Eitranir

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar á eitrunum á Íslandi 2001 -2002(1) leituðu rúmlega ellefuhundruð manns á sjúkrahús og heilsugæslustöðvar á landinu vegna eitrana á 12 mánaða tímabili. Á sama tíma bárust eitrunarmiðstöðinni tæplega ellefuhundruð símafyrirspurnir vegna eitrana. Gera má því ráð fyrir að a.m.k. tvöþúsund og tvöhundruð manns leiti til heilbrigðiskerfisins árlega vegna eitrana.

(1) Jakob Kristinsson, Runólfur Pálsson, Guðborg A Guðjónsdóttir, Margrét Blöndal, Sigurður Guðmundsson og Curtis P Snook.. Acute poisonings in Iceland: A prospective nationwide study. Clinical Toxicology2008; 46, 126 – 132.


Börn

Undanfarin ár hafa fyrirspurnir til Eitrunarmiðstöðvarinnar vegna barna 6 ára og yngri verið fimm til sexhundruð á ári.

Flestar eitranir sem lítil börn verða fyrir gerast á heimilum og eru vegna ýmis konar efna sem algeng eru á heimilum. Má þar nefna hreinsiefni t.d. þvottaefni fyrir uppþvottavélar, bleikiefni (klór), salmíakspíritus (ammóníak), ofnahreinsiefni, grillkveikilög, aseton, ilmvötn, rakspíra, sótthreinsispritt, áfengi, terpentínu, frostlög og plöntur.

Lyfjaeitranir eru ekki eins algengar í þessum aldurshópi en koma þó alltof oft fyrir.
Oftast er um að ræða verkjalyf (parasetamól), járn og vítamín sem fólk geymir á stöðum sem börn hafa greiðan aðgang að. Sem betur fer eru flestar eitranir í börnum minniháttar en alvarleg tilfelli koma upp.

Fullorðnir

Um það bil tveir þriðju hlutar eitrana í fullorðnum gerast á heimilum og u.þ.b. 15% á vinnustað. Öfugt við eitranir í börnum eru lyfjaeitranir í meirihluta og oftast er um sjálfseitranir að ræða þ.e. misnotkun lyfja eða sjálfsvígstilraunir. Lyf, sem oftast koma við sögu eru verkjalyf eins og parasetamól, þunglyndislyf, geðlyf, róandi lyf , hjartalyf, ávana- og fíkniefni og áfengi. Aðrar eitranir eru meðal annars vegna eitraðra lofttegunda (t.d. kolmónoxíðs), líffrænna leysiefna, hreinsiefna, sýru, basa og meindýraeiturs.

Hvaða eitranir eru alvarlegastar?

Banvænar eitranir voru að meðaltali 25 á ári frá 2001–2006. Flestar banvænar eitranir hér á landi tengjast neyslu áfengis. Eru sumar af völdum áfengis eingöngu, en flestar eru þó vegna inntöku lyfja og áfengis samtímis.

Næst á eftir lyfjum og áfengi veldur kolmónoxíð (CO) oftast banvænum eitrunum. Kolmónoxíðeitranir geta t.d. orðið þegar fólk andar að sér útblæstri frá ökutækjum eða hiturum í lokuðu rými og við húsbruna þegar fólk andar að sér reyk.
Af öðrum alvarlegum eitrunum má nefna eitranir af völdum lífrænna leysiefna, t.d. lampaolíu og grillvökva þegar þau hafa komist niður í lungu eftir inntöku.

Ástæða eitrana eftir aldri