Um eitrunarmiðstöð

Eitrunarmiðstöðin rekur símaþjónustu allan sólarhringinn þar sem gefnar eru ráðleggingar um viðbrögð við eitrunum og upplýsingar um eiturefni. Þessi þjónusta er starfrækt fyrir alla landsmenn. Mikilvægt er að brugðist sé skjótt og rétt við eitrunum og í mörgum tilfellum má leysa málið með leiðbeiningum frá starfsfólki eitrunarmiðstöðva án þess að til frekari meðferðar þurfi að koma.

Símaráðgjöf - Á eitrunarmiðstöðinni er símaþjónusta allan sólarhringinn í síma 543 2222
Eitrunarmiðstöðin tekur þátt í forvarnarstarfi með þátttöku í ýmsum verkefnum sem miða að því að koma í veg fyrir eitranir.
Eitrunarmiðstöðin safnar upplýsingum um eitranir á Íslandi til að vera betur í stakk búin til að veita góða og markvissa þjónustu.
Eitrunarmiðstöðin stundar rannsóknir á eitrunum.
• Eitrunarmiðstöðin heldur fræðslufyrirlestra um eitranir fyrir heilbrigðisstarfsmenn og aðra sem eftir því óska.
• Sérfræðingar eitrunarmiðstöðvarinnar koma að kennslu heilbrigðisstétta við Háskóla Íslands í klínískri eiturefnafræði
• Eitrunarmiðstöðin er í norrænum samtökum eitrunarmiðstöðva

Eitrunarmiðstöðin hefur verið starfrækt á Landspítala Fossvogi síðan 1. desember 1994.
Á umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Ríó 1992 voru samþykkt tilmæli til ríkisstjórna allra landa um að starf eitrunarmiðstöðva yrði eflt og þær settar á stofn þar sem þær væru ekki fyrir. Áhugi á að stofna slíka stöð hafði verið fyrir hendi hér á landi um nokkurt skeið og segja má að þessi tilmæli svo og gildistaka EES samningsins hér á landi, hafi orðið til þess að eitrunarmiðstöð var stofnuð á Íslandi. 

Ársskýrslur