Komið í veg fyrir eitranir

Á venjulegu íslensku heimili eru ótal mörg hættuleg efni. Ekki er alltaf augljóst hvar hættan leynist.
Það kemur kannski mörgum á óvart að á venjulegu heimili er að finna ótal mörg efni sem geta valdið eitrunum. Yngstu fjölskyldumeðlimir eru í mestri hættu en um 60% fyrirspurna sem berast eitrunarmiðstöðinni eru vegna barna yngri en 6 ára og er mikill meirihluti þessara eitrana slys sem verða inni á heimilum. Efnin sem oftast koma við sögu eru þvotta- og hreinsiefni, lyf, plöntur, ilmvötn, rakspírar og aðrar snyrtivörur. 

Það hefur sýnt sig að 70-80% allra eitrana má meðhöndla heima en erfitt og jafnvel ógerlegt getur verið fyrir leikmenn að ákveða hvenær svo er og hvenær ekki. Þegar grunsemdir vakna eða ljóst er að eitrun hefur orðið er því öruggast að hringja í eitrunarmiðstöðina í síma 543 2222 og fá upplýsingar og ráðleggingar hjá fagfólki um hvað best sé að gera.

Hvernig hægt er að koma í veg fyrir margar eitranir

Hægt er að koma í veg fyrir margar eitranir, sérstaklega í börnum, með einföldum forvörnum. Börn eru forvitin og oft snarari í snúningum en fullorðnir gera ráð fyrir. Þau geta á augabragði verið búin að stinga einhverju upp í sig eða hella yfir sig. Lítil börn vita ekki hvað þau mega borða og hvað ekki auk þess sem bragðskyn þeirra er óþroskað og þau geta átt það til að setja ýmislegt ofan í sig sem fullorðnir myndu strax spýta út úr sér vegna bragðsins. Þess vegna verða fullorðnir að sjá til þess að fjarlægja öll efni og hluti úr umhverfi barnsins sem geta verið hættuleg lífi og heilsu þess. Til að gera heimilið öruggara er einfalt og gott ráð að ganga um íbúðina sína, taka hvert herbergi fyrir sig og huga að því hvar hættuleg efni og lyf eru geymd. Gott er að hafa til hliðsjónar varnaðarmerki á umbúðum (sjá hér neðar) þó ekki sé hægt að treysta því að öll hættuleg efni séu merkt með varnaðarmerkingum.

 • Eldhúsið
  Mjög algengt er að margskonar hreinsiefni séu geymd í eldhúsinu og gjarnan undir eldhúsvaskinum þar sem auðvelt er fyrir börn að ná í þau. Mörg þessara efna eru mjög ertandi og sum jafnvel ætandi og geta valdið alvarlegum eitrunum. Sem dæmi má nefna uppþvottaefni fyrir sjálfvirkar uppþvottavélar og ofnahreinsiefni. Geymið því ekki hreinsiefni undir eldhúsvaskinum eða annars staðar þar sem börn geta komist í þau. Vítamín og önnur lyf eiga að vera í læstum lyfjaskáp (sjá kaflann um lyf )
 • Þvottahúsið
  Þvottaefni fyrir þvottavélar, klór, blettahreinsiefni, gólfsápur, rúðuúði og ýmiskonar alhliða hreinsiefni eru oft geymd í þvottahúsinu. Flest þessi efni eru mjög ertandi fyrir slímhúðir og valda miklum sviða ef þau komast í augu og ógleði og uppköstum ef þau eru tekin inn. Þau valda þó yfirleitt ekki alvarlegri ætingu eða bruna ef það er í litlu magni.
 • Baðherbergið
  Salernishreinsiefni, baðhreinsiefni og stíflueyðir eru dæmi um hættuleg hreinsiefni sem oft er að finna inni á baðherbergjum. Sum þessara efna geta verið ætandi og valdið alvarlegum eitrunum. Af öðrum hættulegum efnum má nefna aseton, spritt, rakspíra og ilmötn.
 • Svefnherbergi
  Gætið þess að lyf eða sígarettur séu ekki geymd á náttborði.
 • Stofan
  Í stofunni gætu fundist sígarettur eða annað tóbak, áfengir drykkir, lampaolíur, rafhlöður t.d. úr fjarstýringum, tölvum eða tölvuleikjum. Gætið þess að þetta sé ekki aðgengilegt börnum.
 • Bílskúrinn
  Í bílskúrnum leynast oft mörg hættuleg efni eins og ýmiss konar lífræn leysiefni, t.d. terpentína, tjöruhreinsir, grillvökvar og bensín.  Oft eru þar einnig geymd skordýra- og illgresiseitur og sterk hreinsiefni. Þetta eru allt efni sem geta valdið alvarlegum eitrunum í litlu magni.
 • Lyf
  Öll lyf á að geyma í læstum lyfjaskáp þar með talin vítamín og flúortöflur sem algengt er að geymd séu annars staðar t.d. uppi á eldhúsborði. Sum lyf þarf þó að geyma í kæli eins og t.d. marga endaþarmsstíla og skal þá koma þeim þannig fyrir að börn geti ekki auðveldlega náð í þau. Gömul lyf sem hætt er að nota má fara með í næsta apótek sem sér um að láta farga þeim á öruggan hátt.
 • Pottablóm
  Skipta má plöntum gróflega í tvo flokka hvað varðar eituráhrif þeirra á menn. Annars vegar eru plöntur sem í eru eiturefni sem geta haft áhrif á miðtaugakerfið og/eða hjartað og hins vegar plöntur sem í er safi sem er sérstaklega ertandi fyrir slímhimnur, augu og húðina.
  Þegar nýjar pottaplöntur eru keyptar er rétt að athuga hvort þær geti verið eitraðar, flestar blómabúðir geta gefið upplýsingar um það. Einnig er hægt að fá upplýsingar hjá eitrunarmiðstöðinni.

  Dæmi um eitraðar pottaplöntur:  Jólastjarna ( Euphorbia pulcherrima )
  Köllubróðir ( Dieffenbachia)
 • Garðurinn
  Í garðinum geta leynst eitraðar plöntur, mikilvægt er að brýna fyrir börnum að stinga ekki upp í sig blómum, laufblöðum, berjum eða sveppum í garðinum.

  Dæmi um eitraðar plöntur í görðum:

   
   
  Töfratré eða töfrarunni
  ( Daphne mezereum) – mikið eitruð
  Gullregn (Laburnum)

  Á heimasíðu eitrunarmiðstöðvarinnar í Noregi er að finna lista og myndir yfir eitraðar plöntur. Veffangið er: http://www.giftinfo.no

 • Eitur í lofti
  Eitranir vegna eitraðra lofttegunda eru talsvert algengar. Þær eru mjög lúmskar og stundum getur verið erfitt að átta sig á að um eitur í lofti er að ræða. Sterk vísbending um að svo sé er ef fleiri en einn eða margir á sama svæði eru með sömu einkenni.
 • Blöndun hreinsiefna
  Eitraðar lofttegundir geta myndast við blöndun ýmissa hreinsiefna sem til eru á heimilum, t.d. getur myndast eitrað klórgas þegar venjulegur klór til heimilisnota og salernishreinsiefni er blandað saman. Þetta er yfirleitt tekið fram utan á umbúðum efnanna, þess vegna er mikilvægt að lesa allar merkingar á umbúðum vel áður en efnin eru notuð.
 • Kolmónoxíð er eitruð lofttegund sem er lyktarlaus og myndast við ófullkominn bruna eldsneytis, t.d. frá bílum og öðrum ökutækjum, hitatækjum, grillum o.fl. Mjög mikilvægt er að nota ekki gaskyndingu innanhúss nema það sé tryggt að gott útblásturskerfi sé til staðar. Annars má alls ekki sofa með slík tæki eða nota þau lengi í lokuðu herbergi eða í tjaldi. Fyrstu einkenni eitrunar líkjast flensu og eru t.d. höfuðverkur, ógleði, uppköst, máttleysi, drungi, yfirlið og einbeitingarerfiðleikar. Ef ekkert er að gert leiðir eitrunin til dauða. Ef margir eru samankomnir, t.d. heil fjölskylda í sumarbústað, tjaldi eða annars staðar þar sem notuð er gaskynding og allir hafa ofangreind einkenni er mjög líklegt að um kolmónoxíð eitrun sé að ræða.
 • Lífræn leysiefni
  Mikilvægt er að umgangast og nota lífræn leysiefni með varúð, nokkuð er um að fullorðnir og börn hafi fengið lungnabólgu vegna lífrænna leysiefna annað hvort eftir innöndun eða inntöku. Varast ber að anda að sér lífrænum leysiefnum í lokuðu rými og nauðsynlegt er að hafa alltaf góða loftræstingu þegar þessi efni eru notuð, t.d. þegar verið er að vatnsverja skó, leysa upp gamla málningu og þess háttar. Þessi efni eru líka mjög hættuleg ef þau eru tekin inn, algengustu dæmin um inntöku eru þegar börn komast í grilluppkveikilög og súpa á honum og þegar fullorðnir sjúga bensín upp í slöngu með munninum til að flytja á milli bíla og ekki tekst betur til en svo að bensín kemst upp í viðkomandi. Í báðum þessum tilvikum er mikil hætta á lífshættulegri lungnabólgu. Geymið því öll lífræn leysiefni þar sem börn ná ekki í þau, notið aldrei lífræn leysiefni í lokuðu rými og notið alls ekki munninn til að soga bensín eða önnur lífræn leysiefni.

ATHUGIÐ!
 • Setjið aldrei hættuleg efni í umbúðir utan af matvælum. Margar eitranir hafa orðið vegna þess.
 • Hættuleg efni á alltaf að geyma í upprunalegum umbúðum með varnaðarmerkingum og upplýsingum um innihald.
 • Athugið að eitrun verður ekki einungis eftir inntöku hættulegra efna heldur er líka hægt að verða fyrir eitrun með því að anda að sér hættulegum efnum, fá þau á húðina eða í augun.

 

Varnaðarmerki – hættumerki á umbúðum
Skylt er að merkja vörur sem seldar eru til heimilisnota og innihalda hættuleg efni með viðeigandi varnaðarmerkjum.Varnaðarmerki benda á hættuna sem af efninu stafar. Þau eru 10 talsins en eitt og sama efni getur fengið fleiri en eitt varnaðarmerki. Hér fyrir neðan má sjá myndir af þeim merkjum sem algengt er að séu á efnum sem geta valdið eitrun og hvað þau þýða.

  EITUR OG STERKT EITUR. Þessi efni eru ekki leyfð í almennri sölu. Sérstök leyfi þarf til að selja, kaupa og nota slík efni. Hér undir falla t.d. efni sem eru banvæn í litlum styrk.

   
   HÆTTULEGT HEILSU. Efni sem geta haft heilsuspillandi áhrif við langvarandi notkun eða í eitt skipti í miklum styrk. Hættusetningar útskýra nánar í hverju hættan felst. Í þessum flokki eru ýmis rokgjörn leysiefni sem finnast gjarnan í olíuvörum.


  ÆTANDI. Efni sem valda alvarlegum skaða við beina snertingu. Sem dæmi má nefna ýmis sterk hreinsiefni, uppþvottavélaefni og stíflueyða, til dæmis vítissóda.

     ERTANDI. Efni sem geta valdið ertingu, roða og sviða í húð, augum eða öndunarfærum, einkum við langvarandi eða endurtekna notkun. Mörg þvotta-og hreinsiefni eru í þessum flokki.