Meðferð og þjónusta vegna nauðgana

Læknisskoðun og meðferð, þar með talin kvenskoðun

 • Er fyrst og fremst til að tryggja velferð brotaþola.
 • Tekin eru sýni til að útiloka hugsanlegar sýkingar og þungun.
 • Áverkar sem brotaþoli hefur fengið eru metnir og meðhöndlaðir eftir alvarleika þeirra.
 • Lyf eru gefin til að fyrirbyggja mögulegar sýkingar og einnig þungun.

Réttarlæknisfræðileg skoðun og taka og varðveisla sakargagna

 • Gerð er nákvæm læknisskýrsla þar sem frásögn brotaþola af atburði er skráð, metin andleg líðan og skráð niður lýsing af útliti og ástandi brotaþola við komu.
 • Gerð nákvæm líkamsskoðun þar sem allir áverkar eru skoðaðir og skráðir.
 • Tekin eru stroksýni til DNA-rannsókna eftir eðli málsins.
 • Fatnaður og önnur sakargögn eru tekin og geymd.
 • Teknar eru ljósmyndir af sýnilegum áverkum.

Ráðgjöf og stuðningur læknis og hjúkrunarfræðings varðandi eftirmeðferð líkamlegra áverka, lyfjameðferðar og upplýsingagjöf um kreppuráðgjöf og viðtöl vegna andlegrar vanlíðunar.

Aðhlynning og dvöl á staðnum ef þörf krefur vegna líkamlegra áverka, andlegrar vanlíðunar, félagslegra vandamála í allt að sólarhring eða lengur.
Ef þörf krefur: Tilvísun til annarra úrræða eins og Kvennaathvarfs, Stígamóta, Konukots, geðdeildar LSH, Félagsþjónustunnar, SÁÁ o.fl.

Þjónusta sálfræðings

 • Kreppuráðgjöf, bæði fyrir brotaþola og hennar/hans nánustu.
 • Sálfræðingur / ráðgjafi veitir brotaþola andlegan stuðning, ráðgjöf og hjálp við tilfinningalega úrvinnslu og eru viðtölin brotaþola að kostnaðarlausu.
 • Sálfræðingur hefur samband við brotaþola og einnig aðstandendur barna innan 18 ára aldurs og ákveður í samvinnu við aðila viðtöl og frekari eftirfylgd, innan eða utan neyðarmóttöku.

Í kjölfar mats sálfræðings á andlegri líðan brotaþola er boðið upp á áframhaldandi úrvinnslu og meðferð eftir áfallið, aðstoð við sálfélagslega þætti í samvinnu við brotaþola og unnið er að styrkingu bjargráða og stuðningskerfa.
Sálfræðingur / ráðgjafi tilkynnir til barnaverndaryfirvalda öll mál þar sem brotaþoli er innan 18 ára aldurs. Barnavernd sér um eftirfylgd mála barna innan 18 ára aldurs í samvinnu við neyðarmóttöku.

Þjónusta lögmanns

 • Allir brotaþolar eiga rétt á viðtali við lögmann / réttargæslumann, hvort sem kært er í málinu eða ekki og er það að kostnaðarlausu.
 • Lögmaður er brotaþola til halds og trausts og veitir lögfræðilega ráðgjöf um skýrslutökuna, meðferð sakargagna, meðferð málsins í réttarkerfinu og dómsuppkvaðningu.
 • Lögmaður er viðstaddur skýrslutöku hjá rannsóknarlögreglu ef brotaþoli hefur ákveðið að kæra málið.
 • Einnig undirbýr lögmaður kröfu um miskabætur fyrir brotaþola og fylgist með framvindu málsins í réttarkerfinu.

Endurkomutímar á neyðarmóttökuna

 • Eftir þörfum eru boðnir endurkomutímar. 
 • Sami hjúkrunarfræðingur sem tók á móti brotaþola í fyrstu komu hittir brotaþola í endurkomutímum. 
 • Eftirfylgd er t.d. vegna frekari sýnatöku, þungunar og áverkaskoðunar til að meta líkamlega áverka og fylgja eftir meðferð þeirra. Fer það eftir alvarleika þeirra. 
 • Stundum er þörf fyrir frekari greiningu og myndatökur af áverkum. 
 • Metin er líkamleg og andleg líðan brotaþola og þörf fyrir frekari aðstoð fagaðila. 
 • Skráð er og útfyllt endurkomuskýrsla um kvartanir brotaþola. 
 • Blóðsýnatökur vegna mögulegra smitsjúkdóma (lifrarbólgu B+C og HIV) þarf að endurtaka aftur eftir 3 mánuði og 6 mánuði til að fá áreiðanleg svör. Brotaþoli ber ábyrgð á því að sinna þeirri eftirfylgd sjálf/sjálfur eða forráðamenn barna. 
 • Blóðsýnatökur eru gerðar á húð- og kynsjúkdómadeild og á heilsugæslustöðvum að kostnaðarlausu og án þess að tiltaka þurfi ástæðu fyrir beiðni þar.