Nokkur góð ráð

Hvað er hægt að gera á heimilum til að koma í veg fyrir eitranir?

  • Við kaup á hreinsiefnum og öðrum efnum sem geta verið hættuleg er mikilvægt að athuga merkingar á umbúðum og gera sér grein fyrir hvar og hvernig þau skulu geymd.
  • Geymið hreinsiefni og önnur hættuleg efni þar sem börn ná ekki til - læstur skápur er eina örugga geymslan.
  • Safnið aldrei miklu af efnum heldur reynið að nota sem fæst hættuleg efni, það auðveldar yfirsýn og gæslu.
  • Lyf eiga ætið að vera í læstum skáp, geymið ekki verkjatöflur í heimilissjúkrakassanum sem börn hafa aðgang að.
  • Í bílskúrum og kjöllurum eru hættuleg efni oft geymd. Útbúið læsanlegan skáp þar.
  • Mikilvæg regla er að kanna birgðir, t.d. á vorin, og losa sig við efni sem orðin eru of gömul eða stendur ekki til að nota aftur.
  • Grillvökvi er hættulegt efni, látið hann aldrei standa úti eða við hliðina á grillinu heldur takið hann inn og setjið í læstan skáp.
  • Mörg börn verða fyrir eitrunum af völdum tóbaks. Til að koma í veg fyrir það er besta ráðið að skilja aldrei eftir tóbak á glámbekk né stubba í öskubökkum.
  • Mikilvægt er að eiturefnum sé ekki hellt yfir á gosdrykkjaflöskur eða brúsa undan safa.