustu blæðinga var.
Fóstureyðingu er hægt að framkvæma á tvenns konar hátt, með lyfjum eða aðgerð og það fer eftir meðgöngulengd hvor leiðin er valin.Fóstureyðing með lyfjum.

Fóstureyðing með lyfjum er valin þegar meðgöngulengd er innan við 9 vikur. Hægt er að byrja meðferðina við 6. viku þegar lifandi fóstur hefur verið staðfest með sónarskoðun. Meðferðin getur oftast hafist að læknisskoðun lokinni. Fóstureyðing með lyfjum er 3ja daga meðferð. Meðferðin krefst ekki innlagnar en konu er fylgt eftir af hjúkrunarfræðingi.

Nánar um lyfjameðferð:

Fóstureyðing með aðgerð. 

Frá 9. -12. viku er mælt með aðgerð. Eftir læknisskoðun fær konan tíma í aðgerð sem getur orðið að nokkrum dögum eða viku liðinni. Innlögn er að morgni aðgerðardags og útskrift samdægurs. Aðgerðin er gerð í stuttri svæfingu. Yfirleitt er ekki þörf á frekari eftirliti þegar um aðgerð er að ræða.

Nánar um aðgerð:

Á öllum tímum og í öllum samfélögum hafa einstaklingar jafnt sem pör stundum ekki vilja, getu eða aðstæður til að ala barn. Fóstureyðingar eru því nauðsynlegar til að aðstoða fólk í þessum aðstæðum.
Ráðgjöf félagsráðgjafa.

Félagsráðgjafar á kvennadeildinni hafa verið konum til aðstoðar varðandi fóstureyðingar í rúm 40 ár, frá því að núverandi löggjöf tók gildi. Eðli aðstoðarinnar hefur verið að styðja konuna og/eða parið í sínu ákvörðunarferli. Félagsráðgjafar taka ekki ákvörðun fyrir konuna eða parið.
Af hverju að fara í ráðgjöf? 

Allir eru velkomnir til félagsráðgjafa á kvennadeildinni í samtal. Nú starfa þrír félagsráðgjafar á kvennadeildinni. Félagsráðgjafar vinna eftir heildarsýn og virðingu við einstaklinginn þar sem honum er veitt hlutlaus ráðgjöf og stuðningur í erfiðum aðstæðum. Enginn getur tekið þessa ákvörðun fyrir aðra manneskju en oft er gott að tala við hlutlausan aðila sem getur hjálpað við að skilja kjarnann í aðstæðunum. Stundum er parið ekki sammála hvaða ákvörðun á að taka og þá er nauðsynlegt að koma að ræða við félagsráðgjafa. Ef um er að ræða andlega vanlíðan þá er gott að koma og ræða við félagsráðgjafa sem hefur sérþekkingu á hvernig best er að aðstoða þegar þung ákvörðun bætist við vanlíðan sem fyrir er. Ekki þarf að greiða fyrir viðtalið hjá félagsráðgjafa.

Oftast kemur konan eða parið í viðtal við félagsráðgjafa þegar hún/þau eru í ákvörðunarferlinu, áður en þau fara í læknisskoðun á kvennadeildinni. Stundum nægir eitt viðtal en stundum eru þau fleiri, það er ákveðið í samráði við konuna/parið. Stundum óska konan/parið eftir viðtölum eftir fóstureyðinguna og er það sjálfsagt. 

Andleg líðan eftir fóstureyðingu

Það er ljóst að enginn vill þurfa að taka svona ákvörðun, en stundum eru aðstæður þannig að þó að vilji sé fyrir hendi þá bjóða aðstæður ekki upp á barn. Í viðamikilli yfirlitsgrein um rannsóknir á andlegri líðan kvenna sem þurfa að fara í fóstureyðingu er sýnt fram á að 40-45% kvenna upplifa kvíða og vanlíðan á meðan þær eru að ákveða hvort þær ætla að enda meðgönguna eða halda henni áfram. En mánuði eftir fóstureyðingu hefur bæði kvíði og vanlíðan marktækt minnkað, í 8-32% eftir rannsóknum (Bradshaw og Slade 2003). Að taka þessa ákvörðun krefst þess að viðkomandi kona eða par þurfa að skoða vel og vandlega aðstæður sínar og byggja ákvörðun sína á eigin mati á aðstæðunum.

Langtímarannsóknir hafa sýnt fram á að hjá andlega heilsuhraustum konum fylgi andleg vanlíðan almennt ekki eftir fóstureyðingu , en ef konan hefur undirliggjandi kvíðaröskun eða þunglyndi er það áhættuþáttur fyrir langtíma vanlíðan (Bradshaw o.fl. 2003). Einnig hefur komið fram að konur finna fyrir létti eftir fóstureyðinguna (Bradshaw o.fl.2003), en þær geta átt erfitt með að leyfa sér það vegna fordóma í samfélaginu.

Skilt efni

Bradshaw, Z.og Slade,P. (2003). The effects of induced abortion on emotional experiences and relationship: A critical review of the literature. Clinical psychology review, 23, 929-958.
Lög um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerð. nr. 25/1975

Panta tíma

Þú getur pantað tíma í síma 543 3266 eða 543 3265 alla virka

Staðsetning 

Ráðgjöf um getnaðarvarnir er staðstett á kvennadeild Landspítalans á 1. hæð. Þar er biðstofa. 

Móttakan er opin Miðvikudaga kl. 16:00 - 19:00.

Upplýsingar 

Þú getur hringt í síma 543 3266 eða 543 3265 ef þú ert með einhverjar spurningar og það verður haft samband við þig næst þegar móttakan er opin. 

Ráðgjöf um getnaðarvarnir er einkum ætluð:
 • Konum á öllum aldri sem hafa farið eða eru að fara í þungunarrof (fóstureyðingu) á kvennadeild Landspítalans 
 • Stúlkum 20 ára og yngri. 

Þeir sem mæta í ráðgjöfina er velkomið að koma með öðrum eins og með móður, vinkonu eða kærasta/maka. Í ráðgjöfinni veitir sérfræðingur í kynheilbrigði fræðslu og ráðgjöf um getnaðarvarnir 

Áherslur ráðgjafar Tilgangur ráðgjafar er að finna þá getnaðarvörn sem best getur hentað þér/ykkur 
 • Spurt er um þætti er varða heilbrigði sem skipta máli við val á getnaðarvörn 
 • Lögð er áhersla á upplýsta ákvörðun um þá getnaðarvörn sem best getur hentað og byggir á þeim upplýsingum sem eru veittar í ráðgjöfinni
 • Fjallað er um þær getnaðarvarnir sem helst koma til greina miðað við heilbrigðisupplýsingar 
 • Skoðaðar eru sérþarfir hvers og eins í sambandi við val á getnaðarvörn
 • Veittar eru upplýsingar um þá getvaðarvörn sem valin er
 • Ráðgjöfin er veitt í algjörum trúnaði